Fjaðralaus flýgur lágt

Greinar
Share

Samgönguráðherra sendir mér tóninn vegna fréttar um lengingu Þingeyrarflugvallar. Er honum mest í mun að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að ég hafi ekkert komið að ákvörðun um lenginguna og skreyti mig með fjöðrum annarra, þ.e.a.s. hans sjálfs.
Vandinn í þessari samlíkingu ráðherrans er að hann hefur engar fjaðrir af sig að skreyta í málinu. Hann er fjaðralaus fyrir og til lítils að reyta af honum það sem ekkert er.
Staðreyndir í málinu eru þessar: Í tillögunni sem ráðherrann lagði fyrir Alþingi er ekki gert ráð fyrir lengingu Þingeyrarflugvallarins. Þar er sagt að málið sé í athugun og frumhönnun hafin til þess að geta metið kostnað við framkvæmdina. Segir svo að verði um lengingu að ræða verði ekki hægt að ráðast í framkvæmdina fyrr en á árunum 2007-2010. Í umræðum sagði ráðherrann að að loknum rannsóknum ætti að undirbúa lengingu við endurskoðun á áætluninni eftir tvö ár. Tillaga ráðherrans var skýr: ekki yrði ráðist í lengingu næstu 4 ár.
Það er líka staðreynd að ég tók málið upp á Alþingi og það urðu ekki aðrir til þess. Það má vera að einhver hafi tekið málið upp á öðrum vettvangi, það veit ég ekki. En málið var rætt innan þingflokks Framsóknarmanna og tillaga um að ráðast strax í lenginguna kom frá samgöngunefnd Alþingis, ekki samgönguráðherra. Hverjum manni er ljóst að þeir sem tala fyrir máli eru líklegri til þess að koma því áfram en hinir sem gera það ekki.

Sturla Böðvarsson segir að fjármagn hafi verið til staðar í tillögu hans en verið merkt til uppbyggingar á næturflugsbúnaði við flugbrautina á Ísafirði. Hætt hafi verið við þau áform og féð fært til lengingar flugbrautarinnar á Þingeyri.
Enga stoð er að finna fyrir þessum fullyrðingum ráðherrans. Í samgönguáætluninni sem hann lagði fram er engin fjárveiting til næturflugs á Ísafirði, enda veit ég ekki betur en að þau áform hafi verið slegin af löngu áður. Í meðförum Alþingis eru gerðar tvær breytingar á flugmálakafla áætlunarinnar. Settar eru 153 mkr. til lengingar á Þingeyri og liðlega 80 mkr. til Grímseyjarflugvallar. Á móti þessum nýju útgjöldum er skorin niður fjárveiting til æfingaflugvalla um 250 mkr. á þessum 4 árum 2003-2006. Niðurstaðan er að ráðherrann er fjaðralaus.

Ég vil nefna annað mál. Fyrir þremur árum var samþykkt sérstök jarðgangaáætlun fyrir árin 2000-2004. Þegar þingflokkur Framsóknarmanna samþykkti málið fyrir sitt leyti var það með þeirri breytingu að við rannsókn til undirbúnings jarðgangagerð á Vestfjörðum og Austfjörðum bættust 50 mkr. hvort ár 2000 og 2001. Það var gert vegna þess að við framsóknarmenn vildum hraða ákvörðun um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Samgönguráðherrann féllst ekki á þessa breytingu og hún náði ekki fram að ganga. Ég tel að búið væri að taka ákvörðun um jarðgöngin nú ef breyting okkar framsóknarmanna hefði náð fram að ganga og þá hefði verið gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda í nýsamþykktum samgönguáætlunum. Ég er nefninlega hræddur um að ráðherrann sé fjaðralaus í þessu máli líka og það valdi þessu lágflugi hans.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir