Þingsjána fyrr á morgnana

Greinar
Share

HERRA forseti.

Þar sem svo háttar til í dag að uppstytta er í þinghaldinu, Davíð er að lesa upp á Gula hananum og Þorsteinn er heima að leita að skýrslum, þá vil ég
leyfa mér að kveðja mér hljóðs utan þingfundar og vekja athygli forseta og þjóðarinnar á því snilldarbragði forráðamanna Ríkisútvarpsins að setja
Þingsjána á dagskrá nú í vetur árla laugardagsmorguns. Hefur þetta skilað þeim árangri að svokallað áhorf mælist eftir mínum heimildum að dæma
1-2% og er heldur sígandi. Ég lýsi aðdáun minni á þeirri skynsemi að hafa barnaefnið á undan Þingsjánni en ekki öfugt. Þegar maður hugsar um það
þá liggur þessi röð í augum uppi. Auðvitað vakna börnin fyrst og svo þeir sem búa til börnin.

En eitt veldur mér samt áhyggjum. Það eru eftir sem áður heldur margir sem horfa á Þingsjána. Þú veist að þegar góðu efni er deilt á of marga staði þá
vill það lenda í útideyfu eins og Sverrir sagði og það má ekki gerast. Þingmenn hafa margt spaklegt til mála að leggja og svo verður um hnúta að binda
að þeir haldi reisn sinni og virðingu. Svona efni getur aldrei verið fyrir fjöldann. Ég tek þó fram og bendi á að forráðamenn Sjónvarpsins hafa að mínu
mati staðið sig afbragðsvel gegnum árin og hefur tekist að draga úr glápinu á Þingsjána verulega á örfáum árum. Mér telst til að um 25% landsmanna
hafi horft á þáttinn þegar hann var á dagskrá að kvöldi dags. Það getur hver maður séð að var alveg svakalegt og mátti ekki við svo búið standa.

En betur má ef duga skal eða á skal að fjalli stemma eins og hafnfirska máltækið segir. Ég verð að skjóta því hér inn að mér finnst þessi máltæki dáldið
skrýtin sem Guðmundur Árni hefur verið að kenna mér, en hvað um það. Tillaga mín er sú að færa Þingsjána fram fyrir barnaefnið á
laugardagsmorgnana. Með því vinnst að úr áhorfendahópnum falla þeir sem ég hef sterklega grunaða um að hafa bara vaknað til þess að horfa á
barnaefnið. Eftir standa bestu mennirnir, hinir árrisulu og verkdrjúgu synir þjóðarinnar, sem taka Skalla-Grím sér til fyrirmyndar, en hann kvað forðum:

Mjök verðr ár, sás aura

ísarns meiðr at rísa

váðir vidda bróður

veðrseygja skal kveðja

Ég vil svo að lokum þakka fyrir þennan frábæra skjáskafmiðaleik sem Sjónvarpið hefur tekið upp í stað þess að sýna frá þingfundum. Fleira var það
ekki, herra forseti.

KRISTINN H. GUNNARSSON,

Athugasemdir