Afmælisdagur Jónasar frá Hriflu – skipting arðsins.

Pistlar
Share

Í dag eru liðin 121 ár frá fæðingu Jónasar Jónssonar frá Hriflu í Ljósavatnshreppi. Það er óneitanlega skemmtileg tilviljun og að mörgu leyti vel við hæfi að fæðingardagur hans skuli síðar hafa orðið baráttudagur verkalýðsins, svo samofin sem saga Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins er pólitískum verkum Jónasar.

Í ritinu Stofnsaga Framsóknarflokksins segir Þorsteinn M. Jónsson svo um Jónas:
“Jónas sat í Möðruvallaskóla, sem þá var fluttur til Akureyrar, árin 1903-1905. Var hann afburðanámsmaður og vakti þegar athygli sem foringi í ýmsum deilumálum, er upp komu í skólanum. Hann stundaði nám erlendis í Askov í Danmörku, í Berlín, Oxford, London og París árin 1906-1909. Er hann kom heim 1909, varð hann kennari við Kennaraskólann. Einn af mestu áhrifamönnum ungmennafélagshreyfingarinnar í þann tíð, Guðbrandur Magnússon kom því til leiðar, að Jónas varð ritstjórni Skinfaxa.”

Í greinum sínum í Skinfaxa ræðst Jónas harðlega gegn auðsöfnun og spillinguna og misskiptinguna sem af henni leiðir. Þórarni Þórarinssyni segist svo frá í Sögu Framsóknarflokksins 1916-1937 að Jónas segi í Skinfaxa: “ að framfarir atvinnuveganna geti orðið mönnum meira til bölvunar en blessunar, ef menn kunni ekki að skipta arðinum sanngjarnalega. Þess vegna þurfi að tryggja öllum réttláta hlutdeild í árangrinum, sem hin aukna tækni skapar, en stemma stigi fyrir, að hagnaðurinn lendi í höndum fárra manna.”

Því verður ekki neitað að þessi ummæli, sem orðin eru hartnær aldargömul, eiga enn vel við í íslensku þjóðfélagi. Tveir bankar voru að greina frá nærri 40 milljarðar króna hagnað eftir skatta af starfsemi sinni fyrstu þrjá mánuði árins. Ófaglægt starfsfólk á hjúkrunarheimilum var að ljúka bráttu sinni fyrir fáeinum krónum í launaumslagið til viðbótar þeim 100 þúsund eða svo, sem greiddar eru á mánuði fyrir umönnun aldraðra.

Kannski ætti Alþýðusambandið að gera afmæli Jónasar frá Hriflu verðug skil með því að kynna fyrir félagsmönnum sínum skrif hans um auðsöfnuna og skiptingu arðsins.

Hugsjónamaðurinn Jónas Jónsson lagði íslenskri verkalýðshreyfingu mikið lið með verkum sínum sem vert er að muna eftir.

Sendi launþegum og öðrum landsmönnum baráttukveðjur í tilefni dagsins.

Athugasemdir