Ályktun um sjávarútveg á flokksþingi framsóknarmanna sætir nokkrum tíðindum, nýjar áherslur voru lagðar og eftirtektarvert er að samstaða náðist um öll helstu atriði ályktunarinnar.
Uppúr stendur að flokksþingið tekur undir þau sjónarmið auðlindanefndar að í stjórnarskrá verði sett að fiskistofnarnir séu sameiginleg auðlind allrar þjóðarinnar og eign hennar svo og að greiða beri gjald fyrir afnot af auðlindinni.
Hér er um algert grundvallaratriði að ræða sem löggjöf um nýtingu fiskistofnanna verður að byggjast á. Útvegsmenn verða leigjendur en ekki eigendur að útgefnum kvótum.
Þá ályktaði flokksþingið að markmið nýrrar löggjafar um stjórn fiskveiða eigi meðal annars að tryggja :
* atvinnugrundvöll sjávarbyggða, m.a. með því að auka byggðakvóta
* uppbyggingu fiskistofna og sjálfbæra nýtingu þeirra
* jafnræði aðila í greininni og koma þannig í veg fyrir að stétt leiguliða myndist í henni
* áfram verði byggt á tvískiptu kerfi, aflamarkskerfi annars vegar og hins vegar á smábátakerfi sem verði blandað aflamarkskerfi og sóknarmarkskerfi.
Þessi markmið ásamt stjórnarskrárákvæðinu mynda ramma um stefnu flokksins. Augljóst er að breyta þarf gildandi lögum því atvinnugrundvöllur sjávarbyggða er fjarri því að verða tryggður, þótt í þeim efnum sé ástandið breytilegt um landið og jafnræði ríkir ekki í greininni meðan útgerðarmenn afla sér veiðiheimildanna með mjög mismunandi hætti, allt frá því að fá úthlutun frá ríkinu gegn lágu gjaldi yfir í að leigja allar heimildir á markaði fyrir allt að 120 kr/kg af þorski. Auk þessa ójafnræðis í úthlutun þá er mikill aðstöðumunur fólginn í því að einn útgerðarmaður geti haft tekjur af öðrum með framleigu aflaheimilda.
Þessi staða í greininni stuðlar sérstaklega að samþjöppun, sem síðustu ár hefur verið firna hröð, og torveldar nýliðun þar sem kostnaðurinn við að afla sér veiðiheimilda er hærri en tekjur standa undir. Enda ólíku saman að jafna að þurfa að kaupa allar veiðiheimildir á markaðsverði eins og nýliðinn þarf eða að hafa fyrir veiðiheimildir sem ekki þarf að greiða fyrir og kaupa til viðbótar þeim. Kerfi sem hamlar nýliðun kemur verst við sjávarbyggðirnar, þar eru helst ungu mennirnir sem vilja hasla sér völl í útgerð og geta tryggt að maður kemur í manns stað. Þá kemur síður að sök þó einn hætti og útgerð hans leggist af því annar tekur við. Í dag er kerfið eins og við þekkjum að ef einn útgerðarmaður selur sínar veiðiheimildir burt úr plássinu og hættir þá er atvinna margra í uppnámi og þeir sem hefja útgerð neyðast til þess að vera leiguliðar annarra útgerðarmanna og eiga vart möguleika á að koma sínu fyrirtæki á legg. Þes vegna er alger nauðsyn að breyta núverandi kerfi. Framtíð sjávarbyggðanna hvílir á því.
Hvaða leið er best að fara til þess að ná ofangreindum markmiðum er ekki slegið föstu, tvær leiðir voru lagðar til fyrningarleið og veiðigjaldsleið og ákvað flokksþingið að skoða þær næstu mánuði ásamt öðrum hugmyndum sem fram kunna að koma og leggja niðurstöður sínar fyrir haustfund miðstjórnar 2001.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir