Framsalið – banabiti byggðanna ?

Pistlar
Share

Á síðum blaðsins Eyjafréttir er deilt um línuívilnun, kjarni málsins er atvinnuöryggi byggðanna. Fólk tekur afstöðu í málinu eftir því hvort það telur að málið bæti stöðu byggðarlagsins eða dragi úr atvinnuöryggi. Línuívilnunin mun bæta stöðu fólks þar sem línuútgerð er stunduð að einhverju marki. Kosturinn er að slík útgerð stuðlar að vinnslu í landi og tengir saman byggð og nærliggjandi fiskimið. Það eykur atvinnuöryggi. Það er mikill misskilningur að ívilnunin muni skaða aðra staði af þeirri einföldu ástæðu að hún er hófleg og afmörkuð og á ekki að valda samdrætti í útgefnum aflaheimildum. Þannig er frá málinu gengið í samþykktum stjórnarflokkanna hvors um sig.
Stjórnarflokkarnir: valkostur útgerðarmanna
Það kom skýrt fram í kosningabaráttunni hvað ívilnunin gæti verið t.d. í Morgunblaðinu 24. apríl. Engin viðbrögð urðu meðal útvegsmanna alla kosningabaráttunna. Ég hef farið yfir öll skrif og viðtöl við þá fyrir síðustu kosningar og enginn þeirra minntist einu orði á línuívilnunina. Voru þeir þó sérlega áberandi síðustu dagana og beittu sér verulega í því skyni að hafa áhrif á kjósendur. Það er satt að segja umhugsunarefni en verður ekki rætt frekar hér, en útvegsmennirnir vöruðu við málflutningi stjórnarandstöðunnar og vísuðu auðvitað þar með kjósendum á stjórnarflokkana. Það er athyglisvert því enginn stjórnarandstöðuflokkur bar fram línuívilnun heldur einungis stjórnarflokkarnir. Meðal þeirra sem beittu sér var Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Hann skrifaði tvær greinar fyrir kosningar, í Mbl. 3. maí og í Fréttablaðinu 9. maí gegn málflutningi stjórnarandstöðuflokkanna en minntist ekki einu orði á línuívilnun, hann hafði sem sé ekkert við hana að athuga. Honum fannst engin ástæða til þess að vara Eyjamenn við samþykkt Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir kosningar.
Standa á við gert samkomulag
Tillaga um málið var samþykkt samhljóða og án mótatkvæða á flokksþingi Framsóknarflokksins í febrúar sl. Tveir ágætir félagar úr Suðurkjördæmi báru tillöguna fram og töluðu fyrir henni, þeir Hjálmar Árnason og Eysteinn Jónsson. Annar er þingmaður kjördæmisins og hinn er aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra.
Samþykkt um línuívilnun var samkomulag milli þeirra sem vildu breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu m.a. til þess að styrkja veikar sjávarbyggðir og hinna sem vilja engar breytingar, en óttuðust tillögur stjórnarandstöðunnar. Það gildir um báða stjórnarflokkana og menn eiga að standa við gert samkomulag. Það er ekki stórmannlegt að hlaupa frá því eftir kosningar.

Framsalið:enginn öruggur
Vandinn er ekki línuívilnunin heldur framsalið sjálft. Það eru of mörg dæmi um ákvarðanir sem útgerðarmenn eða eigendur hlutabréfa tóku og gengu gegn almennum hagsmunum íbúanna í viðkomandi byggðarlagi. Við Vestfirðingar munum fláræði og blíðmælgi manna sem keyptu ráðandi hlut í vestfirskum útgerðarfyrirtækjum og sögðust ætla að efla útgerð og vinnslu en innan skamms tíma fluttu veiðiheimildirnar til síns heima á Akureyri, í Grindavík og Rifi svo dæmi séu nefnd. Síðan framsalið var leyft óheft hafa aflaheimildir safnast á tiltölulega fáa staði og frá mörgum sjávarplássum um land allt. Nú vakna menn við vondan draum á stöðum eins og Akranesi og Akureyri, kvóti getur nefnilega farið frá þeim en ekki bara færst til þeirra. Það er enginn öruggur. Þess vegna verður að gera breytingar á gildandi lögum þannig að handhafar kvótans hafi ekki fullkomlega frjálsar hendur um sölu veiðiheimildanna og hagsmuna annarra í plássunum sé gætt. Útvegsmenn eru hvorki einir í heiminum né hinir útvöldu. Það er því ekki eðlilegt að þeir einir eigi eða ráði. Þetta er stóra vandamálið sem menn komast ekki undan að taka á. Framsalið hefur lamað mörg sjávarpláss og gæti orðið banabiti þeirra.

