Veiðiheimildir voru auknar á nýbyrjuðu fiskveiðiári um 30.000 tonn í þorski,um 20.000 tonn í ýsu og jafnmikil aukning varð í ufsa. Fyrir Eyjamenn þýðir þetta að aflamark eykst um sem svarar 5.200 tonnum í þessum tegundum og jafngildir það um 4.400 þorskígildum. Í ályktun Útvegsbændafélags Vestmannaeyja fyrir skömmu segir að skerðing um 2.250 þorskígildistonn jafngildi því að taka 2 af 28 vertíðarbátum Eyjamanna úr umferð. Þessi aukning hlýtur því að jafngilda því að 4 vertíðarbátar bætist við flotann ef marka má ályktunina. Af einhverjum ástæðum vekja útvegsbændur ekki athygli á þessum jákvæðu tíðindum. Þar virðast menn of uppteknir af því að finna línuívilnun allt til foráttu og ýkja sem mest áhrifin af henni. Það er miður, því það er gert á kostnað sanngirni. Jafnvel þótt línuívilnun leiddi til þess að aflamark yrði lækkað sem nemur ívilnuninni, sem alls ekki er víst, þá eru veiðiheimildir Eyjamanna að aukast.
Undirstöður byggðarlagsins veikjast
Í ályktun Útvegsbændafélagsins segir skýrt að kvóti sem fari burt úr byggðarlaginu veiki efnahags- og félagslegar undistöður byggðarlagsins. Ég er sammála þessu og þetta á við um öll byggðarlög, líka á Vestfjörðum. Þess vegna á að hvetja útgerðarmenn til þess að nýta aflaheimildir sínar sem mest í heimabyggð og skapa þar atvinnu. ´Eg hefði viljað sjá að útvegsbændur hefðu litið í eigin barm og ákveðið að gera betur en þeir hafa gert.
Fiskveiðiárið 2001/2002 var leigt aflamark í þorski frá Vestmannaeyjum 2.592 tonn. Það er um 20% af öllu aflamarki Eyjamanna í þorski það ár. Nýrri upplýsingar hef ég ekki um leiguna en þetta getur varla talist styrkja undirstöður byggðarlagsins.
Þá var um 4.100 tonnum af botnfiskafla Eyjaskipa landað erlendis á síðasta ári og 7.398 tonn flutt út í gámi. Útvegsmenn í Eyjum áttu 93,5% af lönduðum fiski erlendis þetta ár og um 32% af öllum gámaútflutningi og skera sig algerlega frá útgerðarmönnum annars staðar á landinu. Það er ótrúlegt að 30% af öllum botnfiskafla skipa Eyjamanna síðasta árs sé landað erlendis eða sent út í gámum. Þetta ber ekki vitni um mikla umhyggju fyrir byggðarlaginu, þótt vel komi fyrir sjómennina þá gagnast þessi ráðstöfun aflans varla landverkafólki.
Línuívilnun til að styrkja byggðarlög
Línuívilnun hefur þann tilgang að auka veiði dagróðrabáta þar sem góðu hráefni er skilað í land til vinnslunnar og veik byggðarlög styrkjast. Allir dagróðrarbátar eiga kost á ívilnun óháð stærð þeirra, enda málið ekki bundið við smábáta.Ljóst er miðað við útgerðarmynstrið að mikill hluti af ávinningnum fellur til byggðarlaga sem hafa misst mikið af veiðiheimildum undanfarin ár. Byggðarlög á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Suðurnesjum, Eyjafirði og Austurlandi munu fá mest af ívilnuninni. Mjög mörg þeirra standa höllum fæti, hafa misst miklar aflaheimildir af ýmsum ástæðum og reynt er að byggja um útgerðir á nýjan leik. Samþykktir um málið ganga út á að ívilnunin verði hófleg til þess að raska sem minnst stöðu annarra útgerða. Þannig er miðað við 20% ívilnun á allar tegundir í Byggðaáætlun fyrir Vestfirði sem sveitarstjórnirnar samþykktu í mars 2002 og Landssamband smábátaeigenda gerir ráð fyrir 20% í þorski en 50% í öðrum tegundum. Þetta þýðir t.d. miðað við veiðar dagróðrabáta síðasta fiskveiðiárs ívilnun um 4.400 tonn í þorski og um 2.000 tonn af ýsu ef miðað er við 20% en 5.000 tonn ef miðað er við 50%.
Á að skerða aflamarkið ?
Það er alls ekki sjálfgefið að nauðsynlegt sé að skerða útgefið aflamark á móti þessum auknu veiðum. Ég bendi á að svonefndur Hafróafli og undirmálsafli utan aflamarks í þorski var samtals um 4.600 tonn á síðasta fiskveiðiári og í ýsu nam þessi afli um 1.320 tonnum.. Aflamark var ekki skert, hvorki í þorski né ýsu. Þessi afli var ekki tekinn frá neinum og hvers vegna á að lækka aflamark í þorski eða ýsu ef fiskurinn er veiddur á grundvelli línuívilnunar, en ekki ef hann er veiddur til styrktar Hafró eða sem smáfiskur ?
Þá vil ég benda á að reglur um viktun afla eru mjög mismunandi, svo ekki sé meira sagt og. Fjarri lagi er að allur afli sé viktaður og enn síður að það sé gert með sama hætti. Afli ísfiskskipa er viktaður þegar skip kemur í höfn en ekki þann dag sem fiskur er veiddur. Fiskurinn rýrnar við geymsluna um borð. Ef því sem ég kemst næst er má gera ráð fyrir fjögurra til fimmdaga veiðiferð að meðaltali og að rýrnun sé 5-7% á þeim tíma. Það þýðir t.d. að togararnir veiða 5-7000 tonnum meira af þorski en er dregið frá aflamarki þeirra. Eigum við að tala um togaraívilnun? Afli frystiskipa er aldrei viktaður. Frystiskipaívilnun? Það þarf vissulega að ræða hvort og þá hve mikið á að mæta aukinni veiði vegna línuívilnunar með lækkun aflamarks annarra útgerða, en þá þarf að ræða málið í heild og menn ættu að geta verið sammála um að mismunandi reglur geta ekki gilt um línuívilnun annars vegar og frystiskipaívilun/ísfisktogaraívilnun/trollívilnun hins vegar. Eða eins og útvegsbændafélagið segir í ályktun sinni að eðlilegt hljóti að teljast að allir, sem hafi fengið úthlutað aflaheimildum, sitji við sama borð.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir