DAGUR Í LÍFI

Greinar
Share

Mánudagurinn 7. desember hófst á hefðbundinn hátt. Á þessum árstíma eru fundir tíðir í nefndum Alþingis og alveg sérstaklega í fjárlaganefndinni og þar átti að hefjast fundur klukkan hálfníu. Á fætur uppúr hálfáttaog borðaði hafragrautinn sem eiginkonan eldar af snilld. Þótt mér finnist ég vakna alveg nógu snemma þá eru börnin yfirleitt farin í skólann þegar komið er að hafragrautnum og því að fletta blöðunum. Það er gjarnan svo að lítill tími gefst til þess að lesa blöðin nema á morgnana.
Þessi dagur var hins vegar sérstakur þar sem ég hafði ákveðið að ganga til liðs við þingflokk framsóknarmanna og það er ekki á hverjum degi sem maður gengur í stjórnmálaflokk. Eini flokkurinn sem ég hafði áður verið í var Alþýðubandalagið, en ég gekk í hann fyrir rúmum 19 árum. Fyrir tæpum tveimur mánuðum sagði ég mig úr þeim flokki, þar sem þá lá fyrir að flokkurinn ætlaði ekki að bjóða fram sína stefnuskrá í næstu kosningum heldur aðra sem samin var í samráði við aðra flokka og mér leist ekkert hana. Frekar en að vera í ágreiningi innan Alþýðubandalagsins í aðdraganda kosninga ákvað ég að fara og leyfa þeim sem trúa á hinn nýja sið að vinna sitt verk ótruflaðir af mér og óskaði þeim velfarnaðar í störfum sínum. Niðurstaða mín eftir margra vikna vangaveltur varð að Framsóknarflokkurinn stæði næst sjónarmiðum mínum eftir að Alþýðubandalagið hætti að vera það sem það hefur lengst af staðið fyrir og líklegra væri að ná árangri þar heldur en að stofna nýjan flokk eða efna til sérframboðs.
Á fundinum í fjárlaganefndinni var ég satt að segja dálítið annars hugar og það var margt sem flaug gegnum hugann. Eitt er að það eru hvorki fleiri né færri en sextán þingmenn sem starfa nú í öðrum þingflokki en þeim sem þeir voru kosnir til í upphafi kjörtímabilsins og sex þeirra hafa skipt um stjórnmálaflokk. Tveir þingflokkar hafa verið lagðir niður og einn nýr stofnaður. Merkilegustu tíðindin eru að þingflokkur Alþýðuflokksins sem starfað hafði í hartnær áttatíu ár er ekki lengur til og eftir næstu Alþingiskosningar heyrir þingflokkur Alþýðubandalagsins sögunni til einnig.Það eru greinilega miklir umbrotatímar í pólitíkinni um þessar mundir.
Þegar leið að hádegi var stundin runnin upp. Þingflokkur Framsóknarmanna samþykkti inngöngu mína og tóku vel á móti mér þegar ég gekk þar inn í fyrsta sinn. Fyrsta verkið var að taka þátt í blaðamannafundi sem haldinn var af því tilefni. Gunnlaugur Sigmundsson, sem einnig er þingmaður á Vestfjörðum , fagnaði liðsaukanum og færði mér að gjöf lykil að skrifstofu flokksins á Ísafirði sem var auðvitað á xB lyklakippu. Ekki hafði honum unnist tími til þess að láta smíða lykilinn svo hann lét mig hafa annan á blaðamannafundinum. Eftirá laumaði ég lyklinum til hans aftur en ég er enn að velta því fyrir mér að hvaða hurð þessi lykill gekk.
Eftir blaðamannafundinn tók við fyrsti þingflokksfundur minn í nýja flokknum. Það eru nokkur viðbrigði að mæta aftur á slíka fundi eftir að hafa verið utan flokka mest allt haustið. Síðan tóku við fundirnir hver á fætur öðrum, þingfundur þar sem greidd voru atkvæði um fjáraukalög og umræða hófst um gagnagrunnsfrumvarpið, og fundir í fjárlaganefnd fram á kvöld. Þar var orðinn breyting, ég var kominn stjórnarliðið en hafði verið stjórnarandstöðumegin á morgunfundinum. Í stjórnarandstöðunni starfar mikið sómafólk sem ég hef átt mjög gott samstarf við, þau Sigríður Jóhannesdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Gísli S. Einarsson og ég veit að á því verður engin breyting.
Seint um kvöldið kom ég heim og varð að sleppa þennan daginn að fara í heilsubótargönguna en ætla að bæta úr því á morgun.

Athugasemdir