Ég heiti Helgi – ég er ljón

Greinar
Share

Starf stjórnmálamannsins er vanþakklátt, alveg sérstaklega starf ráðherrans, sem stritar dag hvern frá morgni til kvölds til þess að
bæta almannahag. Aldrei er vikið að honum hlýlegu orði, aldrei er metið að verðleikum fórnfúst hugsjónastarf ráðherrans.
Stjórnarandstaðan rífst og skammast og finnur því allt til foráttu svo að ekki sé talað um fréttamannaskammirnar á þessum
óvönduðu fjölmiðlum, þeir geta sem best verið laumukommar, alltaf með einhverjar neikvæðar fréttir um bestu syni þjóðarinnar.

Mest mæðir á forsætisráðherranum, vini okkar allra, yndi okkar, glæsilegum rithöfundi. Ég bara skil ekki hvernig hann getur staðið
af sér allar þessar árásir frá þessum andskotum kommum og Sighvati sem aldrei geta skammast sín.

En hingað er hann nú kominn til okkar í beina útsendingu, Davíð Oddsson forsætisráðherra. – Vertu velkominn, Davíð minn, og
afsakaðu þessa frétt áðan. Við verðum að sýna smávegis frá stjórnarandstöðunni, þú veist, annars verða þeir allir vitlausir, Svavar,
Steingrímur og Sighvatur.

En heyrðu, vinur minn, hvað heldurðu að valdi þessari hörku í stjórnarandstöðunni núna? Ég veit að ég ætti að spyrja þá sjálfa að
þessu en mér finnst betra að þú svarir þessu. Þú áttar þig ekki á því? Nei, ekki ég heldur, það sjá allir að það er enginn
samningsflötur og stjórnarandstaðan er að fresta því að menn geti farið að sækja fisk í sjó, auðvitað.

Og þið ráðherrarnir gerið þetta auðvitað nauðugir viljugir að setja lög á verkfall sjómanna? Já, já, við vitum það, en eitthvert
vegarnesti frá þér og ríkisstjórninni í þessu efni til nefndarinnar sem þið ætlið að skipa? Já, og þú vísar því á bug fullyrðingum
sjómanna um að ríkisstjórnin sé hlutdræg? Auðvitað, þetta líkar mér og ásakanir um að þið gangið erinda útvegsmanna eru út í
hött, er það ekki? Þetta vissi ég, þið eruð góðir drengir í ríkisstjórninni.

Jæja, Davíð minn, þetta er nú orðið gott, ég þakka þér fyrir komuna og bið að heilsa strákunum. Ég heiti Helgi og er ljónið á
Sjónvarpinu. Hjá mér komast viðmælendur ekki upp með neitt múður.

Athugasemdir