Atvinna er undirstaða byggðar. Á Vestfjörðum er það sjávarútvegur sem ber uppi atvinnulíf og hefur gert alla tíð. Síðasta áratug hefur mikið gengið á þar vegna mikils samdráttar í þorskveiðum, en þær veiðar eru uppistaðan í atvinnugreininni. Mörg fyrirtæki stóðu ekki af sér samdráttinn og frá fjórðungnum hafa flust um 40% af veiðiheimildum. Enginn annar landshluti hefur mátt þola annan eins samdrátt. Alþingismenn kjördæmisins brugðust við með því að fá opnaðan möguleika fyrir nýja aðila inn í atvinnugreinina með útgerð smábáta. Þeirri leið hefur nú verið lokað. Það hefur gert mikið gagn og fært veiðiheimildir til þeirrar útgerðar. Engu að síður er samdrátturinn 40% nettó og honum hefur fylgt lækkun launa, fækkun starfa og um 20% fólksfækkun á einum áratug á Vestfjörðum.
Gefið
Þessi viðleitni Vestfirðinga hefur farið mikið í taugarnar á oflátungi og hrokagikk að norðan, Þorsteini Má Baldvinssyni. Honum finnst að það eigi ekki að færa veiðiheimildir til Vestfjarða, það sé frá honum tekið og sendi okkur Vestfirðingum tóninn einn ganginn enn fyrir nokkru í sjónvarpsviðtali. Á Vestfjörðum væru fiskvinnslur mannaðar útlendingum og menn yrðu að gera sér grein fyrir því að frekar ætti að vinna fiskinn fyrir norðan þar sem væru íslendingar. Ekki geri ég lítið úr því að fólk í fiskvinnslu við Eyjafjörð hafi vinnu og það er alls góðs maklegt. Hitt er fáheyrt sjónarmið að fólk sem er af erlendu bergi brotið eigi ekki sama rétt til vinnu og hinir sem eru fæddir hér, þeir lifa hér og starfa og eru nýtir þegnar. Kynþáttafordómar Þorsteins Más eru nýmæli en vitað var um andúð hans á Vestfirðingum. Það er merkilegt, honum hefur meira verið gefið en flestum öðrum Íslendingum. Honum og félögum hans voru færðar veiðiheimilir án endurgjalds með sérstökum aðgerðum svo nemur þúsundum tonna að verðmæti milljörðum króna á þrjú skip, Akureyrina, Oddeyrina og Þorstein EA. Stjórnmálamenn hafa reynst honum notadrjúgir við auðsöfnun.
Logið
Vestfirðingum hefur verið legið á hálsi fyrir andstöðu við kvótakerfið og að þeir vildu ekki spila með kerfinu. Samt er nú dæmi um slíkt. Eigendur Hrannar á Ísafirði ákváðu að sameina fyrirtæki sitt Samherja gegn loforði Þorsteins Más um að Guðbjörgin yrði áfram ÍS og áfram gerð út frá Ísafirði. Efndirnar eru þjóðþekktar, hvort tveggja brást innan skamms tíma. Mikill kvóti fór frá Ísafirði til Akureyrar. Vestfirðingar ætluðu að spila með kerfinu en Þorsteinn Már spilaði með þá, hann laug.
Svikið
Ég vil rifja upp viðskipti sem fyrirtækið Hvaleyri hf í Hafnarfirði átti við Hafnarfjarðarkaupstað árið 1985, en það fyrirtæki var í eigu þeirra Samherjafrænda. Hvaleyri keypti eignir Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, togarana Apríl HF og Maí HF auk fiskiðjuversins að Vesturgötu 9-13 ásamt vélum og tækjum. Kaupverð var um 280 mkr. á þáverandi verðlagi sem eru nú u.þ.b. 1.130 mkr. Miklar vonir voru í Hafnarfirði bundnar við rekstur Hvaleyrar sem lagði áherslu á að pakka fiski í neyslupakkningar fyrir Bandaríkjamarkað. Í kaupsamningana var sett eftirfarandi ákvæði: " kaupandi lýsir því yfir að hann mun nota hina seldu eign til starfrækslu útgerðar og fiskvinnslu í Hafnarfirði og er honum kunnugt um að slíkt er forsenda fyrir sölu þessari af hálfu seljanda."
Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði voru auðvitað að hugsa um atvinnu fyrir sitt fólk og vildu tryggja hana með þessu skilyrði sem kaupandi gekk að. Efndirnar urðu þær að fiskiðjuverinu var endanlega lokað árið 1991 og á sama tíma dró smám saman úr löndunum togaranna í Hafnarfirði, sem juku nú landanir sínar á vegum Samherja fyrir norðan, enda höfðu þeir fengið skráningarnúmer fyrir norðan sem Samherjaskipin Margrétin og Víðir. Veiðiheimildirnar voru um það bil 5500 tonn í ýmsum tegundum og verðmætið nú er líklega ekki undir þremur milljörðum króna. Hafnfirðingar eru í huga Þorsteins Más greinilega í sama flokki og Vestfirðingar og útlendingar og voru líka sviknir.
Það færu betur að hrokagikkurinn sæti þegjandi á sínum gullhaug.
Kristinn H. Gunarsson
Athugasemdir