Stefnubreyting í umhverfismálum

Pistlar
Share

Það hefur orðið stefnubreyting innan Framsóknarflokksins í afstöðu til umhverfisverndar á síðustu mánuðum. Nú er klárlega meirihluti fyrir því að stækka friðlandið í Þjórsárverum og hætta við öll áform um frekara rask þar, svo sem með Norðlingaölduveitu.

Tveir ráðherrar flokksins, umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra, lýstu fyrir fáum dögum stuðningi sínum við friðun Þjórársvera.
Eftir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur, sem ógilti þann hluta af úrskurði setts umhverfisráðherra sem laut að því að heimila Kvíslarveitu 6 án umhverfismats, eru áformin um Norðlingaölduveitu í uppnámi og vandséð að nokkur pólitískur vilji sé til þess að halda þeim til streitu.

Nú þegar Framsóknarflokkurinn hefur tekið við umhverfisráðuneytinu á nýjan leik á að stíga skrefið til fulls og slá Norðlingaöldu af fyrir fullt og fast og stækka friðlandið í Þjórsárverum. Þannig getur flokkurinn áunnið sér traust og stuðning kjósenda, og sýnt í verki að honum sé alvara.

Ég fagna þessum vaxandi stuðningi innan flokksins við umhverfisvernd og tel að stefnubreytingin verði flokknum til framdráttar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Afar slök útkoma flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum á sér ýmsar skýringar, en umhverfismálin hafa verið þung í skauti. Það hefði hjálpað til í sveitarstjórnarkosningunum ef sjónarmið okkar, sem talað höfum fyrir verndun Þjórsárvera, hefðu fyrr orðið ofaná, til dæmis í janúar síðastliðnum.

Þá fór fram opinber umræða um Þjórsárverin og Norðlingaölduveituna eftir að ég hafði lýst þeirri skoðun minni í blaðaviðtali að slá ætti af Norðlingaölduveitu og í framhaldinu var endurflutt þingsályktunartillaga á Alþingi um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ég ákvað að þiggja boð um að vera einn af flutningsmönnum málsins. Þá varð vendipunktur í málinu og eftir það var ég viss um að sigur væri innan seilingar eins og lesa má í pistlum mínum frá þeim tíma. Fyrir flokkinn var þá einboðið að draga upp umhverfisverndarflaggið og ég er ekki í nokkrum vafa um að ef það hefði verið gert með myndarlegum hætti hefði flokknum farnast mun betur í sveitarstjórnarkosningunum en raunin varð.

Því miður var tækifærið ekki notað, Norðlingaölduveitan var sett til hliðar aðeins í bili sem vissulega var spor í rétta átt en ekki nógu ákveðið og það gróf undan tiltrú á því að um raunverulega viðhorfsbreytingu væri að ræða að í framhaldinu var talað fullum hálsi fyrir þremur nýjum álverum og virkjunarframkvæmdum á næstu árum rétt eins og það væri ekkert mál, hvorki af efnahagslegum né umhverfislegum ástæðum. Ég held að þær áherslur hafi verið mistök.

Innan Framsóknarflokksins hafa löngum verið talsmenn umhverfis- og náttúruverndar. Minna má á tvo fyrrverandi formenn flokksins þá Eystein Jónsson og Steingrím Hermannsson. Formaður samvinnunefndar um miðhálendið, Óskar Bergsson hefur verið einarður talsmaður þessara sjónarmiða og Ólafur Örn Haraldsson og Jón Helgason fyrrv. alþingismenn og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir fyrrv. varaþingmaður, svo einhverjir séu nefndir til viðbótar.

Á síðasta flokksþingi, sem haldið var í febrúar 2005, flutti ég ásamt Steingrími Hermannssyni tillögu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og að hætt yrði við öll áform um virkjanir á því svæði. Þessi tillöguflutningur var í eðlilegu samræmi við fyrri áherslur flokksins, en nýmæli hvað Þjórsárver varðar og gegn ríkjandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Tillagan var ekki samþykkt þá heldur vísað til nefndar. Engu að síður hafði það sín áhrif að hreyfa málinu þá eins og síðar átti eftir að koma í ljós. Nú er tilvalið að taka málið upp að nýju á flokksþinginu í næsta mánuði og staðfesta þar hin breyttu viðhorf með samþykkt um friðun Þjórsárvera.

Það er aðeins liðið rúmt ár frá því friðun Þjórsárvera var tekin upp á flokksþinginu. Fyrir þeim sjónarmiðun hefur síðan verið talað innan flokksins og í opinberri umræðu. Á þessum skamma tíma er alger stefnubreyting orðin staðreynd eins og staðfest er í yfirlýsingum ráðherranna tveggja. Það er mikill árangur og sýnir áhrifamáttt skoðana og málflutnings.

Ég held reyndar að almennt sé það frekar stjórnmálaflokki til styrktar að málsvarar ýmissa sjónarmiða finni sér vettvang í honum, láta í sér heyra leynt og ljóst og hafi áhrif á stefnuna með marktækum hætti. Lýðræðislegir starfshættir styrkja og efla stjórnmálastarf og eru besta tryggingin að menn uni niðurstöðunni hverju sinni og vinni að framgangi hennar. Ekki má gleyma því að stjórnmálaflokkur er hreyfing fólks en ekki fótgönguliðar herforingja.

Athugasemdir