Endurskoðun á ábyrgð annarra

Greinar
Share

Við afgreiðslu ársreiknings Byggðastofnunar fyrir 1997 vakti ég athygli á afstöðu löggilts endurskoðanda stofnunarinnar.
Ríkisendurskoðun ber að endurskoða stofnunina en hefur fengið til verksins fyrir sína hönd endurskoðunarskrifstofu í borginni.
Fyrir endurskoðunina þurfti að greiða tæplega 3 milljónir króna enda þessi starfsstétt ein sú allra dýrasta á landinu.

Í áritun endurskoðandans er fyrst tekið fram að ársreikningurinn sé lagður fram af stjórnendum stofnunarinnar og á ábyrgð þeirra í
samræmi við lög og reglur. Það er sérkennilegt þegar verktaki er að skila af sér að þá skuli fyrst tiltekið að aðrir beri ábyrgð á
verkinu. Að því loknu tekur endurskoðandinn fram að ábyrgð hans felist í því áliti sem hann láti í ljós á ársreikningnun á grundvelli
endurskoðunarinnar. Þegar að endurskoðandanum kemur er ábyrgðin afmörkuð og takmörkuð.

Tilgangur bókhalds

Hlutverk stjórnenda stofnunar eða fyrirtækis er að stjórna, að taka nauðsynlegar ákvarðanir sem starfsmönnum er síðan falið að
hrinda í framkvæmd. Um starfsemina er haldið bókhald og ráðnir starfsmenn til þess að annast það. Þar sem nauðsynlegt er talið,
meðal annars vegna skattheimtu ríkisins, að treysta megi bókhaldinu er kveðið á um það í lögum að endurskoða skuli bókhaldið
og sérstakri starfsstétt manna, löggiltum endurskoðendum, falið að gera það. Ríkið ver hluta af skattfé almennings til þess að kosta
rekstur sérstakrar deildar við Háskóla Íslands sem menntar fólk til þessara starfa og veitir þeim sem þaðan ljúka prófi sérstök
atvinnuréttindi og ákveður þar með að aðrir geti ekki starfað að endurskoðun. Réttindum eiga að fylgja skyldur sem sá verður að
axla sem réttindin hefur.

Hlutverk stjórnar

Í þessu sem öðru hlýtur að gilda að hver maður ber ábyrgð á sjálfum sér og verkum sínum. Stjórnin ber ábyrgð á ákvörðunum
sínum, starfsmenn við bókhald bera ábyrgð á verkum sínum og löggiltir endurskoðendur bera ábyrgð á endurskoðuninni og þar
með því að ársreikningur sé réttur. Stjórnendum stofnunar ber að láta færa bókhald og að gera ársreikning, þeirra ábyrgð felst í
því að láta vinna verkin, en ábyrgð geta þeir ekki borið á verkunum sjálfum, það verða þeir að bera sem verkin vinna.
Stjórnarmenn Byggðastofnunar eru ekki í því að færa bókhald eða setja upp ársreikning og vita mest lítið um þau mál, þeir eru því
ekki í neinum færum til þess að gefa út yfirlýsingar um að bókhald sé rétt eða að ársreikningur sé samkvæmt lögum.

Ábyrgðarfirring

Ég hef kosið að vekja athygli á þessu vegna þess að mér finnst sem ábyrgðarfirring löggiltra endurskoðenda gangi of langt. Fyrir
nokkrum árum átti ég sæti í annarri ríkisstofnun. Eitt sinn þegar sú stjórn var að afgreiða ársreikning sinn vildi endurskoðandinn
ekki árita reikninginn fyrr en stjórnin hefði undirritað hann og þá var undirritun hans byggð á því að stjórnin hefði áður samþykkt
reikninginn með undirritun sinni. Með öðrum orðum; ábyrgðin af undirritun endurskoðandans var velt yfir á stjórnina.

Ég var á gagnstæðri skoðun, fyrst skyldi endurskoðandinn árita og síðan á grundvelli þess staðfesti stjórnin ársreikninginn.
Endurskoðandinn hafði kannað bókhaldið og unnið að endurskoðuninni að öðru leyti, ég ekki. Hvers vegna á hann að undirrita í
skjóli mínu ? Getur verið að yfirgengileg eyðsla bankastjóranna þriggja í Landsbankanum árum saman hafi viðgengist vegna þess
að endurskoðandinn firrti sig ábyrgð? Það skyldi þó ekki vera meinið.

Athugasemdir