Sérstaða Vestmannaeyja
Vestmannaeyjar hafa algera sérstöðu þegar skoðað er hvernig lönduðum afla er ráðstafað. Á síðasta ári var landaður botnfiskafli 39.169 tonn í Eyjum. Aðeins 23% aflans fór til vinnslu í heimahöfn eða 9.144 tonn. Verkað annars staðar innanlands voru 3.157 tonn til viðbótar. Samtals er til vinnslu innanlands aðeins um 31% af botnfiskaflanum. Landað unnið var 15.305 tonnum, erlendis var landað 4.100 tonnum og 7.398 tonn voru send í gámum. Þetta eru ótrúlegar tölur, í það heila tekið fara aðeins um 30% af aflanum til vinnslu innanlands, önnur 30% eru unnin út á sjó og um 40% eru seld óunnin úr landi. Engin önnur verstöð á landinu ráðstafar afla sínum með þessum hætti. Vestfirðingar vinna sjálfir um 76% af lönduðum botnfiskafla í fjórðungnum( sem var 42.084 tonn á síðasta ári) og samtals um 90% eru unnin innanlands. Aðeins 721 tonn af botnfiski er selt úr landi í gámum og engu er landað erlendis. Landað unnið var 3.540 tonn eða um 8% af botnfiskaflanum. Útvegsmenn í Vestmannaeyjum skulda sínu fólki skýringar á því hvers vegna þeir ráðstafa svo litlu af afla sínum til vinnslu í sínum heimabæ. Hversu mörg störf væri hægt að skapa í Vestmannaeyjum ef ráðstöfun aflans væri með svipuðum hætti og á Vestfjörðum eða með öðrum orðum hve margir hafa misst vinnu sína vegna þess að aðeins 23% af botnfiskaflanum er unnið í heimahöfn ? Hvers vegna leigðu útgerðarmenn í Eyjum frá sér 4.059 tonn af þorski fiskveiðiárið 2001/2002 en aðeins 1.466 tonn til sín ? Það eru nettó 2.592 tonn.

Má ekki vera ósammála?
Mér finnst að Þórður Rafn Sigurðsson fari offari í viðtali við Eyjafréttir fyrir skömmu. Hann ræðst persónulega að fólki og engu líkara er að hann einn viti og kunni. Hann bregður mér um að hafa ekki vit á því hvað fiskur er og hvernig hann hagar sér, Drífa Hjartardóttir fær þá sendingu að hafa ekki hundsvit á þessum málum, bæjarfulltrúar í Eyjum eru glópar og Einar Oddur Kristjánsson fær sinn skerf. Sigurjón Óskarsson bætir um betur og vegur að Matthíasi Bjarnasyni og þeir báðir ráðast að Guðmundi Halldórssyni. Hvað á svona málflutningur að þýða, geta menn ekki talað fyrir sínum skoðunum án þess að vera með persónulegar svívirðingar ? Ég velti því fyrir mér hvernig er tekið á því fólki í Eyjum sem ekki sammála þessum mönnum. Ef þetta viðtal er lýsandi fyrir viðbrögðin, þá er ekki að sjá að skoðanafrelsi sé virt mikils. Eru það næg efni til þess að vega að fólki persónulega að það talar fyrir samþykkt sinna flokka ?
Það var unnið með kerfinu
Um viðtalið við þá tvímenninga má margt segja en ég vil láta nægja að segja að Vestfirðingar voru ekki síðri en aðrir að vinna með kvótakerfinu. Í kerfinu felst hvati til að selja veiðiheimildir og hætta útgerð og til þess að sameina fyrirtæki og aflaheimildir en fækka skipum. Það getur ekki verið tilefni hnjóðsyrða að hafa gert það. Dæmi um sameiningu fyrirtækja er útgerð Guðbjargarinnar frá Ísafirði. Fyrirtækið var sameinað Samherja til þess að afla meiri veiðiheimilda á skipið og samið var um að það yrði áfram gert út frá Ísafirði. Það var svikið. Veiðiheimildir voru ekki fluttar til Ísafjarðar, heldur frá Ísafirði til Akureyrar. Það voru ekki Vestfirðingar sem sviku, þeir voru sviknir, þetta er ekki eina dæmið af þessu tagi. Hvers vegna segir Þórður Rafn , í ljósi þessa, að helsta vandamál Vestfirðinga sé hversu illa þeim tókst að halda á sínum kvótamálum? Felst í þessu sú skoðun að hann telji að sá sem svikinn er sé ábyrgur en ekki sá sem sveik ? Að lokum finnst mér ekki mikil reisn yfir því að ráðast persónulega á forsvarsmann hagsmunasamtaka fyrir það eitt að hann er að ljúka sínu ævistarfi á áttræðisaldri. Hann seldur handfærabát sinn og getur á engan hátt hagnast af ívilnun á línuveiðar ef hún kemur til framkvæmda.

Athugasemdir