Ómaklegar ásakanir samgönguráðherra.

Pistlar
Share

Í fyrradag birtist á vef Bæjarins Besta á Ísafirði grein eftir Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra. Inntakið í grein hans er að verja aðgerðir hans og ríkisstjórnarinnar um frestun vegaframkvæmda á Vestfjörðum og víðar. En Sturla gengur lengra og bendir á sökudólg, hann finnur sér blóraböggul til þess að hengja upp og skella skuldinni á. Það er Framsóknarflokkurinn.

Samgönguráðherra segir fullum fetum að kosningaloforð um 90% lán til íbúðarkaupa hafi hrundið af stað "mikilli óheillaþróun í verðlagsmálum sem nú er verið að bregðast við". Skriða "verðhækkana og spennu með verðbólguskoti var sá hrunadans húsbygginga á höfuðborgarsvæðinu sem hófst með því að Íbúðalánasjóður og síðan bankarnir hófu að lána stjórnlaust til íbúðakaupa og íbúðabygginga svo nam allt að 90% byggingarkostnaðar".

Þetta verður ekki misskilið, ráðherrann er að segja Vestfirðingum að kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% húsnæðislán valdi verðbólgunni sem aftur gerir "aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við verðbólgu óumflýjanlegar" eins og ráðherrann segir í grein sinni. Eða með öðrum orðum að frestun vegaframkvæmda nú séu 90% lánunum að kenna. Ekki benda á mig, er ráðherrann að segja og bendir í staðinn á Framsókn.

Við þetta er margt að athuga. Í fyrsta lagi að það þurfti að grípa til aðhaldsaðgerða áður en verðbólgan komst á skrið og þá til þess að koma í veg fyrir verðbólguna. Þessar aðgerðir koma of seint til þess. Engu að síður er ég sammála ríkisstjórninni að það er aðgerða þörf, en þær eiga að miða að því að draga úr einkaneyslu og lánveitingum bankanna sem hafa dælt hundruð milljarða króna af erlendu lánsfé inn í hagkerfið á síðustu tveimur árum.

Vegaframkvæmdirnar eru það lítið hlutfall af umsvifunum að engu máli skiptir í glímunni við verðbólguna að fresta þeim. Það sem sennilega hleypir illu blóði í almenning vestra og kannski víðar er að aðeins hluta af framkvæmdunum er frestað. Forsætisráðherrann sagði þegar hann kynnti aðgerðirnar að þær næðu ekki til byggingar ráðstefnu- og tónlistarhúss í Reykjavík og svo vildi til að nýbúið var skrifa undir samning um Héðinsfjarðargöng svo ekki verður þeim frestað. Þarna eru tvær stærstu framkvæmdirnar að ræða. Ekki á að fresta Sundabraut og ekki hátæknisjúkrahúsinu. Ef ríkisstjórnin vill endilega fresta framkvæmdum sem ríkið stendur að eða greiðir þá þýðir ekki að tína út úr valdar framkvæmdir að sleppa þeim en láta þungann af frestunina bitna á fámennustu landssvæðunum með verstu vegina.

Í öðru lagi geri ég þá athugasemd að lögfestar skattalækkanir upp á 25 – 27 milljarða króna á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan eru í hámarki eru ekki beinlínis það skynsamlegasta í stöðunni. Það voru kosningaloforð líka, frá báðum stjórnarflokkunum eins og Sturla eflaust man vel. Fyrri áfangi skattalækkunar kom til framkvæmda í fyrra og nýjar tölur leiða í ljós að launahækkun á almenna vinnumarkaðnum varð um 13% á sama tíma. Er hægt að finna einhverja betri uppskrift að sprengingu í einkaneyslu sem er drifin áfram af lántökum en þetta og lögbundna skattalækkun til viðbótar á næsta ári? Það liggur í augum uppi að fljótvirkasta ráðið til þess að slá á einkaneysluna er að fresta skattalækkuninni fram yfir stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi.

Í þriðja lagi þá eru viðskiptabankarnir ekki undanþegnir almennri efnahagstjórn. Þegar þeir fara offari í umsvifum sínum verða stjórnvöld að grípa til aðgerða, svo sem að taka upp aftur bindiskyldu. Stýrivaxtastefna Seðlabankans býr til hátt vaxtastig innanlands og gerir bönkum og fleirum kleift að taka erlend lán á lágum vöxtum og endurlána innanlands með 6-7% vaxtamun. Hvers konar stjórn er þetta? Svo halda menn að ráðið sé að stoppa vegagerð á Vestfjörðum.

Í fjórða lagi þá er allt tal um hverja stóriðjuna á fætur annarri næstu 10 árin eða svo eins og að hella olíu á skíðlogandi bál. Það er engin von til þess að halda aftur af verðbólgunni meðan svona er talað. Framkvæmdir á fáum árum upp á þrjú álver með tilheyrandi virkjunum fyrir 450 milljarða króna í beinu framhaldi af framkvæmdum fyrir 200 milljarða króna eru í hinu litla íslenska hagkerfi "den gale vanvittighed" og þá er ég hræddur um að fresta þurfi Hófaskarðsleiðinni á Melrakkasléttu a.m.k. í 500 ár ef vel á að vera.

En það var þetta með 90% íbúðalánin og að allur okkar vandi sé þeim að kenna. Við þessa fullyrðingu Sturlu Böðvarssonar geri ég alvarlega athugasemd. Fram að lagabreytingunni var lánað í Íbúðalánsjóði 65% af kaupverði íbúðar og þeir sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð fengu 70%. Um það bil þriðjungur kaupenda fékk svo viðbótarlán allt upp í 90%. Þannig var staðan. Breytingin sem Framsóknaflokkurinn fékk samþykkt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eftir síðustu Alþingiskosningar þýddi að öllum var gert kleyft að fá 90% lán í Íbúðalánasjóði. Það var áformað að hækka lánshlutfallið í áföngum þar til 90% lánshlutfalli yrði náð á árinu 2007.

Hins vegar ákváðu viðskiptabankarnir að opna allar gáttir strax í ágúst 2004 og buðu öllum allt að 100% lán af markaðsverði íbúðar og skipti engu hvort um einhver viðskipti var að ræða eða ekki. Bankarnir gengu miklu lengra en Íbúðalánsjóður bæði í lánshlutfalli og hámarki lánsfjárhæðar. Þarna tóku á skömmum tíma að renna tugir ef ekki hundruð milljarða króna út í einkaneyslu sem að sjálfsögðu höfðu mikil áhrif á verðbólgustigið. Íbúðalánsjóður lánar ekki meira en sem nemur brunabótamati íbúðar og aðeins þegar viðskipti eiga sér stað og þess verður hvorki hægt að skrifa hina miklu verðhækkun fasteigna á höfuðborgarsvæðinu á sjóðinn né þensluna Í þjóðfélaginu. Þá ábyrgð verða bankarnir að bera því að þeir lánuðu upp í markaðsverð hverju sinni, þótt það væri langt yfir byggingarkostnaði.

Þannig er þessi saga og það veit samgönguráðherra. Hvorki eru 90% lánin orsök verðbólgunnar nú né starfsemi Íbúðalánsjóðs. Vandinn liggur í ábyrgðarleysi viðskiptabankanna, sem ætluðu sér að koma Íbúðalánsjóði á kné, og því að staðið hefur á því að fella bankana undir efnahagstjórnunina. Þeir hafa fengið til þessa að leika lausum hala. Hvers vegna svo er getur ráðherrann betur svarað en ég, hann veit væntanlega meira um það hverjir hafa staðið í veginum. Það er stóra spurningin málinu: hvers vegna hefur ekki verið tekið á útlánastarfsemi bankanna ? Þar getur auðvitað verið um sameiginlega ábyrgð ráðherranna eða stjórnarflokkanna að ræða, en aðalatriðið er að taka á vandanum. Stjórnarsamstarfið getur ekki gengið út á að finna blóraböggul.

En að lokun, niðurstaða mín er að ásakanir samgönguráðherra á hendur samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn eru ómaklegar og ósannar. Kosningaloforðið um 90% húsnæðislán er ekki ástæðan fyrir frestun vegaframkvæmda á Vestfjörðum. Það veit samgönguráðherrann og hann veit það líka að honum er ætlað að standa vörð innan ríkisstjórnarinnar um framgang vegagerðar. Hann hefur sterk rök fyrir því að í þeim efnum verði ekki hvikað frá samþykktum Alþingis. Hann á að vinna að því.

Athugasemdir