Umboðslausir þingmenn

Greinar
Share

I.
Á dögunum var felld tillaga um að bera undir þjóðina hvort Ísland ætti að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Það voru þingmenn stjórnarflokkanna að undanskildum þremur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem greiddu atkvæði gegn þjóðaratkvæðagreiðslu. Fróðlegt er að fara yfir röksemdir þeirra gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nokkur rök voru tínd til en veigamest voru þó þessi: Í almennum kosningum velja kjósendur þingmenn sem fá umboð. Allir meginþætti EES-málsins lágur fyrir við þingkosningar í fyrra og kjósendur gátu gert sér grein fyrir afstöðu einstakra þingmanna og flokka. Málið bar hátt í kosningabaráttunni. Þingmenn fengu því umboð í kosningunum til að ljúka málinu.

II.
Þetta eru athyglisverð sjónarmið og fela í sér tvennt: Í fyrsta lagi er viðurkennt að þingmenn þurfi umboð frá kjósendum í málinu og í öðru lagi að það umboð sem þeir fá afmarkast af þeirri afstöðu sem þingmenn og flokkar gefa upp fyrr kosningarnar. Gjörðir þeirra verða því að rúmast innan afstöðunnar sem upp var gefin, að öðrum kosti þrýtur umboðið. Þá eiga þingmenn einungis um þrjá kosti að velja: – Fella málið. – Rjúfa þing og sækja nýtt umboð á grundvelli breyttrar afstöðu. – Vísa málinu til kjósenda til úrskurðar með þjóðaratkvæðagreiðslu.

III.
Í þessari blaðagrein er borin von að gera úttekt á afstöðu einstakra þingmanna til EES-málsins fyrr síðustu Alþingiskosningar, en það er fróðlegt að skoða afstöðu núverandi stjórnarflokka til EES-málsins eins og hún birtist í kosningastefnuskrám flokkanna og athuga hvort EES-samingurinn eins og hann liggur fyrir nú uppfylli yfirlýsingar flokkanna. Ef svo er má fallast á að þeir hafi fengið umboð til að ljúka málinu eins og þeir halda fram sjálfir. Hins vegar ef samningurinn er lakari en yfirlýsingarnar og uppfyllir þær ekki að einhverju leyti hafa þingmenn stjórnarflokkanna ekki umboð til að ljúka málinu. Um þetta er ekki ágreiningur samkvæmt röksemdum stjórnarliða sjálfra, svo málið snýst þá um hvort samningurinn uppfylli kröfur flokkanna, eins og þær voru kynntar fyrir síðustu Alþingiskosningar. Þær yfirlýsingar bera með sér að samningur lá þá ekki fyrir um EES því var afstöððu til Evrópsks efnahagssvæðis með tilteknum skilyrðum sem væntanlegur samningur yrði að uppfylla.

IV.
Lítum fyrst á yfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins. Þær eru samþykktar á landsfundi flokksins í mars 1991, rúmum mánuði fyrir kosningar. Í ályktun um sjávarútvegsmál segir m.a.:
„Fiskistofnarnir á Íslandsmiðum eru enn sem fyrr okkar dýrmætasta sameign og á sjávarútvegi byggjast lífskjör þjóðarinnar. Yfirráðum okkar Íslendinga yfir fiskistofnunum og afrakstri þeirra má ekki stefna í hættu og samskiptin við Evrópubandalagið verði þannig háttað að forræði fyrir fiskimiðunum og nýting þeirra haldist hjá Íslendingum einum.“

