Framsókn í Ísafjarðarbæ stendur vel

Pistlar
Share

Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir NFS, sem birt var í kvöld, sýnir að staða Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ er góð í upphafi kosningabaráttunnar og að flokkurinn á góða möguleika á því að halda því fylgi sem flokkurinn fékk í kosningunum 2002 og jafnvel bæta við sig. Samkvæmt könnuninni mælist flokkurinn með 14% fylgi en í kosningunum fyrir 4 árum fékk hann 17,5% atkvæða.

Þetta er aðeins 3,5% fylgistap, sem verður að teljast lítill samdráttur miðað við fylgistap flokksins í öðrum bæjarfélögum þar sem Félagsvísindastofnun hefur gert kannanir. Þannig hafði Framsókn á Akranesi misst um 14% fylgisins, ríflega helming, frá síðustu kosningum, um 10% fylgistap var hjá Framsókn í Árborg og sama á Akureyri. Framsóknarmenn í Ísafjarðarbæ eiga alla möguleika á því að sækja í sig veðrið í kosningabaráttunni og fá sama fylgi og fyrir fjórum árum. Það yrði að teljast allgóður árangur í ljósi stöðu flokksins á landsvísu.

Það fer ekki á milli mála að Framsóknarflokkurinn á undir högg að sækja í komandi sveitarstjórnarkosningum og þar gætir mjög ríkisstjórnarsamstarfsins, sem ekki er að skila flokknum árangri í fylgi, heldur þvert á móti. Þessi bærilega staða flokksins í Ísafjarðarbæ er sérstaklega athyglisverð í ljósi neikvæðrar þróunar í atvinnumálum síðustu ár. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fækkað störfum á Vestfjörðum um tæp 10% eða um 460 á aðeins sex ára tímabili frá 1998 til 2004, auk þess sem meðaltekjur lækkuðu sem hlutfall af meðaltekjum á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert svæði á landinu hefur mátt þola slíkan afturkipp.

Annað vekur athygli í fylgiskönnun Félagsvísindastofnunar og það er staða Sjálfstæðisflokksins. Í öðrum bæjarfélögum hefur það verið meginlínan að flokkurinn er í stórsókn. En í Ísafjarðarbæ bregður svo við að flokkurinn missir um 4% fylgi. Það eru veruleg tíðindi og úr þeim má lesa að þrátt fyrir góðan byr flokksins víðast hvar á landinu þá er hann í vörn á Vestfjörðum. Það held ég að fari ekki milli mála. Það er sláandi, reynist þetta rétt mat hjá mér, hversu ólík staða ríkisstjórnarflokkanna er, báðir að vísu tapa fylgi, en Framsókn stendur betur í Ísafjarðarbæ en í öðrum bæjarfélögum sem hafa verið könnuð en Sjálfstæðisflokkurinn stendur verr fyrir vestan en annars staðar, 31% fylgi þykir ekki mikið á þeim bænum.

Loks er það niðurstaða könnunarinnar í kvöld að Í-listinn er í sókn og sameiginlega framboðið vinnur verulega á miðað við síðustu bæjarstjórnarkosningar. Því er ekkert að leyna að í því eru þau skilaboð frá kjósendum, á þessu stigi a.m.k., að þeir vilja breytingar. Það virðist hafa tekist vel að koma ólíkum flokkum saman og manna listann.

Kosningarnar verða örugglega spennandi fyrir vestan, Framsóknarflokkurinn stendur vel og mun ná góðum árangri, það er ég viss um. Nóg er komið af undanhaldi á Vestfjörðum og allir flokkar munu leggja áherslu á að sækja fram og senda flokkunum á landsvísu skýr og ótvíræð skilaboð um framsóknina sem krafan er gerð um. Þetta verða framsóknarkosningar í vor í tvöföldum skilningi.

Athugasemdir