Stjórnsýslan föl?

Pistlar
Share

Síðasti áratugur hefur verið markaður viðskiptalífinu. Í sífellt meira mæli hefur allt snúist um frelsi til athafna á því sviði til að þjóna gróðasjónarmiðinu. Það var full þörf á því að breytingar yrðu og þær hafa að mörgu leyti skilað góðum árangri og stuðlað að framförum í þjóðfélaginu. En í þessu sem öðru virðist vandratað meðalhófið. Hið fornfræga KEA, löngum flaggskip samvinnufélaganna á Íslandi, er nú í viðræðum við a.m.k. tvo ráðherra, sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra, og býðst til þess að borga peninga fyrir “réttar stjórnsýsluákvarðanir”. Er svo komið að menn úr viðskiptalífinu telja að stjórsýslan sé eins og hvert annað svið viðskiptalífsins og að það sé hægt að kaupa það? Já, svo virðist vera, því miður. Það fer, að mínu mati, að verða ansi þunn línan á milli þess sem KEA er að gera núna og því að stíga skrefið til fulls og bera hreinlega fé á menn.
Afleiðing auðhyggjunnar
Þetta á sér forsögu sem hefur leitt menn skref fyrir skref á þessari braut. Með framsalinu í sjávarútvegi var forsvarsmönnum fyrirtækjanna falið að ráða byggðaþróun sem snertir tugi þúsunda einstaklinga. Hagsmunir forsvarsmanna fyrirtækjanna voru ákvarðaðir mikilvægari en fólksins. Á sjómannadaginn fluttu ég ræðu á Patreksfirði og talaði fyrir breytingum í þágu þeirra sem eiga starf sitt og heimili undir atvinnugreininni og búa við auðlindina. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Forstjóri Samherja krafðist þess að fá að vinna í friði fyrir stjórnmálamönnunum. Sem sé, þetta er hans mál og stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af því, hvort hann er að flytja kvótann úr hverju plássinu á fætur öðru, fólkið sem verður fyrir barðinu á því getur bara étið það sem úti frýs. Þetta er línan frá einum helsta ráðamanni greinarinnar. Það er svo önnur daga að hann fékk á sínum tíma meira gefið frá stjórnmálamönnunum en nokkur annar.
Okkar er mátturinn…
Framámönnum í viðskiptalífinu er hampað daglega í fjölmiðlum landsins og endalausnar fréttir af gengi hlutabréfa og kaupum á þessu og hinu félaginu, yfirtöku, sameiningu, afskráningu, gróða upp á milljarða króna. Þetta eru aflaskipstjórar viðskiptaþjóðfélagsins. Ekkert má verða í vegi þeirra, þá er þjóðfélagið að tapa og fyrir vikið verða óljós öll skil á milli þess eðlilega og óeðlilega. Athafarými viðskiptamannanna hefur jafnt og þétt aukist og áður en menn vita af eru viðskiptamógúlarnir farnir að tala eins og þeir séu komnir með umboð stjórnmálamannanna í sínar hendur. Þorsteinn Már telur löggjöf um sjávarútveg sitt mál en ekki stjórnmálamannanna, forsvarsmenn KEA tala um vegalagningu um hálendið eða jarðgöng rétt eins og það sé í þeirra höndum að ákvarða það. Þeir eru nú hættir við veg um Stórasand af því það var ekki nógu góð hugmynd en þá fara þeir í staðinn um Kjöl. Umferðin á að borga með sérstöku gjaldi. Svo verða gerð göng í gegnum Vaðlaheiði og ríkið á að fella niður skatt og borga svoldið. Í þessu eins og sjávarútveginum eiga stjórnmálamennirnir ekki að vera að flækjast fyrir heldur gera eins og þeim er sagt.
Keypt byggðastefna
Enn ganga menn í viðskiptalífinu lengra í því að færa sig inn á svið stjórnmálanna eða kannski á að segja að þeir víkki út svið viðskiptalífsins og dragi saman viðfangsefni stjórnmálanna þegar sett eru fram formleg tilboð til einstakra ráðherra um kaup á opinberum störfum. Í fjölmiðlum hefur að undanförnu mátt fylgjast með fréttum af viðræðum forsvarsmanna KEA við iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra um flutning opinberra starfa norður til Akureyrar. Stjórn KEA býður ríkinu greiðslur fyrir ómakið og er tilbúið að leggja fram hundruð milljóna króna til þess að greiða kostnaðinn við flutning starfanna norður. Sjávarútvegsráðherra er fjöðrum fenginn og segir í Fréttablaðinu á laugardaginn var að vilji KEA til þess að koma að fjármögnun á flutningi verkefna sé mjög jákvæður og að slíkt liðki til fyrir flutningi verkefna. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég las þetta. Er sjávarútvegsráðherrann kominn svo af leið að hann telji eðlegt að einkafyrirtæki geti borið fé á stjórnvöld í því skyni að fá þau til að taka tiltekna stjórnsýsluákvörðun? Hvar er verðlistinn? Hefur ríkisstjórnin ákveðið hann? Hvað kostar Hagstofan eða Námsgagnastofnun? Og þeir sem ekki eiga peninga fá þá líklega engin störf til sín eða hvað Árni Mathiesen? Verður starfræktur uppboðsmarkaður opinberrar þjónustu og fá hæstbjóðendur eða verða bara handvaldir góðir viðskiptavinir sem fá að gramsa í dótakassanum og velja sér bestu leikföngin?
Háskóli Akureyrar suður?
Ég er ekki að gera athugasemd við þá viðleitni KEA að styrkja atvinnulíf á félagssvæði sínu, ég skil það mætavel, en þeir eiga að halda sig við atvinnulífið og fyrirtæki þar. Þau ganga kaupum og sölum og eru flutt til og frá. Öðru máli gegnir um opinbera stjórnsýslu, hún á ekki að vera til sölu. Hvað ætlar KEA að gera ef eigendur Háskólans í Reykjavík ákveða að kaupa Háskólann á Akureyri og flytja hann suður og sameina skólana þar? Það gæti verið næsti leikur í þessari skák og efast einhver um góðan hug menntamálaráðherra til Háskólans í Reykjavík? Má ég minna á að sá skóli er ekki í neinu fjársvelti en Akureyrarskólinn er kominn í spennitreyju.
Stefna ríkissjórnarinnar?
Þegar þessi umræða kom upp síðastliðið vor tók ég málið upp á fundi þingflokks framsóknarmanna og spurði forsætisráðherrann um stefnu ríkisstjórnarinnar og hvort það væri virkilega svo að hægt væri að kaupa byggðastefnuna. Í ljósi svara forsætisráðherra þá vekja ummæli og undirtektir sjávarútvegsráðherra furðu mína og tel ég nauðsynlegt að forsætisráðherra geri sem fyrst opinberlega grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessara mála.

pistillinn birtist sem grein í Blaðinu í dag.

Athugasemdir