Hryðjuverkin og vestrænu gildin.

Pistlar
Share

Hryðjuverkin og vestrænu gildin

Morðin í Lundúnum í síðustu viku voru hryðjuverk. Það er engum blöðum um það að fletta. Það skiptir engu máli hver tilgangurinn er eða málstaðurinn. Það er að mínu mati hryðjuverk að ráða óbreytta borgara af dögum. Þeir eru ekki hermenn, ekki vopnaðir og ekki í stríði. Ég er því algerlega sammála þeim sem kölluðu sprengingarnar hryðjuverk, en þegar þjóðarleiðtogarnir fóru að tala um að ráðist væri gegn vestrænum gildum og að ekki mætti láta hryðjuverkamennina komast upp með það hætti ég að fylgja þeim eftir.

Mér finnst það ákaflega fátæklegt sem fram hefur komið til stuðnings þessum rökum. Þess vegna verður svona málflutningur beinlínis hættulegur þar sem hann setur málið upp sem átök milli menningarheima eða sem trúarbragðastríð. Var ekki nóg vitleysan sett fram þegar Bush talaði um krossferð inn í tiltekin múslímalönd eftir 9. september 2001? Nógu erfitt verður að glíma við hryðjuverkamennina þótt þeim verði ekki rétt öll vopn upp í hendurnar með því að skilgreina þetta sem átök tveggja heima, hins kristna og múslímska, og þar er hinn kristni greinilega hinn góði og íslamski heimurinn hinn illi.

Þessi uppsetning minnir mjög á viðbrögðin við hryðjuverkunum á 8. áratugnum, sem hópar á borð við Baader-Meinhof í Þýskalandi og Rauðu herdeildirnar á Ítalíu stóðu fyrir. Þá var hrópað svipað og nú en andstæðingarnir voru ekki múslimar heldur kommúnistar. Hið góða voru vestrænu gildin og kapitalisminn undir forystu Bandaríkjamanna og hið illa var kommúnistaskipulagið sem Sovétríkin réðu fyrir. Það er engu líkara en að Bandaríkjamenn hafi sérstaka þörf fyrir að skilgreina heiminn út frá sjálfum sér, þar sem þeir eru í hlutverki frelsarans sem stendur vörð um hin góðu gildi og svo eru einhverjir aðrir hinir illu, þótt það sé breytilegt frá einum tíma til annars, hver er í hlutverki hins ægilega Sarúman.

Ég held að við ættum að læra af sögunni. Við vitum að hryðjuverkin á 8. áratugnum voru framin af litlum hópum sem fengu ekki stuðning í samfélaginu, en voru "heimamenn". Hóparnir voru skipaðir ungu fólki úr þjóðfélögunum sem urðu fyrir barðinu á hryðjuverkunum en voru ekki útsendarar hins illa í heimsmyndinni. Auðvitað er ekki víst að sagan endurtaki sig að öllu leyti, en það er óvarlegt að útiloka að það sem nú á sér stað í London eða Madrid geti átt rætur í svipuðum ástæðum og þá var. Það var talið líklegast síðast þegar ég heyrði fréttir, að tilræðismennirnir í London hafi verið menn aldir upp í Bretlandi, með öðrum orðum Bretar.

Svo er það þetta með vestrænu gildin. Hver eru verkin í nafni vestrænu þjóðanna þegar morð og árásir á óbreytta borgara eru annars vegar? Eru þau þess eðlis að við eigum að halda í þau og eru þau verk fulltrúa hins góða til slíks sóma að öll heimsbyggðin eigi að falla á kné og gera þau að sínum? Skoðum nokkur dæmi, þar sem fulltrúar hinna vestrænu gilda hafa tekið öllum öðrum fram í verkum sínum.

Í síðari heimstyrjöldinni voru vestrænu gildin teygð út yfir öll fyrri mörk. Nasistar voru réttaðir og dæmdir fyrir sín glæpaverk. En hundruð þúsunda óbreyttra borgara voru drepnir í loftárásum á þýskar borgum undir lok stríðsins. Voru það ekki hryðjuverk? Hundruð þúsunda óbreyttra borgara voru drepnir í tveimur kjarnorkusprengjum sem varpað var á tvær japanskar borgir. Það fer ekki á milli mála að tilgangurinn var að drepa óbreytta borgara. Voru það ekki hryðjuverk líka? Bæði óhæfuverkin voru unnin af fulltrúum vestrænna gilda og mér er til efs að aðrir hafa síðar jafnað þessi hryðjuverk. Og napalmsprengjurnar sem varpað var á óbreytta borgara í Víetnam og hreinlega brenndi þá lifandi komu frá fulltrúum vestrænna gilda.

Það voru líka fulltrúar vestrænna gilda sem réðust inn í Írak fyrir hálfu þriðja ári. Samtökin Irakbodycount telja að 22.787 – 25.814 óbreyttir borgarar hafi fallið síðan innrásin hófst. Langflestir létust af völdum innrásarherjanna.Tilgangur innrásarinnar var að verja öryggi heimsbyggðarinnar með því að eyðileggja gereyðingarvopn sem Írakar áttu að hafa í fórum sínum og að hafa hendur í hári hryðjuverkamanna sem báru ábyrgð á 9. september 2001. Hvorug ástæðan átti við rök að styðjast. Engin gereyðingarvopn voru til og engin tengsl voru milli Saddams og al Kaida. Reyndar er margt sem bendir til þess að ástæðurnar hafi verið átylla og að þeim hafi verið það ljóst sem ábyrgð bera á innrásinni. En afleiðingin er að á þriðja tug þúsunda óbreyttra borgara hafa látið lífið og þeir voru drepnir af yfirlögðu ráði. Hvað á að kalla það annað en hryðjuverk?

Ég vil nefna nokkur dæmi af vef IrakbodyCount. Þeir sem standa að honum taka saman upplýsingar um látna óbreytta borgara sem fjölmiðlar birta og nefna í öllum tilvikum heimildir sínar og gæta þess að hafa fleiri en eina heimild fyrir hverju atviki. Dauðsföllin sem eru talin eru af völdum atvika sem hernámsyfirvöldin eiga skv. Genfarsáttmálanum að koma í veg fyrir. Þar eru auðvitar beinar árásir en einnig dauðsföll af völdum skorts á lögum og reglu, heilbrigðisþjónustu eða hreinlætisaðstöðu.

Af ýmsum ástæðum, en einkum bardögum og loftárásum féllu 2.673 – 3.611 óbreyttir borgarar frá 20. mars 2003 til 24. apríl 2003 í Bagdad og Nassiriya. Frá 5. – 30. apríl 2004 féllu 572 – 616 óbreyttir borgarar í loftárásum og bardögum í Falluja. Frá 8. – 30. nóvember sama ár féllu 581-670 óbreyttir borgarar í sömu borg. Í Al-Sharkia, Kut féllu 84 í loftárásum þar sem íbúðarhús voru lögð í rúst. Bandaríkjamenn töldu að uppreisnarmenn væru þar og þá var ekki spurt um líf óbreyttra borgara. Var þessi árás ekki árás á vestræn gildi? Þann 5. apríl 2003 féllu 85 í Rashidiya í loftárásum og þannig má halda áfram og telja upp hverja árásina á fætur annarri þar sem tugir óbreyttra borgara láta lífið. Eða er ekki rétt að tala um að þeir hafi verið drepnir?

Ég vil enda þennan pistil með því að segja að verkin sem ýmsir vestrænir þjóðarleiðtogar bera ábyrgð á eru kannski ekki í samræmi við þau gildi sem almenningur í vestrænu löndunum vill standa vörð um. Hin mikla andstaða almennings gegn Iraksstríðinu alla tíð er mér einmitt sönnun þess og lýðræðisskipulagið ætti að lokum að knýja þjóðarleiðtogana til þess að starfa í samræmi við gildi almennings, hin vestrænu gildi sem við erum stolt af.

Athugasemdir