Hver man ekki eftir leiknum: hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér ? Fyrirhuguð sala Símans er komin á það stig að minnir helst á þennan gamansama leik. Menn sjá fyrir sér að fyrirtækið verði selt fyrir milljarðatugi króna og fréttir af málinu eru farnar að snúast um það hvað menn vilja gera við peningana.
Þetta er voðalega skemmtilegur leikur, það er hægt að gera svo margt fyrir alla peningana. Utanríkisráðherrann reið á vaðið og vill byggja hátæknisjúkrahús og rökstuðningurinn var þannig að það væri eiginlega síðasti sjens að ráðast í slíkt stórvirki þar sem ríkið ætti fátt bitatsætt eftir að selja. Forsætisráðherrann nefndi um daginn að til greina kæmi að byggja Sundabraut. Áður var búið að gefa undir fótinn með að fjármagna einhver samgöngumannvirki úti á landi með hluta af andvirðinu.
Nú boðar samgönguráðherrann að byggja eigi upp gsm dreifikerfið á þjóðvegum landsins og efla gagnaflutninga í dreifibýlinu. Fjármálaráðherrann vill greiða niður skuldir ríkissjóðs. Einn vill peninga í nýsköpun í atvinnulífinu og annar í þrífösun rafmagns í sveitum og svo sá þriðji vill peninga í rekstur háskólanna. Og svona getur leikurinn haldið áfram fram á sumarið. Hvað viltu gera við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér ?
Mér finnst eiginlega ekkert liggja á. Það er engin vá fyrir dyrum, ríkið getur haldið áfram að eiga Símann og hirða af honum milljarða króna gróða á hverju ári. Mér er minnisstætt þegar til stóð að selja Símann fyrir 4 árum, þá var því haldið stíft fram að verðmæti Símans myndi hverfa á næstu árum vegna tækniframfara og því mætti engan tíma missa. Annað er uppi á teningnum núna, verðmætið er talið hafa vaxið um tugi milljarða króna og einn ráðherrann nefndi um helgina 60 – 80 milljarða króna sem gæti fengist fyrir fyrirtækið.
Fyrir árlegan hagnað Símans er hægt að byggja hátæknisjúkrahús og eiga Símann áfram. Áætlað er að nýr spítali verði að fullu tekinn í notkun 2018. Kostnaðurinn er um 36 milljarða króna en frá því dregst söluverð núverandi spítalabygginga. Eftir standa um 18 milljarðar króna. Það þarf ekki nema um 1,5 milljarð króna á fjárlög hvers árs fram til 2018 til þess að fjármagna nýja spítalann. Þriggja milljarða króna gróði á ári dugar vel fyrir því.
Annars finnst mér höfuðmáli skipta, hvort sem af sölunni verður eða ekki, að tryggja að um samkeppni verði að ræða á fjarskiptamarkaðnum og að uppbygging þjónustunnar verði um land allt. Ef það gengur ekki eftir þá munu allir tapa, nema þeir sem eignast Símann. Lítil sem engin samkeppni þýðir hátt verð og lakari þjónustu, neytendur borga meira en eigendurnir græða. Ef það gerist munu áhrifin af leiknum frúin í Hamborg dvína fljótt. Nýju eigendur Símans verða þá eins og frúin í Hamborg, með fullar hendur fjár og græða á tá og fingri.
Að lokum, er ekki best að skella sér í leikinn og eyða peningunum sem fengust frá frúnni í Hamborg. Ég tel að andvirðið eigi allt að fara í samgöngumál og eingöngu stofnframkvæmdir en ekki rekstur. Þar með breytir ríkið eign sínni í Símanum í aðrar eignir í sömu starfsemi. Byggja upp fjarskiptasamband og símasamband af bestu gerð um allt land. Gera jarðgöng og leggja vegi. Leysa brýn verkefni á höfuðborgarsvæðinu, ljúka vegagerð á hringveginum og þar með Vestfjarða- og Snæfellsneshringveginum, útrýma einbreiðum brúm og byggja upp ferðamannavegi sem eru utan stofnvegakerfisins. Það er af nógu að taka.
Athugasemdir