Virk pólitísk umræða – nýtt efni þriðja hvern dag.

Pistlar
Share

Heimasíðan er komin á annað árið. Hún var opnuð 14. febrúar 2005. Þar hef ég birt um 120 greinar og pistla sem lætur nærri að vera nýtt efni þriðja hvern dag. Leyfi mér að segja geri aðrir betur. Eins og lesendur geta gengið úr skugga um er víða komið við. En fyrst og fremst hafa þetta verið pólitísk efni og þar hef ég gert grein fyrir afstöðu minni til þjóðmála og dægurmála.

Ég hef orðið áþreifanlega var við að skrifin á heimasíðuna hafa mikil áhrif. Mjög margir koma inn á síðuna og lesa pistlana og þannig fara skoðanirnar, sem ég set fram, út í almenna umræðu og hafa áhrif á hana. Stundum með því að varpa nýju sjónarhorni á mál sem er í umfjöllun og stundum með því að taka upp mál og vekja á þeim athygli.

Þetta er fljótleg leið til þess að koma skoðun sinni á framfæri og handhægt fyrir áhugasama hvar á landinu sem er að nálgast efnið í hvaða veðri sem er, hvenær sem er og hvaðan sem er. Til gamans má geta þess að frá áramótum hafa rúmlega 12 þúsund manns heimsótt heimasíðuna og þeir eru frá 40 löndum í 6 heimsálfum.

Starfsumhverfi stjórnmálamannsins hefur breyst gífurlega þann tíma sem ég hef verið á Alþingi. Mjög hefur dregið úr almennum pólitískum fundum og virku flokksstarfi, en samband við kjósendur og flokksfélaga fer fyrst og fremst fram í gegnum fjölmiðla og svo netið. Stjórnmálamaðurinn á í mikilli samkeppni við alls konar afþreyingu, skemmtun og víðtækari fjölmiðlun. Líklega er það netið sem gagnast mönnum best um þessar mundir.

Afleiðingin er að stjórnmálin eru að vissu leyti opnari en áður. Þingmenn og ráðherrar bregðast við nýjum málum eða atburðum og setja fram sjónarmið sín á opinberum vettvangi og skoðanaskiptin fara þar fram, við pólitíska samherja sem andstæðinga. Umræðan og stefnumótunin verður í þessu umhverfi ekki lokuð inni í stjórnmálaflokki og geymd þar til menn hafa búið til flokkslínuna. Hún verður í ríkari mæli opin jafnvel þótt á milli samherja sé. Þetta er einfaldlega veruleikinn sem við búum við. Flokksumræðan fer ekki lengur einvörðungu fram innan vébanda flokkanna.

Stjórnmálaflokkarnir verða líka að endurmeta starfshætti sína í ljósi breyttra aðstæðna. Eitt af því sem ég tel að gera þurfi er að færa mikilvægar ákvarðanir til flokksmannanna. Breyta þarf því að fámennur hópur valinna flokksmanna ráði þeim. Kosning á formanni flokksins og val á frambjóðendum til Alþingis eða sveitarstjórna eru dæmi um ákvarðanir sem hver og einn flokksmaður á að koma að.

Aðeins um 7-8% félaga í Framsóknarflokknum geta greitt atkvæði í kosningu um formann flokksins miðað við gildandi reglur. Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins lagði ég til ásamt nokkrum öðrum félögum að taka upp almenna kosningu um formann. Þetta fyrirkomulag er þekkt hérlendis og tíðkast líka erlendis. Nægir þar að nefna Bretland, systurflokk Framsóknarflokksins Liberal Democrats svo og Íhaldsflokkinn sem báðir nota póstkosningu meðal almennra félagsmanna við val á formanni.

Flokksþingið samþykkti samhljóða að fela framkvæmdastjórn flokksins að skipa sérstaka nefnd til þess að fara yfir tillöguna og skila áliti fyrir næsta flokksþing. Nú réttu ári síðar hefur nefndin enn ekki verið skipuð og ég neita því ekki að mig er farið að lengja eftir því að nefndastarfið fari af stað. Framkvæmdastjórn flokksins skuldar flokksmönnum skýringar á þessum seinagangi.

Tillagan tekur einmitt á innri starfháttum flokksins og nefndinni, sem skipuð verður, veitir ekki af tímanum til þess að standa fyrir umræðu innan flokksins og skila af sér áliti tímanlega fyrir næsta flokksþing. Staða flokksins um þessar mundir undirstrikar þörfina fyrir slíku starfi.

Athugasemdir