Með félagshyggjuna að vopni

Greinar
Share

Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur sem byggir á grundvelli samvinnu og jafnaðar. Í samræmi við það er lögð áhersla á að dreifa væntanlegum efnahagsávinningi þjóðarbúsins þannig að efnaminni fái meira en hinir. Það skilur Framsóknarflokkinn frá hægri flokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Frjálslynda flokknum. Eftirfarandi tíu atriði lýsa vel félagshyggjunni í stefnu Framsóknarflokksins :

1. Hækka á persónuafslátt en ekki einblínt á lækkun skattprósentu. Það færir lágtekjufólki meiri hlut í skattalækkuninni en annars væri.

2. Samræmi verði milli skattleysismarka og bóta almannatrygginga þannig að bætur almannatrygginga verði skattfrjálsar.

3. Atvinnuleysisbætur verði hækkaðar strax og stefnt að því að þær verði ekki lægri en lægstu launataxtar.

4. Grunnlífeyrir öryrkja hækki miðað við aldur og verði mest tvöfalt hærri hjá þeim sem fara á bætur 18 ára.

5. Skerðingarmörkum á atvinnutekjum öryrkja verði breytt til þess að auka sjálfsbjargargetu einstaklinganna með vinnuhvetjandi kerfi.

6. Lán Íbúðalánasjóðs til almennra íbúðakaupa hækki og verði allt að 90% af kaupverði íbúðar eða byggingarkostnaði hóflegs húsnæðis.

7. Fjármagn til barnabóta hækki um a.m.k. 50% og og tekjumörk verði hækkuð.

8. Leikskólagjöld verði frádráttarbær frá tekjuskattsstofni foreldra.

9. Síðasta ár leiksskóla verði skólaskylda og þá falli leiksskólagjöld niður. Ríkissjóður tekur að sér að greiða kostnaðinn.

10. Foreldrum verði gert kleift að nýta sér ónýttan persónuafslátt barna 16-18 ára.

Þessar tilllögur miða að því að bæta kjör láglaunafólks til sjávar og sveita og fjölskyldufólks. Þetta eru boðorðin 10 fyrir okkur sem vinnum með félagshyggjuna að vopni. Það er mikilvægt að halda henni vel á lofti um þessar mundir þegar sérhyggja, græðgi og óbilgirni eru mjög áberandi í þjóðlífinu. Hófsemin og samhjálpin eru betri förunautar.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir