Háskólasetur: áfangi en ekki takmark, upphaf en ekki endir

Pistlar
Share

Á laugardaginn var stofnað háskólasetur á Ísafirði, en því er ætlað að stuðla að uppbyggingu háskólamenntunar á Vestfjörðum og vera samstarfsvettvangur aðila á því sviði. Auk þess á setrið að vinna að verkefnum á sviði símenntunar, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar.

Þessi leið hefur ekki verið farin áður, fram til þessa hefur leiðin til háskólamenntunar legið í gegnum skólastofnun. Stundum hefur verið nokkurra ára aðdragandi að því að skólinn hafi orðið háskóli, en alltaf mér vitanlega hefur verið byrjað á því að stofna skóla, sem síðan hefur vaxið upp í háskóla.

Hugmyndin um háskólasetur kom fram fyrir nokkrum árum og er m.a. að finna í tillögum Vestfirskra sveitarstjórna frá 2002 og ég hygg að hún sé líka í síðustu byggðaáætlun. Á sínum tíma var setur það lengsta sem menn gátu hugsað sér að hægt væri að fara í því að færa háskólamenntun út á land í fámennum héruðum og fjórðungum.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og eftir því sem hugmyndin um setur hefur verið betur skoðuð hafa annmarkar þeirrar leiðar komið í ljós og trú á því dvínað að setur leiði til eðlilegra möguleika til háskólanáms í heimabyggð. Það varð einnig mín niðurstaða, eftir að hafa farið yfir málið með mörgum háskólamönnum.

Sama sinnis eru nánast allir sem ég hef heyrt í á Vestfjörðum og þ.að kom rækilega í ljós á ráðstefnu um háskólamenntun á Vestfjörðum sem efnt var til á Ísafirði fyrir réttu ári. Sérstaklega voru fjarnámsnemendur, sem búsettir eru á Vestfjörðum, ákveðið á þessari skoðun og byggðu hana m.a. á eigin reynslu.

Eftri þá ráðstefnu fór ég að vinna að því innan Framsóknarflokksins ásamt fleirum að fá stuðning við þá stefnu að stefna beint að stofnun háskóla. Það hefur gengið vel, í haust samþykkti kjördæmissamband flokksins í Norðvesturkjördæmi að stofna skuli háskóla á Ísafirði innan þriggja ára og í síðasta mánuði gerði sjálft flokksþingið sömu samþykkt. Menn verða að þora að segja skoðun sína á málinu og tala fyrir henni annars næst ekki árangur.

Því miður eru ekki allir komnir svo langt.Þingsályktunartillaga sem ég flutti á síðasta ári á Alþingi ásamt alþingismönnunum Gunnari Birgissyni, Magnúsi Stefánssyni og Einari Oddi Kristjánssyni um stofnun háskóla á Ísafirði náði ekki fram að ganga að sinni vegna andstöðu menntamálaráðherra og fleiri og óbreytt afstaða ráðherrans nú réði því að ekki varð af stofnun háskóla heldur einungis stofnað setur.

Sú niðurstaða er vissulega vonbrigði, hún tefur fyrir því að komast að markmiðinu, sem er að stofna sjálfstæðan háskóla. Og illa mega Vestfirðingar við töf á svo miklu framfaramáli í fjórðungnum. En samt getur háskólasetur verið spor áleiðis. Í því felast nokkrir möguleikar, sem verður að nýta og framsóknarmenn munu toga málið áfram samkvæmt stefnu sinni, að stofna skuli háskóla innan þriggja ára. Sú stefna er skýr.

Það jákvæðasta við stofnun setursins á laugardaginn var að greinilega kom fram mikill vilji, sérstaklega meðal Vestfirðinga sjálfra, til þess að byggja upp öfluga háskólastofnun. Og þann vilja eigum við að efla.

Nú er setrið orðið að veruleika og þá verður að standa þannig að málum að nemendur líti á það sem raunhæfan valkost að stunda nám sitt þar. Annars munu nemendurnir halda áfram að fara til náms í einstökum háskólum eins og verið hefur. Nemendurnir munu dæma tilraunina að lokum með vali sínu.

Athugasemdir