Kvótakerfið kveikir nýja elda

Pistlar
Share

Enn blossa upp eldar vegna ranglæti kvótakerfisins í sjávarútvegi þegar minnst varir. Það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist og verður ekki í það síðasta meðan ráðamenn láta það ógert að eyða þeirri meinsemd sem í kerfinu þrífst og tengist úthlutun veiðiheimilda og framsali þeirra.

Á síðasta kjörtímabili fór fram á vegum ríkisstjórnarinnar endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða og samtímis var innan Framsóknarflokksins endurskoðuð stefna flokksins. Á báðum stöðum varð niðurstaðan óbreytt kerfi að viðbættu því að innheimta óverulegt gjald til ríkisins af úthlutun veiðiheimilda til útgerðarmanna. Þá var talið að komin væri á langþráð sátt um kerfið. En viti menn, deilumálið skaut upp kollinum í síðustu Alþingiskosningum af ekki minni krafti en áður.

Sáttin varð ekki sátt meðal landsmanna vegna þess að vísvitandi var sneitt hjá því að stinga á kýlinu sem veldur deilunum. Engu hefur enn verið breytt og talsmenn kerfisins hafa notað hvert tækifæri undanfarin þrjú ár til þess að lofsyngja kerfið og útbreiða fagnaðarerindið um heimsbyggðina. En í hvert sinn sem talið er að öll andstaða hafi verið brotin á bak aftur og loksins sé almenningur orðinn sáttur við kerfið þá gýs upp almenn óánægja og andstaða.

Það gerðist líka núna. Fréttir bárust um það að stór hluti af kvóta Grímseyinga væri til sölu. Þær minntu á einn helsta galla kerfisins: fáir menn hafa í hendi sér að svipta svo marga atvinnu sinni að heilt byggðarlag verður í uppnámi. Þrátt fyrir að þjóðin hafi séð þetta gerast í mörgum sjávarplássum landsins, eða kannski vegna þess, þá er andstaðan og andúðin á þessum afleiðingum kerfisins enn mikil og virðist síst fara minnkandi. Það er rótgróin andúð landsmanna á því að sérhagsmunir fárra séu hafðir í fyrirrúmi og almannahagsmunir víkji fyrir þeim.

Annar galli er ekki síður á kerfinu og Grímseyjarmálið dregur fram. Handhafar aflaheimildanna mega selja þær þótt þær séu þjóðareign og andvirðið rennur í þeirra vasa algerlega óháð því hvað seljandinn greiddi fyrir þær eða hvort hann yfirhöfuð greiddi nokkuð. Mörg dæmi eru um mikinn gróða einstaklinga sem hafa náð milljörðum króna. Það er engin sátt um þessar gjafir.

Nýjustu eldarnir sem nú loga eru í Færeyjum. Samkvæmt fréttum hefur dótturfyrirtæki Samherja keypt færeyskt skip ásamt veiðiheildum fyrir jafnvirði nærri 4 milljörðum króna. Að sögn fréttaritara NFS í Færeyjum kraumar óánægjan meðal almennings vegna sölu á eign færeysks almennings, veiðiheimildunum, út úr landi. Salan er skattfrjáls og kemur því ekki einu sinni Færeyingum til góða í formi skatttekna að því er Högni Hoydal segir. Þess hefur verið krafist að Lögþingið færeyska látið málið til sín taka með lagabreytingu.

Þessi tvö dæmi staðfesta að engin sátt er komin á um kvótakerfið. Það verður að taka á meinsemdinni og gera breytingar á kerfinu í þágu almannahagsmuna og víkja verður sérhagsmunum til hliðar. Á meðan það hefur ekki verið gert er óráðlegt að flytja út til annarra landa ranglæti kvótakerfisins.

Athugasemdir