Mannaráðningar í stöður hjá hinu opinbera eru á vondri vegferð að mínu mati. Það eru of mörg dæmi að undanförnu sem bera þess órækan vott. Þau má sjá hjá Alþingi, ráðherrum og stofnunum. Helsta einkennið er að vikið er frá eðlilegum mælikvörðum við mat á hæfni til starfans, svo sem menntun og reynslu, og ráðningin verður illskiljanleg nema með því að beita kenningum um vinarbragð eða pólitíska samstöðu.
Þetta þarf ekki alltaf að vera rétt skýring, en á móti má benda á að frávikin verða ekki ævinlega varin með sértækum skýringum sem fallast megi á. Þá væru hinar almennu forsendur ráðningar í starf ekki lengur almennar.
Ráðning fyrrverandi forseta Alþingis á Þorsteini Pálssyni til þess að skrifa sögu þingræðisins á Íslandi er dæmi um hina vondu vegferð. Hann er ekki sagnfræðingur og hefur ekki svo mér sé kunnugt þjálfað sig eða menntað til þess að draga fram aðalatriðin og leggja hlutlaust mat á menn og málefni. Þá er hann einn af virkum þátttakendunum í sögunni sem hann á að skrifa um.
Þorsteinn er fyrrverandi þingmaður í 16 ár og ráðherra í 9 ár, þar af forsætisráðherra í rúmt 1 ár. Mér er fyrirmunað að sjá hvernig hann getur skrifað með trúverðum hætti um eigið tímabil í stjórnmálasögunni og lagt mat á samstarfsmenn og andstæðinga. Hvernig verður frásögn Þorsteins Pálssonar af stjórnarslitunum í september 1988 og hvernig verður dómur hans um Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrím Hermannsson, mennina sem slitu stjórnarssamstarfinu við Þorstein og Sjálfstæðisflokkinn í beinni útsendingu á Stöð2?
Þorsteinn var líka formaður Sjálfstæðisflokksins í 8 ár og hvernig í ósköpunum ætla menn honum að gera grein fyrir stjórnmálaflokkunum með sæmilega hlutlausum hætti? Auk þess liggja ekki fyrir neinar áætlanir um tíma, kostnað eða laun. Verða þetta ritlaun, sem ekki skerða eftirlaun Þorsteins sem ráðherra og alþingismanns? Ég átti ágætt samstarf við Þorstein meðan hann var í stjórnmálunum og vil honum vel en þetta get ég ekki skrifað upp á.
Annað dæmi er ráðning útvarpsstjóra. Í auglýsingunni um starfið voru engar kröfur um menntun. Það hlýtur að vera einsdæmi að Menntamálaráðherra auglýsi eina af æðstu stöðum sem heyra undir ráðuneytið og geri menntun svona lágt undir höfði. Þessi málsmeðferð öll hafði þann brag, svo ég noti orðalag sem ónefndur brá stundum fyrir sig, að fyrst var ákveðið hver fengi stöðuna og svo var auglýst. Það sem síðar hefur komið í ljós styrkir slíkar grunsemdir og vísa ég til þess að útvarpsstjórinn nýi gekk fyrst á fund ráðherra og sótti svo um.
Læt þetta nægja af dæmum, en mér virðist vaxandi tilhneiging hjá forstöðumönnum ríkisstofnana ekki síður en ráðherrum, að hanna auglýsingar um lausar stöður utan um einstaklinga sem viðkomandi vill fá, þannig að eftirleikurinn verði auðveldur og hægt að fela tilganginn með því að sá sem ráðinn var hafi uppfyllt auglýstar kröfur. Í raun er verið að fara illa með aðra umsækjendur með slíku háttalagi.
Ég geri ekki lítið úr því að stjórnendur geti starfað með næstráðendum, en of langt er gengið í sérvali stjórnandans. Í raun má ætla að þessi þróun beri vott um einhvern vanmátt stjórnandans. Hann telji sig þurfa að fá undirmann sem örugglega er minna menntaður eða síður hæfur að öðru leyti og ógni því ekki yfirmanninum. Þetta mynstur er víða þekkt, það tryggir yfirmanninn í sessi en afleiðingin er að stjórnunin verður lakari.
Þess vegna verðum við að halda fast í þá reglu að standa faglega að ráðningum hjá hinu opinbera og leitast við að styrkja þann feril.Það verður allra ávinningur.
Athugasemdir