Pólitískur ofstopi

Greinar
Share

Pólitískur ofstopi

Ráðning á framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er tilefni greinar frá Jórunni Tómasdóttur sem birtist í Mbl. í gær. Hún er ósátt við ákvörðun ráðherra og ræðst á hann og framsóknarmenn almennt með stóryrðum og fúkyrðum. Sakar hún heilbrigðisráðherra um siðblindu og framsóknarmenn um siðleysi, svindl og svínarí.
Jórunn hefði betur hugsað sig tvisvar um áður en hún skrifaði þessa dæmalausu grein, þótt sambýlismáður hennar hafi ekki fengið stöðu sem hann sótti um er ekki þar með sagt að hún geti leyft sér að ráðast á framsóknarmenn eins og Finn Ingólfsson sem hvergi koma að málinu. Slíkt er pólitískur ofstopi og er ekki greinarhöfundi til framdráttar í máli sínu.
Málið er einfalt : sérstök nefnd hefur metið hæfni umsækjenda og skilaði af sér því áliti að allir væru hæfir, en tveir hæfastir. Stjórn heilbrigðisstofnunarinnar valdi milli þeirra hæfustu og fékk annar 4 atkvæði en hinn 1. Stjórnin hefur ekki rökstutt sína niðurstöðu. Skv. lögum um heilbrigðisþjónustu veitir heilbrigðisráðherra stöðuna og ber að leggja sjálfstætt mat á umsækjendur sbr. álit Umboðsmanns Alþingis í öðru máli. Hér ber hver ábyrgð á sinni ákvörðun. Eðlilegt er að kalla eftir rökstuðningi stjórnarmanna fyrir sínu vali og sama á við um hina aðilana í málinu. Það er forsenda málefnalegrar umfjöllunar.
Jórunn gerir afar lítið úr Sigríði Snæbjörnsdóttur og kallar hana gæðing ráðherra og fullyrðir að stöðunni hafi verið ráðstafað fyrirfram. Um hana er vitað að hún var um tíma varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík og því fráleitt að gera að því skóna að Sigríður sé "pólitískur gæðingur Framsóknarflokksins". Þá var hún hjúkrunarforstjóri um margra ára skeið á Borgarspítalanum og hefur auk þess masterspróf í hjúkrun.
Í grein sinni gerir Jórunn Tómasdóttir enga tilraun til þess að útskýra hvers vegna hún telur að Skúli Thoroddsen eigi að fá stöðuna, aðra en þá að hann sé heimamaður. Það eru ekki gild sjónarmið þegar ríkið á í hlut. Þannig eiga "heimamenn" í Reykjavík engan forgang til starfa á vegum ríkisins þótt starfið sé í Reykjavík og "heimamenn" á Sauðárkróki eiga engan forgang til starfs forstjóra Byggðastofnunar, sem nýlega var auglýst. Búseta er einfaldlega ekki lögum samkvæmt atriði sem ræður um hæfni manna.
Ráðning í stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er mál sem ég kem ekki að og hef takmarkaðar upplýsingar um.Það er hlutverk annarra að leysa úr því. Ákvörðun, hver sem hún er , er að sjálfsögðu ekki hafin yfir gagnrýni. En ég ætlast til þess að gagnrýni sé byggð á staðreyndum og rökum en grein Jórunnar uppfyllir hvorugt. Hún er ómálefnaleg, hún lítilsvirðir þann sem fékk starfið og hún er ómerkilegur fúkyrðaflaumur um framsóknarmenn. Það læt ég mig varða og sit ekki undir.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir