Fjármagnskostnaðurinn er stóra málið.

Greinar
Share

Athyglinni hefur verið beint að matarverði sem sérstöku vandamáli. Fyrir helgina kom út skýrsla sem formaður nefndar nokkurrar tók saman, en nefndin hafði fengið það hlutverk að skoða helstu ástæður " hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur um að færa matvælaverð nær því sem gengur og gerist í nágrannaríkjunum" eins og segir í innganginum.

Undanfarna mánuði hafa stjórnvöld keppst við að draga úr þenslunni í þjóðfélaginu og einkum horft til þess að minnka einkaneysluna með því að hækka raunvexti af skuldum heimilanna. Vaxtahækkunin og lækkun lánshlutfalls íbúðalána hækkar mánaðarlegu útgjöldin og minnkar þannig ráðstöfunartekjurnar.

Það skýtur skökku við að boða nú tillögur til þess að auka ráðstöfunartekjurnar aftur með því að lækka opinberar álögur á matvæli og drykkjarvörur. Skilaboðin sem almenningur les út úr þessu eru að framundan er nýtt svigrúm til neyslu sem hlýtur að vinna gegn efnahagslegum áhrifum vaxtahækkunarinnar. Varla er það sérstakt keppikefli stjórnvalda að færa útgjöld heimilanna frá matvælum til fjármagnskostnaðar. Hagnaður viðskiptabankanna var á síðasta ári um 117 milljarðar króna og þarf einhverju við hann að bæta?

Það er svo annað mál að vissulega er matvælaverðið hátt, en hafa verður í huga að verð á markaði ræðst af kaupgetunni fremur en framleiðslukostnaði. Þótt hið opinbera lækki skatta og gjöld af matvælum og jafnvel opni fyrir innflutning í aukinn mæli er engin vissa fyrir því að það leiði til lækkunar á verði til neytenda í sama mæli. Í markaðshagkerfinu er keppikefli seljandans að hagnast sem mest en ekki að selja á lágu verði.

Eðlilegt að miða við verðlag í löndum með sambærilegan kaupmátt. Matvælaverð hérlendis er sama og í Noregi, um 11% hærra en í Danmörku og um 26-27% hærra en í Svíþjóð og á Finnlandi. Þetta þarf að hafa í huga þegar sett eru markmið um verðlag á matvælum hérlendis.

Tillögurnar í skýrslunni eru um afnám vörugjalds, niðurfellingu tiltekinna tolla og lækkun virðisaukaskatts og er áætlað að þær lækki matvöruverð um 7,5% eða um 50 þúsund krónur á ári hjá meðalheimili. Staðreyndin er sú að hlutur matvöru í útgjöldum heimilanna hefur farið minnkandi mörg undanfarin ár og samkvæmt nýjustu rannsókn Hagstofu Íslands er hann nú 14,4%. Aðrir liðir svo sem húsnæði, hiti og rafmagn og ferðir og flutningar eru miklu hærri og fer hartnær þrisvar sinnum hærri fjárhæð árlega til þeirra þarfa en matvæla.

Þótt ég vilji ekki gera lítið úr því að auka ráðstöfunartekjur meðalfjölskyldu um 4000 kr. á mánuði, sem tillögurnar fela í sér, þá verður að benda á að fjármagnskostnaður hefur miklu meiri áhrif á fjárhag heimilanna. Skuldir þeirra hafa vaxið um ríflega 300 milljarða króna á aðeins tveimur árum og voru um síðustu áramót tæplega 1100 milljarðar króna.

Hækkun raunvaxta íbúðalána að undanförnu um tæplega 1% kostar sitt. Sem dæmi má nefna að kostnaður við 15,9 mkr. lán hækkaði úr 16,7 mkr. í 20,1 mkr. við hækkun vaxta úr 4.15% í 4,85%. Hækkun er um 3,4 milljónir króna eða um 20%. Mánaðarlegar greiðslur hækkuðu um rúmar 7.000 krónur á hverjum mánuði næstu 40 árin. Síðan hafa vextirnir hækkað enn frekar.

Ofan á þessa miklu hækkun vaxta undanfarna mánuði bætist að raunvextir á Íslandi eru sérstaklega háir í alþjóðlegum samanburði. "Dýrast að taka húsnæðislán á Íslandi" var fyrirsögn á frétt í Morgunblaðinu 17. nóvember í fyrra og lýsti niðurstöðu skýrslu sem neytendasamtökin létu vinna í samvinnu við neytendasamtök í 9 öðrum Evrópuríkjum.

"Vextir hér eru þeir hæstu á því svæði sem könnunin nær til. raunvextir eru að jafnaði frá 2 og upp í tæplega 5 prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum. Að auki er kostnaður við greiðslu afborgana mun hærri og uppgreiðslugjald er yfirleitt hærra" segir í fréttinni og er vitnað beint í tilkynningu Neytendasamtakanna.

Kostnaður heimilanna af háu verði lánsfjár á Íslandi er miklu meiri en af matarverðinu. Ætla má að umfram fjármagnskostnaðurinn sé um 200 – 500 þúsund krónur á hverju ári fyrir hvert heimili að meðaltali miðað við tölur um heildarskuldsetningu íslensku heimilanna. Það er miklu meira hagsmunamál fyrir almenning að taka fjármálamarkaðinn í gegn og lækka kostnað neytenda af viðskiptum við hann.

Hvenær mun forsætisráðherra að skipa nefnd um helstu orsakaþætti fyrir háum fjármagnskostnaði á Íslandi og óska eftir tillögum um leiðir til þess að lækka hann? Fjármagnskostnaðurinn er stóra málið.

Athugasemdir