Spilin á borðið

Greinar
Share

Í Morgunblaðinu hafa tveir menn skrifað greinar og gagnrýnt að Sigríður Snæbjörnsdóttir var ráðinn framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en ekki Skúli Thoroddsen. Athygli vekur að báðir greinarhöfundar hafa forðast aðalatriði málsins. Það er að gera grein fyrir hæfni umsækjendanna tveggja og leggja það fyrir lesendur blaðsins að meta svo málsatvik.
Það sem mestu máli skiptir er menntun umsækjenda, starfsreynsla og hvernig þeir hafa staðið sig í fyrri störfum. Gagnrýnendur verða að gera grein fyrir þessum atriðum og skýra hvers vegna þeir telja Skúla hæfari. Það hafa þeir ekki gert. Þvert á móti hafa þeir forðast þennan kjarna málsins.
Báðir hafa nefnt tvennt sem rök fyrir því að niðurstaða heilbrigðisráðherra sé gagnrýniverð.Annað er að Skúli er búsettur á Suðurnesjum sem Sigríður er ekki og hitt er að 4 stjórnarmenn í Heilbrigðisstofnuninni mæltu með Skúla en 1 með Sigríði. Búseta getur ekki ráðið ráðningu í stöður hjá ríkinu, önnur atriði eiga að ráða lögum samkvæmt. Margir Suðurnesjamenn vinna á höfuðborgarsvæðinu og þeim þætti það örugglega gagnrýnivert ef þeir hefðu ekki fengið störfin vegna búsetu sinnar á Suðurnesjum.
Hitt atriðið, niðurstaða stjórnar, er innlegg í málið. Hversu gott innlegg það er ræðst af rökstuðningi stjórnarmanna. Ekki hefur verið gerð grein fyrir rökum þeirra, aðeins hefur komið fram hvern þeir vilja í starfið en ekki hvers vegna. Það er hlutverk ráðherra að kynna sér niðurstöðu stjórnar og rökstuðning. Gagnrýnendurnir, Jórunn Tómasdóttir og Jóhann Geirdal, veita engar upplýsingar um rök stjórnarmanna og kalla ekki eftir þeim. Hvers vegna ? Hvorugt þeirra veitir upplýsingar um rök sín fyrir því að þau telja að Skúli eigi að fá starfið. Hvers vegna ?
Miklir annmarkar eru á málflutningi þeirra beggja, Jórunnar og Jóhanns. Jórunn getur ekki lagt óvilhallt mat á umsækjendurna vegna tengsla sinna við Skúla , lítilsvirðir Sigríði og nefnir hana "ráðherragæðing" sem er "settur í embættið á þeim forsendum helstum að pissa sitjandi". Sakar heilbrigðisráðherra um siðblindu og ræðst á framsóknarmenn almennt með stóryrðum.
Jóhann Geirdal er í svipuðum gæðaflokki, hann er m.a. með dylgjur í garð fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra og ýjar að því að ráðning framkvæmdastjórans sé í þeim tilgangi að auðvelda niðurskurð á þjónustu sem Heilbrigðisstofnunin veitir. Engin rökstuðningur fylgir þessum dylgjum en hann telur það augljóslega vænlegt að ætla pólitískum andstæðingum sínum illar hvatir gagnvart Suðurnesjamönnum.
Niðurstaðan er skýr: báðir gagnrýnendurinar forðast aðalatriði málsins. Það getur ekki gengið. Þau Jórunn og Jóhann verða að leggja spilin á borðin.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir