Tilboð KEA: peningar fyrir pólitíska ákvörðun.

Pistlar
Share

Stjórn KEA vill fá fleiri opinber störf norður og hefur ákveðið að fara nýjar leiðir í því skyni. Félagið býður ríkinu greiðslu ef stofnanir verða fluttar norður eða einstök verkefni úr stofnunum. Nánar tiltekið kostnað við undirbúning og flutning.

Sérstaklega lýsir stjórnin vilja til að KEA standi straum af beinum kostnaði vegna flutnings lykilstarfsemi Fiskistofu, sem gæti numið 50-100 milljónum á næstu 4 árum. Einnig lýsir stjórnin yfir vilja til þess að að KEA standi straum af sértækum undirbúningi og kostnaði við flutning á lykilstarfsemi Hafrannsóknarstofnunar til Akureyrar.

Það er þetta sem ég gagnrýni. Það er farið fram á að einstakir ráðherrar taki tiltekna stjórnsýsluákvörðun og boðnir fram peningar til þess að fá þá til þess. Til dæmis er greinilega búið að bjóða sjávarútvegsráðherra að KEA muni greiða ríkinu allt að 100 milljónum króna fyrir ákvörðun um flutning á lykilstarfsemi Fiskistofu.

Það eina sem breytist er staðsetning stofnunarinnar. Fiskistofa verður áfram opinber stofnun. Störfin verða áfram opinber störf. Það er ekki verið að einkavæða stofnunina, það er ekki verið að leggja hana niður. Það er bara verið að flytja hana og fyrirtæki í atvinnulífinu borgar. Ekki er gerð krafa um að ríkið endurgreiði fyrirtækinu, en fram hefur komið að það er tilbúið til þess að verja hundruðum milljóna króna til þess að fjölga störfum á starfssvæðinu.

Þetta er ný tegund af viðskiptum: staðsetning opinberra stofnana breytt gegn greiðslu. Fyrirtæki í viðskiptalífinu býður ríkinu peninga fyrir pólitíska ákvörðun. Fréttablaðið orðar það svo í gær, algerlega gagnrýnislaust, að það sé til þess að liðka fyrir flutningi opinberra verkefna til Akureyrar.

Hvar ætla menn að draga mörkin ? Varla verður hægt að afmarka tilboð einstakra fyrirtækja við fyrsta flutning stofnunar. Það geta fleiri borgað en KEA. Ef hægt er að flytja einu sinni þá er hægt að flytja aftur. Að þessum viðskiptum samþykktum sé ég ekki að hægt verði að amast við því, ef ráðherra ákveður að flytja stofnun aftur suður eða austur gegn því að allur kostnaður verður greiddur. Verður þá talið eðlilegt að eftir hverjar alþingiskosningar geti nýr ráðherra flutt stofnanir eða verkefni úr þeim í sitt kjördæmi ef hann fær sponsora sem borga brúsann?

Miðað við fyrri reynslu af flutning opinberra stofnana þá verður launakostnaður stærsti útgjaldaliðurinn, biðlaun eða kostnaður við starfslokasamninga. Þjálfun nýrra starfsmann í stað þeirra sem hætta er einnig verulega kostnaðarsamt. Þennan kostnað býðst KEA til að borga, tilboð félagsins verður ekki skilið öðruvísi. Launakostnaður ríkisins greiddur af einkafyrirtæki? Hvaða kröfur mun fyrirtækið setja ríkinu í staðinn um laun og önnur kjör starfsmannanna?

Á að miða við flutning heilla stofnana eða verður hægt að taka einstaka verkþætti út úr stofnun og flytja þá? Og hverjir geta fengið svona viðskipti við ríkið og á þá ríkið að auglýsa eftir fyrirtækjum sem vilja greiða kostnaðinn? Eða verður heimilt að bjóða ríkinu hærri fjárhæð? Næsta skref verður þá að ákveða hvernig á að velja milli þeirra sem gera tilboð og hvað á að leggja til grundvallar því vali? Ég sé ekki heila brú í þessari dellu hvernig sem á hana er litið.

Staðsetning opinberrar þjónustu er stjórnmálamannanna að ákvarða. Þeir eiga að marka stefnuna og fá fylgi við hana í almennum kosningum. Því er ekki að leyna að mikil óþreyja er á landsbyggðinni í garð stjórnmálamanna vegna þess að opinbera þjónustan er að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Þessu er hægt að breyta með því að fela sveitarstjórnarstiginu að fara með mun stærri hluta hins opinbera, bæði verkefni og tekjustofna, en nú er og einnig með því að dreifa stjórnsýslu ríkisins á nokkra staði um landið.

Það vantar ekki að fjálglega hefur verið talað um hvort tveggja og meira að segja verið ákveðið að efla opinbera þjónustu á útvöldum byggðakjörnum eða vaxtarsvæðum á landinu. En málið koðnar niður þegar kemur að því að framkvæma. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn kemur sér undan því að útfæra stefnuna og útkoman verður stefnuleysi sem helst einkennist af tilviljunarkenndum ákvörðunum um staðsetningu lítilla stofnana, helst nýrra, í kjördæmi viðkomandi ráðherra.

Að því leyti er skiljanlegt að KEA menn vilji fara nýjar leiðir, þegar þeir horfa upp á árin líða án þess að nokkuð gerist sem munar um. Um daginn mátti lesa frétt á bb- vefnum á Ísafirði að opinberum störfum hefði fækkað um líklega 60 á síðasta ári á Vestfjörðum samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Þetta er ekki uppörvandi og er nema von að menn spyrji hvað er ríkisstjórnin að gera?

En svarið getur aldrei falist í því að kaupa störfin út á land. Það verður að móta skýra almenna stefnu og velja fólk sem þorir að hrinda henni í framkvæmd. Það eiga þeir vel að vita sem starfa innan almannahreyfinga eins og samvinnuhreyfingarinnar. Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Athugasemdir