Fjármálaheimurinn er mörgum sem lokuð bók seinustu árin. Það er erfitt að skilja hvernig það má vera að menn geti keypt á háu verði en selt skömmu síðar og grætt himinháar fjárhæðir, sá sem síðar keypti selur svo á enn hærra verði og svo koll af kolli. Það hefur ekki enn frést af neinum sem hefur tapað á þeim viðskiptum (fyrir utan þá sem keyptu í Decode, en það telst varla með), jafnvel þeir sem hafa orðið undir í einhverju valdataflinu og hafa selt sín bréf í fússi í framhaldinu hafa innleyst mikinn gróða. Þeir sem tapa græða samt. Hlutabréfaheimurinn er mikil undraveröld
Þeir sem þar starfa verðleggja sig í samræmi við velgengnina. Þar hafa verið greidd góð laun og óvíða betri. Samt er hægt að koma manni á óvart. Í síðustu viku voru í fréttunum tveir starfslokasamningar úr viðskiptalífinu. Mennirnir sem samið var við voru báðir forstöðumenn fyrir peningasjóðum, þeir voru báðir karlmenn, þeir virðast báðir hafa haft rílega 2 milljórnir króna í laun á mánuði og báðir tryggðu þeir sér laun langt umfram eðlilegan uppsagnarfrest.
Annar samningurinn var við sparisjóðsstjóra í Sparisjóði Hafnarfirði. Hann hóf störf í ársbyrjun, en var svo ólánsamur að nýr meirihluti tók völdin innan stofnfjáreigendahópsins skömmu síðar. Nýju valdhafarnir sögðu honum upp og létu hann hætti eftir aðeins fjögurra mánaða starf.
Í ljós koma að nýi og nú fyrrverandi sparisjóðsstjórinn hafði gert ráðningarsamning til ársins 2008 og í viðtali við DV um helgina kemur fram hjá honum að ástæða þess er að hann vildi “ákveðna launatryggingu enda ástandið í fjármálaheiminum of ótryggt”. Telur blaðið að hann fái um 70 milljónir króna greiddar fyrir fjögurra mánaða vinnu.
Hinn samningurinn var við framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins. Þegar hann hætti nú í febrúar kom í ljós viðaukasamningur við ráðningarsamning hans sem kvað á um laun í 2 ár eftir að uppsagnarfresti lauk. Morgunblaðið upplýsir að framkvæmdastjórinn fyrrverandi eigi rétt á fullum launum í 30 mánuði og að þau nemi um 43 milljónum króna.
Þetta lýsir mikilli græðgi. Ekki er látið duga að fá afar há laun, sem eru tæplega þrefalt hærri en laun forsætisráðherra landsins, væntanlega með skírskotun til mikllar ábyrgðar og þess að starfið er ótryggt heldur er sótt launatrygging í 3 ár í öðru tilvikinu og í 2 ár eftir að látið er af starfi í hinu tilvikinu.
Svona getur þetta ekki gengið að mínumati. Það verður að reisa skorður við þessu athæfi, að menn sæki bæði há laun og launatryggingar í bak og fyrir.Til samanburðar þá fær fráfarandi forsætisráðherra, sem aðrir ráðherrar, biðlaun í 3 mánuði, en 6 mánuði ef hann hefur gengt embætti í eitt ár samfellt. Það er hófleg viðmiðun sem viðskiptalífið ætti að styðjast við.
En ég vil líka gagnrýna þá sem ráða til sín menn á þessum kjörum. Þeir gera sig seka um mikið ábyrgðarleysi gagnvart eigendum sjóðanna og viðskiptavina þeirra. Það á við gamla meirihlutann í sparisjóðnum í Hafnarfirði sem gerði samninginn. Hin nýi meirihluti í Hafnarfirði er líka að fara illa með fé sjóðsins. Auðvitað var það vandalaust fyrir þá að láta sparisjóðsstjórann starfa áfram hafi þeir á annað borð eðlileg og lögmæt markmið að stefna að.
Stjórnarmennirnir tveir í Sameinaða Lífeyrissjóðnum eru uppvísir að því, samkvæmt mati Fjármálaeftirlitsins, að hafa framið lögbrot. Þeir gerðu viðaukasamninginn við framkvæmdastjórann fyrrverandi í heimildarleysi og leyndu gjörðum sínum fyrir bæði sjóði og stjórn. En engin skýring hefur komið fram frá tvímenningunum á því hvers vegna þeir töldu nauðsynlegt að gefa manninum 2 ára laun án nokkurrar vinnu.
En ég er líka forviða á Fjármálaeftirlitinu. Það segir samninginn lögbrot og rökstyður það í ágætu máli. En niðurstaðan er samt að aðhafast ekkert frekar, þar sem fyrningarfrestur er liðinn.Hvað er Fjármálaeftirlitið að fara? Það verður að skýra þessa niðurstöðu frekar. Málið kemst ekki upp fyrr en framkvæmdastjórinn fyrrverandi hættir í febrúar 2005.
Viðaukasamningurinn sem gerður var árið 2000 er lögbrot. Stjórnin veit ekki af samningnum. Það er væntanlega líka lögbrot að leyna samningnum fyrir stjórninni. En samt á að efna ákvæði samningsins. Ber þá að skilja Fjármálaeftirlitið svo að menn geti gert ólöglega gjörninga og ráðstafað í heimildarleysi eigum sem þeim er trúað fyrir og samt sé það mat Fjármálaeftirlitsins það, að bæði verði að efna hina ólöglegu samninga og að þeir sem frömdu lögbrotin sleppi við öll viðurlög ef þeim tekst að fela brotið nógu lengi?
Er það svo að af því að stjórnarmennirnir tveir bættu gráu ofan á svart og leyndu fyrir stjórninni gjörðum sínum að þá sleppi þeir og ólöglegi samningurinn verði löglegur? Og á sjóðurinn engar kröfur á hendur hinum brotlegu? Hér þarf Fjármálaeftirlitið að gera betur og skýra niðurstöðu sína og hvar eru nú hin árvökulu augu efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra?
En þeir sem borga að lokum í báðum þessum tilvikum verða væntanlega viðskiptavinir Sparisjóðs Hafnarfjarðar og sjóðsfélagar Sameinaða lífeyrissjóðsins. Það er almenningur, hann fær reikninginn og borgar brúsann. Þess vegna verður löggjöf og framkvæmdavald í sameiningu að tryggja hag almennings með því að girða fyrir óhóf og misnotkun með annarra eigur.
Athugasemdir