Áfram í Vatnsmýrinni

Pistlar
Share

Hvernig sem ég velti fyrir mér staðsetningu Reykjavíkurflugvallar þá verður niðurstaðan alltaf sú sama, að best sé að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Það hygg ég að sé ódýrasti kosturinn og bestur fyrir flugfarþega og sjúkraflug. Það má búast við að skoðað verði að hvort hægt verði að breyta legu núverandi brauta án þess að skaða notagildi vallarins en fá aukið svigrúm til bygginga í Vatnsmýrinni.

Örugglega er hægt að gera flugvöll á Lönguskerjum, en kostnaður við það verður mun meiri en að gera nýjan flugvöll á landi og að auki mun landmyndun á skerjunum verða fljótlega jafnverðmæt og núverandi land í Vatnsmýrinni og þá verður meira upp úr því að hafa að nota skerjafyllinguna undir byggingar en flugvöll. Þar með verður þess krafist að flytja völlinn þaðan eitthvert annað. Þá mælir það gegn Lönguskerjum að nágrannarnir virðast allir andvígir flugvelli þar.

Það er ekki hægt að hafa bara einn flugvöll við Faxaflóa. Ef afráðið verður að leggja niður Reykjavíkurflugvöll þá verður að gera annan flugvöll í staðinn sem getur verið varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll eða öfugt. Líklegast er að þá verði gerður flugvöllur í Árnessýslu, t.d. í nágrenni við Selfoss. Vegna þarfarinnar fyrir varaflugvöll er ekki raunhæft að hægt sé að spara fé með því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll.

Það er í raun frekar hægt að færa rök fyrir því að færa millilandaflug frá Keflavík til Reykjavíkur en hinu gagnstæða að færa innanlandsflugið til Keflavíkur. Flestir farþegar til landsins eru hvort sem er á leiðinni til Reykjavíkur og það yrði mikið hagræði og verulegur sparnaður fyrir þá og sama á við um brottfararfarþega. Hvort það er svo æskilegt og hver kostnaður gæti verið veit ég ekki um enda legg ég það ekki til, en sjálfsagt er að athuga báða kosti vilji menn gera heildarúttekt á því að færa saman innlandsflug og millilandaflug. En þá þarf alltaf að gera ráð fyrir því að hafa varaflugvöll.

Umræðan sem nú fer fram um Reykjavíkurflugvöll hefur breyst mikið frá því sem var. Nú eru raddirnar um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll svo gott sem þagnaðar og gengið út frá því að flugvöllur verði að vera á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikil framför. Nú er tekist á um hvar völlurinn verði á höfuðborgarsvæðinu. Líklegasta niðurstaðan er að völlurinn fari hvergi og verði áfram í Vatnsmýrinni.

Athugasemdir