Þetta er skýrt, bæði forræði og nýting fiskimiðanna verða að vera hjá Íslendingum einum. Hins vegar hefur verið samið um að EB-ríkin fái að veiða 3.000 tonn af karfa árlega (eða ígildi þess) í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þar með er nýting fiskimiðanna ekki hjá Íslendingum einum eins og skilyrt er í landsfundarsamþykktinni. Reyndar má einnig deila um það hvort forræðið er að öllu leyti í höndum Íslendinga, t.d. má benda á frétt í Morgunblaðinu 17. nóvember sl. þar sem fram kemur að ekki er samkomulag um rétt Íslendinga til eftirlits með löndunum í höfnum innan EB úr þeim skipum sem koma af Íslandsmiðum. Þar hafa EB-ríkin hafnað öllum hugmyndum Íslendinga um slíkt eftirlit skv. fréttinni. Það er augljóst að EES-samningurinn uppfyllir ekki þessa ályktun Sjálfstæðisflokksins og hér er ekki um smámál að ræða skv. ályktuninni, fiskistofnarnir eru okkar dýrmætasta auðlind og lífskjör okkar byggjast á nýtingu þeirra. Hér skortir þingmenn Sjálfstæðisflokksins umboð samkvæmt eigin málflutningi. Í ályktun um utanríkismál er áréttað að samningar hafi ekki tekist um EES og að ekki sé enn ljóst hvort viðræðum ljúki með samkomulagi eða hvenær. Síðar segir: „Sjálfstæðismenn telja að Íslendingar eigi samleið með öðrum EFTA-ríkjum um þátttöku í evrópsku efnahagssvæði, að því tilskildu að samningar takist um hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir.“ Enn er skýrt að orði kveðið um skilyrði fyrir stuðningi, og EES-samningurinn er einnig skýr, samningar tókust ekki um hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir. tollar voru ekki afnumdir sem meginregla heldur samið um lækkun þeirra. Tollfrelsi er ekki í viðskiptum með sjávarafurðir. Þá er ekki hróflað við ríkisstyrkjum EB til sjávarútvegs í ríkjum bandalagsins, sem nema milljarðatugum órafjarri yfirlýsingum flokksins til kjósenda fyrir síðustu Alþingiskosningar. Niðurstaðan: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki umboð til að fullgilda slíkan samning.

V.
Kosningastefnuskrá Alþýðuflokksins er fátæklegri um málið, enda formaður flokksins búinn að fjárfesta pólitíska framtíð sína meira og minna í því að samningar tækjust. Þó segir í ályktun um sjávarútvegsmál: „Tollar á unnum fiski og styrkir til sjávarútvegs í Evrópubandalaginu torvelda innlendri fiskvinnslu að keppa um fiskinn sem aflast á Íslandsmiðum. Við þessu þarf að bregðast með því að knýja fram aukna fríverslun með fiskafurðir í samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins.“ Til þess að unnt sé að tala um fríverslun þarf bæði að afnema tolla og ríkisstyrki. Hvorugt hefur tekist. Það er því afar hæpið að þingmenn Alþýðuflokksins geti haldið því fram að þeir hafi fengið umboð til þess að ljúka EES-málinu á grundvelli fyrirliggjandi samningsuppkasta.

VI.
Auk yfirlýsinga flokkanna fyrir kosningar þarf að athuga yfirlýsingar í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar sem þessir flokkar mynduðu eftir kosningar. Þær yfirlýsinar afmarka umboð þingflokkanna gagnvart eigin flokkum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá 3. apríl 1991 segir að markmiðið sé að „tryggja hindrunarlausan aðgang sjávarafurða að Evrópumörkuðum“ og í starfsáætluninni Velferð á varanlegum grunni segir á bls. 31: „Stefnt er að því að ljúka samningunum um Evrópuskt efnahagssvæði. Mikilvægi þeirra fyrir íslenskan sjávarútveg felst í óhindruðum markaðsaðgangi með afnámi erlendra tollmúra.“
Ennfremur segir í starfsáætluninni á bls. 38: „Ríkisstjórnin lítur á það sem meginmarkmið sitt varðandi stefnuna í utanríkisviðskiptum og markaðsmálum að tryggja íslenskum sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum jafna samkeppnisaðstöðu á við erlenda keppinauta. Lækkun og afnám tolla er ekki nóg. Einnig verður að sporna við þeim skekkjuáhrifum, sem ríkisstyrkir geta haft á eðlileg viðskipti.“

VII.
Þessar yfirlýsingar eru að miklu leyti í samræmi við yfirlýsingar landsfundar Sjálfstæðisflokksins og benda til þess að þingmenn hans hafi talið sig bundna af þeim, þ.e. umboð þeirra afmarkist af skilyrðum landsfundarins. Það er hins vegar alveg ljóst að EES-samkomulagið uppfyllir ekki markmið ríkisstjórnarinnar og ekki heldur skilyrði flokkanna sem þeir settu fyrir kosningar. Þingmenn stjórnarflokkanna eru því algerlega án umboðs til að ljúka EES-málinu. Það er rökrétt niðurstaða sem fæst með því að beita þeirra eigin rökum. Að taka sér umboð til annarrar afstöðu en umboðið byggir á heitir á mæltu máli að svíkja kjósendur. Það virðist ætla að verða hlutskipti þingmanna stjórnarflokkanna í mál sem er samkvæmt þeirra eigin mati stærsta málið sem upp hefur komið frá stofnun lýðveldisins.

Höfundur er alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið á Vestfjörðum.

Morgunblaðið 2. desember 1992.

Athugasemdir