Stórhættuleg stóriðjuumræða.

Greinar
Share

Þessa daga fer fram einkennileg umræða, sem gæti reynst þjóðinni stórhættuleg. Sumir af ráðamönnum landsins halda því fram fullum fetum að hægt sé að halda áfram á stóriðjubrautinni næsta áratuginn af sama krafti og verið hefur síðustu tvö til þrjú ár. Því er haldið fram að fram til 2014 sé hægt að byggja þrjú álver og tilheyrandi virkjanir, sem kosta 400 – 450 milljarða króna, án þess að setja íslenskt efnahagslíf úr skorðum.

Menn eru greinilega fljótir að gleyma. Þær stóriðjuframkvæmdir, sem nú eru í gangi, eru upp á samtals um 250 – 300 milljarða króna. Um þær framkvæmdir sagði Seðlabankinn að þær myndu reyna mjög á stjórn efnahagsmála. Sérfræðingar bankans bentu á að framkvæmdirnar, sem slöguðu hátt í þriðjung af landsframleiðslu eins árs, kölluðu á meira umrót í þjóðarbúskapnum en nokkurt annað sambærilegt land hafi þurft að glíma við.

Framkvæmdum fyrir milljarða króna í vegagerð var frestað til þess að slá á þensluna. Sem dæmi má nefna að 700 mkr. framkvæmdum við Vestfjarðaveg á leiðinni til Patreksfjarðar var frestað um 4 ár og er sá vegur þó einn sá versti af þeim stofnvegum sem á eftir að byggja upp. Á nú að fresta þessum vegarbótum á Vestfjörðum í áratug til viðbótar vegna stóriðju annars staðar á landinu?

Meðan á framkvæmdunum stendur ríkir gífurlegt ójafnvægi í efnahagslífinu. Viðskiptahalli síðasta árs var um 165 milljarðar króna. Til þess að halda verðbólgu í skefjum hækkar Seðlabankinn stýrivextina. Þeir eru nú 10,5% og spáð er að þeir verði rúmlega 11% á þessu ári. Til samanburðar eru stýrivextir í Evrulöndunum 2,25%. Þessi vaxtamunur leiðir svo til þess að mikill gróði verður af því að taka lán erlendis á lágum vöxtum og endurlána þau hér innanlands á háum vöxtum. Innstreymi fjár veldur svo háu gengi.

Nú er því haldið fram af málsvörum stóriðjuframkvæmda næsta áratuginn að háa gengið og háu vextirnir séu vegna skuldabréfaútgáfu í íslenskum krónum og öðru innstreymi fjár en ekki vegna stórðijunframkvæmdanna. Þvílík öfugmæli eins og greiningardeild KB banka afhjúpar í nýjustu skýrslu sinni. Ef ekki hefði verið ráðist í framkvæmdirnar væru stýrivextirnir miklu lægri og þá væri vaxtamunur við útlönd aðeins brot af því sem hann er nú .Gengið væri lægra, afkoma í útflutingsgreinunum betri og fleiri störf í þeim greinum.

Áframhaldandi boðun gífurlegra framkvæmda veldur áframhaldandi væntingum um háa stýrivexti og þar af leiðandi áfram hátt gengi. Störfum í sjávarútvegi, einkum fiskvinnslu mun fækka, ferðaþjónusta verður í viðvarandi erfiðleikum og íslensk fyrirtæki munu halda áfram að flytja störf úr landi. Ójafnvægið leiðir af sér að óvíst er um heildarávinninginn. Þeir, sem munu tapa eru íbúar á landssvæðum utan álveranna, þar mun störfum fækka vegna framkvæmdanna.

Það er ekki lengra síðan en í sumar að mikil umræða fór fram í fjölmiðlum um erfiðleika útflutningsgreinanna vegna vandans sem leiddi af stóriðjuframkvæmdunum. Þá var tekið saman að um 140 störf hefði tapast á fáum dögum. Stækkum álversins í Straumsvík mun skapa um 350 ný störf. Hver verður ávinningurinn af stækkuninni þegar talin hafa verið saman þau störf sem munu tapast ? Hver ætlar að bæta mönnum töpuð störf á þeim svæðum landsins sem ekki njóta álversuppbyggingarinnar? Hvers konar hagstjórn er í gangi?

Stóriðja er einn þáttur í atvinnustarfsemi hér á landi og við eigum að sjálfsögðu að nýta þann möguleika eins og hvern annan.En þegar svona dýrar framkvæmdir eiga í hlut skiptir tímasetning þeirra öllu máli. Góð tímasetning gefur af sér allan ávinninginn án þess að neinu sé fórnað sem heitið getur. En vond tímasetning veldur verulegum skaða í öðrum atvinnugreinum sem dregur úr ábatanum sem verður þegar upp er staðið og getur jafnvel þýtt að hann verði hverfandi.

Í fyrra var upplýst í fréttaþjónustu Bloombergs að orkuverð til álvera á Íslandi væri 30% lægra en í Evrópu. Talsmenn Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja staðfestu að orkuverðið væri lægra, þótt þeir staðfestu ekki tölur Bloombergs. En þeim tölum var ekki heldur hafnað. Er ekki allt í lagi að hækka verðið fyrir orkuna og auka arð landsmanna af raforkunni? Stóriðja er val en ekki nauðsyn.

Það er ekki miklu fórnað þótt það leiði til þess að eitthvað hægar verði virkjað fyrir vikið, nýsköpun starfa er hvort sem er að mestu í öðrum atvinnugreinum. Stóriðja notaði aðeins um 0,6% af vinnuafli landsmanna árið 2004, en hátækni, vörur og þjónusta gaf sjö sinnum fleiri störf. Þótt öll umrædd álver verði byggð munu nýju störfin sem þarf að búa til á næstu árum verða fyrst og fremst í öðrum atvinnugreinum. Þær greinar þurfa jafnvægi í efnahagsmálum til þess að skila sínu

Athugasemdir