Eftir sveitarstjórnarkosningarnar skrifaði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins grein á heimasíðu sinni sem hann nefndi hrakfarir vinstri hræðslubandalaganna. Vinstri hræðslubandalög eru í hans skilningi bandalag um framboð sem Sjálfstæðisflokkurinn á ekki aðild að.
Einar er yfirleitt málefnalegur í skrifum sínum, en að þessu sinni festist hann í gömlum Heimdallarstráksskap, sem einkennist af þótta og yfirlæti. Mórallinn í grein hans er eitthvað á þessa leið: andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru hræddir og þora ekki að bjóða fram nema saman, veikir flokkar smala sér saman í lið og sums staðar er Framsóknarflokkurinn með. Svo eru þeir uppnefndir sem standa að bandalögum eða bandalögin sjálf: skyrhræringur, hræðslubandalög, samkrullstýra og bix. Sjálfstæðisflokkurinn er svo settur í hlutverk fórnarlambsins. Einar talar um atlögu að Sjálfstæðisflokknum sem að sjálfsögðu geigaði og andstæðingarnir fóru í hrakför og er lítið úr þeim gert.
Þetta er svo sem gamalt ráð til þess að þjappa liðinu saman og segir mér að Einar telur verulega veikleika vera í fylgi Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir gott fylgi flokksins í mörgum sveitarfélögum. Það má til sanns vegar færa, í Reykjavík mistókst flokknum að ná meirihluta eftir 12 ára hrakfarir gegn Reykjavíkurlistanum, svo notað sé stílbragð Einars, og raunar varð útkoman ein sú versta í sögu flokksins.
Í Mosfellsbæ féll meirihluti Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir að aðrir flokkar byðu fram hver sinn lista. Þar þurfti ekkert "hræðslubandalag" til. Leyfist mér að minna á hraksmánarlega útkomu Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði? Á Akureyri hvarf hinn mikli sigur sem dögg fyrir sólu. Meirihluti flokksins féll í Bolungavík og Vesturbyggð þar sem "hræðslubandalög" unnu.
Í fyrsta sinn verður flokkurinn að deila völdum með öðrum flokki. Árangurinn af Reykjavíkurlistanum varð sá að Sjálfstæðisflokkurinn kemst nú ekki til valda af eigin rammleik og ekki líklegt að svo verði í fyrirsjáanlegri framtíð. Flokkurinn hefur veikst verulega og er ekki lengur einráður um lengri eða skemmri tíma. Er það ekki líklegra, í þessu ljósi, að hræðslan sé hjá Sjálfstæðisflokknum en þeim sem standa að framboðsbandalögunum, þannig að þar er hið eiginlega hræðslubandalag sem Einar talar um?
Annars er Sjálfstæðisflokkurinn ekki alveg laus við að taka þátt í bandalögum. Fyrir 4 árum bauð flokkurinn fram á Húsavík með Framsóknarflokknum með slökum árangri. Á Hólmavík standa sjálfstæðismenn að framboðslista með öðrum. Á Tálknafirði og í Vesturbyggð býður flokkurinn fram með óháðum á báðum stöðum. Fulltrúi óháðra á D listanum í Vesturbyggð sendi frá sér fyrir hönd óháðra á listanum eigin fréttatilkynningu eftir kosningarnar, þar sem hann þakkaði sjálfstæðismönnum fyrir samstarfið. Eru þessi bandalög Sjálfstæðisflokksins ekki "skyrhræringur" eða "samkrullstýra" og voru úrslitin í Vesturbyggð ekki hrakfarir "hræðslubandalags" Sjálfstæðisflokks og óháðra sem tapaði fyrir Samstöðu, bandalagi einstaklinga, þar sem flestir styðja annan flokk en Sjálfstæðisflokk?
Mér finnst hvorki rétt né málefnalegt að tala um framboðsbandalög eins og Einar K. Guðfinnsson gerir. Þeir sem standa að þeim eru ekki hræddir, heldur eru þeir að leitast við að auka líkurnar á því að koma einhverju af sínummálum fram með því að gera bandalag fyrir kosningar við aðra. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur þar sem hann telur það eiga við og mér finnst ekkert að því.
Það þarf að undirstrika að lýðræðið felur í sér að enginn einn flokkur á öðrum fremur rétt til þess að vera við völd. Það er ekki aðför að Sjálfstæðisflokknum þótt aðrir vilji stjórna og það er engin ástæða til þess að uppnefna þá skyrhræring eða bix sem bjóða sig fram til þjónustu fyrir kjósendur, þótt þeir séu ekki í Sjálfstæðisflokknum.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra skrifaði á bb-vefnum 24. maí, þremur dögum fyrir kosningar. Þar eru líka óheppileg ummæli sem hafa valdið undrun, kannski vegna ónákvæmni í orðavali. Í greininni segist ráðherrann vonast til þess að samgönguráðuneytið geta átt áfram gott samstarf við " við þá öflugu sveit sem leitt hefur bæjarmálin á Ísafirði undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna" og segir ennfremur að það sé " mikilvægt að tryggja áfram sterka stöðu sjálfstæðismanna við stjórn bæjarmála á Ísafirði. Þannig eru hagsmunum íbúa bæjarins best tryggðir. Miklum árangri síðustu ára yrði fórnað með því að koma til valda ósamstæðum hópi þriggja flokka."
Það má svo sem skilja það að hann telji sig geta átt betra samstarf við eigin flokksmenn í Ísafjarðarbæ en aðra, en honum ber auðvitað sem ráðherra og þingmanni kjördæmisins að leggja sig fram um að ná góðum árangri í málefnum bæjarfélagsins burtséð frá því hverja íbúarnir velja til þess að stjórna bæjarfélaginu. Þær spurningar hljóta að vakna hvers vegna ráðherrann heldur því fram að minni árangur náist í samgöngumálum ef "hópur þriggja flokka" stjórnar bæjarfélaginu og hvort vilji Samgönguráðuneytisins til samstarfs við bæjarfélagið verði minni ef sjálfstæðismenn eru ekki við völd.
Þessar spurningar vakna eðlilega hjá hverjum sem les grein ráðherrans og þess vegna verður hann að leiðrétta greinina sem fyrst þannig að enginn misskilningur sé uppi um afstöðu hans. Ég hef enga trú á því að ráðherrann meini það sem lesa má út úr greininni, en hann þarf að eyða misskilningi sem hún hefur valdið.
Athugasemdir