Árslaun tapast í vaxtahækkun.

Pistlar
Share

Dýrast að taka húsnæðislán á Íslandi var fyrirsögn á frétt á mbl.is í nóvember síðastliðnum. Það var niðurstaða skýrslu sem Neytendasamtökin létu gera í samvinnu við systursamtök sín í 9 Evrópulöndum. Þá voru vextir húsnæðislána lægri en nú er eða 4,15%. Raunvextir hér á landi voru að jafnaði frá 2 upp í tæplega 5 prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum.
Markmið stjórnvalda á við þessar aðstæður að vera að lækka vextina um þennan mun. Það bætir kjör almennings meir en flest annað.

Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa vextirnir hækkað að undanförnu og því jafnvel verið fagnað eins og um stórkostlegan árangur hafi verið að ræða í efnahagsmálum. Að gera dýrasta landið ennþá dýrara. Viðskiptabankarnir standast ekki samkeppnina við Íbúðalánasjóð og hafa verið óábyrgir í samkeppninni. Þeir þurfa nú að hækka vextina. En það þarf Íbúðalánasjóður ekki. Ríksábyrgðin á útlánum sjóðsins tryggir lántakendum hagkvæmustu vextina á íslenska markaðnum.

Af einhverjum ástæðum eru hagsmunir viðskiptabankanna í forgrunni en ekki hagsmunir almennings. Það er eins og að það sé gleymt og grafið að búið er að einkavæða bankana. Þeir eiga að sjálfsögðu að bera ábyrgð á eigin óábyrgri útlánastefnu. Krafa bankanna er að Íbúðalánsjóður hætti að lána almenningi. Bankarnir eru á móti samkeppninni og vilja fá íbúðalánin á silfurfati. Munurinn á íbúðalánakerfi með ríkisábyrgð og lánum viðskiptabankanna er um 1,5 – 2% í vaxtastigi. Dýrasta landið mun verða enn dýrara ef bönkunum verður að ósk sinni.

Fyrir helgina hækkuðu vextir hjá Íbúðalánasjóði í 4,85% og hafa þeir þá hækkað um 0,7% á skömmum tíma. Þessi hækkun lætur ekki mikið yfir sér en kostar lántakandann mikla peninga. Miðað við hámarkslán sjóðsins 15,9 mkr. og 40 ára lánstíma þurfti áður að borga 16,7 mkr. til viðbótar höfuðstólnum meðan vextirnir voru 4,15%. Þeir sem munu taka sín lán á næstu vikum munu þurfa að greiða 4,85% vexti ofan á verðtryggingu og þá verður kostnaðurinn 20,1 mkr. og hefur hækkað um 3.433.551 kr. eða um 21%.

Vaxtahækkunin kostar rífleg meðalárslaun, 14 – 15 mánaða laun. Greiðsla hvers mánaðar verður nærri 11% hærri en áður, hækkar úr 67.943 kr. í 75.096 kr. Þessi kostnaðarhækkun bætist við muninn sem þegar var fyrir á Íslandi og hinum Evrópulöndunum. Þau eru mörg árslaunin sem meðal Íslendingurinn þarf að greiða fyrir íbúðalánið sitt þau 40 ár sem það stendur, umfram það sem hann þyrfti að greiða, ef hann kysi að búa í Evrópulöndunum 9 sem borið var saman við. Þetta má orða svo að Íslendingur sem flyst til Evrópu og sest þar að mun fá í fjárhagslegan ávinning sem svarar launum sínum í mörg ár við það eitt að fá aðgang að íbúðalánum þar.

Á þessu kjörtímabili hefur tekist að lækka kostnað íbúðareigenda með nýju lánakerfi Íbúðalánasjóðs. Það er árangur af kosningastefnu Framsóknarflokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar. Meðan unnið var eftir þeirri stefnu var flokkurinn á réttri leið. Almannahagsmunir í fyrirrúmi.

Vextirnir hafa verið talaðir upp undanfarna mánuði og hefur vaxtalækkunin að mestu gengið til baka með þeim afleiðingum fyrir almenning sem að ofan er rakið. Boðað er að íbúðalánin verði flutt frá Íbúðalánasjóði til viðskiptabankanna. Það mun bara hækka kostnað lántakendanna. Nú er einblínt á hagsmuni viðskiptabankanna, almannahagur víkur. Það er ekki rétta leiðin.

Athugasemdir