Stöðugleiki, jöfnuður, fjölskylda

Greinar
Share

Áberandi er að stjórnmálaflokkarnir gefa fyrirheit um lækkun skatta á næsta kjörtímabili. Ástæðan er að tekist hafa samningar um byggingu álvera í Hvalfirði og á Reyðarfirði. Framkvæmdir við byggingu álveranna og nauðsynlegar virkjanir leiða af sér mikinn hagvöxt á meðan á þeim stendur og að þeim loknum auka framleiðsluvörur álveranna tekjur þjóðarbúsins. Hvort tveggja eykur tekjur ríkissjóðs og það eru þessar viðbótartekjur sem stjórnmálaflokkarnir vilja láta ganga til almennings með lækkun skatta. Ef ekki væri búið að tryggja uppbygginguna í stóriðjunni snerist kosningabaráttan ekki um bættan hag almennings með tryggri vinnu og lækkun skatta heldur líklega um að viðhalda atvinnustigi og lífskjörum. Aðalatriðið er að sókn í atvinnumálum gefur færi á að bæta lífskjör almennings, þess vegna snýst kosningabaráttan um það.

Stöðugleiki í efnahagsmálum
Mikilvægast er að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum. Ef það bregst fer verðbólgan á kreik og allir tapa og þá sérstaklega launafólk. Kjarabætur sem leiða af sér óstöðugleika og verðbólgu verða engar kjarabætur. Þess vegna er númer eitt að viðhalda stöðugleika og lágri verðbólgu. Almennri skattalækkun verður því aðeins hrint í framkvæmd að stöðugleikinn raskist ekki. Það má enginn velkjast í vafa um það. Tímasetning og áfangar á almennri lækkun skatta verða ákvarðir þannig að stöðugleikinn haldist. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins eins og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um.

Félagslegar áherslur
Í samræmi við grundvöll Framsóknarflokksins sem félagshyggjuflokks er lögð áhersla á að dreifa kjarabótunum þannig að efnaminni fái meira en hinir. Það gerist með hækkun persónuafsláttar. Lækkun skattprósentu dreifist hlutfallslega jafnt yfir tekjuhópa en hátekjumenn fá fleiri krónur í lækkun skattsins en lágtekjumenn. Með því að spila saman hækkun persónuafsláttar og lækkun skattprósentu næst það markmið að bæta kjör lágtekjuhópa meira en annars væri. Þannig er stefnt að því að samræmi verði milli skattleysismarka og bóta almannatrygginga þannig að bætur almannatrygginga verði skattfrjálsar. Þeir sem einungis eru á bótum almannatrygginga og hafa verið að greiða skatt munu verða skattfrjálsir skv. samþykkt síðasta flokksþings Framsóknarflokksins, ef hún nær fram að ganga. Aðrar samþykktir sem lýsa sömu félagslegum áherslum eru: að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar strax og stefnt að því að þær verði ekki lægri en lægstu launataxtar, að skerðingarmörkum atvinnutekna öryrkja verði breytt til að auka sjálfsbjargargetu einstaklinganna með vinnuhvetjandi kerfi, að tvísköttun lífeyrisgreiðslan verði hætt og að lífeyrisréttur félagsmanna innan ASÍ í störfum hjá hinu opinbera verði jafnaður réttindum BSRB svo nokkur dæmi séu nefnd. Loks vil ég nefnda samkomulag heilbrigðisráðherra við Öryrkjabandalagið sem hækkar grunnlífeyri þeirra sem fara ungir á örorkubætur og getur tvöfaldað grunnlífeyririnn hjá þeim sem mest hækka. Það samkomulag þarf að lögfesta á Alþingi og við munum beita okkur fyrir því.

Fjölskylduáherslur
Ekki er ætlunin í skattastefnu Framsóknarflokksins að setja allan ávinning ríkissjóðs út í formi lækkunar á sköttum, heldur verður varið verulegu fé til að styrkja stöðu fjölskyldufólks. Til þess að lágmarka kostnað fjölskyldunnar við húsnæði verður Íbúðalánasjóður starfræktur áfram og lánað 90% til almennra íbúðakaupa eða byggingar hóflegs húsnæðis. Aukið verður verulega við það fé sem varið er til barnabóta eða um a.m.k. 50% . Leikskólagjöld verði frádráttarbær frá skattstofni foreldra og í samvinnu við sveitarfélögin verði komið á skólaskyldu síðasta ár leikskólans og jafnframt verði þá leikskólagjaldið afnumið fyrir það ár. Ríkissjóður mun þá taka að sér þennan kostnað. Þá verði foreldrum gert kleift að nýta sér ónýttan persónuafslátt barna 16-18 ára. Það mun kosta verulegt fé að hrinda þessum áherlsum í framkvæmd, en þær er tekjujafnandi í eðli sínu og nýtast lágtekjufjölskyldum betur en öðrum. Niðurstaðan er þessi: stöðugleiki, jöfnuður, fjölskylda.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir