Íbúðarhúsnæði – mannréttindi í stað markaðshyggju.

Greinar
Share

Á síðustu þremur árum hefur verið tekin upp ný stefna í húsnæðismálum. Stefna sem grundvallast á allt annarri hugsun en áður var. Almenna reglan er þessi: Stjórnvöld haf milligöngu um að útvega lánsfé til kaupa á húsnæði, en menn borga það verð fyrir sem markaðurinn krefst. Með öðrum orðum þetta er eins og hver önnur verslun og viðskipti þar sem varan heitir peningar og verið heitir vextir. Verðið er breytilegt frá einum tíma til annars, allt eftir aðstæðum á svokölluðum fjármagnsmarkaði. Það eru hagsmunir fjármagnsins sem ráða, enda varðar fjármagnsmarkað ekki um hagsmuni fólksins.

Svo augljósir eru þessir ókostir að hafa verður tvö kerfi í gangi til hliðar, til þess að markaðskerfið valdi ekki þjóðfélagslegri upplausn á skömmum tíma. Annað er félagslega íbúðakerfið og hitt er endurgreiðslukerfi vaxta. Fyrrgreinda kerfið var reyndar til áður sem hliðarstoð við almennt lánakerfi. Það almenna lánakerfi var hins vegar allt öðru vísi og byggt á gerólíkri hugsun en núverandi almenna lánakerfi. Félagslega íbúðalánakerfið sem gekk ágætlega með því almenna lánakerfi hefur hins vegar enga burði til þess að mæta því gífurlega álagi sem fylgir markaðskerfinu.

Hitt kerfið, endurgreiðslukerfi vaxta, átti sér líka til forvera sem varða að umbylta og stórefla, þ.e. greiða mun hærri fjárhæðir gegnum það kerfi frá ríki til skuldara. Hið nýja almenna lánakerfi sem ég kalla markaðskerfi er dýrara fyrri lántakandann, menn greiða hærri vexti og lánstími er styttri en áður var. Það eru því færri sem geta leyst sín húsnæðismál gegnum markaðskerfi og af því leiðir að fleiri þurfa úrlausn í félagslega kerfinu. Annar fylgifiskur markaðskerfisins er að magna þann vanda sem er og verið hefur á landsbyggðinni víða, lágt endursöluverð íbúðahúsnæðis og treg sala þess. Þriðja atriðið má nefna að markaðskerfið tekur á engan hátt tillit til félagslegra aðstæðna svo sem barnafjölda.

Öll þessi atriði og ef til vill fleiri leiða til þess að álagið á félagslega íbúðalánakerfið hefur vaxið gífurlega. Það er miklu stærri hópur þjóðfélagsþegna sem verður að sækja á félagslega íbúðalánakerfið eftir úrlausn á húsnæðisvanda sínum. Á landsbyggðinni er ástandið þannig að nær ekkert er byggt af íbúðarhúsnæði nema í félagslega kerfinu og kaup og sala íbúðarhúsnæðis er afar treg og verðið lágt, þótt það sé breytilegt að nokkru leyti eftir byggðarlögum. Það endurspeglar þá staðreynd að í hugum fjölmargra á landsbyggðinni er fjárfesting í íbúðarhúsnæði áhættufjármagn. Hvernig á annað að vera miðað við ýmsar ákvarðanir stjórnvalda, t.d. kvótakerfið í sjávarútvegi, sem færir ákveðnum aðilum eignarhald á fiskistofnum landsmanna. Áhættan er augljós, viðkomandi byggðarlag getur einn dag staðið uppi án fiskveiðiheimilda sem seldar hafa verið eitthvað annað og hvert er markaðsverð fasteigna þá?

Það er því mín niðurstaða að félagslega lánakerfið stenst ekki það álag em ofangreind atriði leiða af sér. Það eru einfaldlega of margir sem á því þurfa að halda og munurinn milli þeirra og hinna sem fara gegnum markaðskerfið verður svo mikill í kjörum lána að of mörg dæmi verða um fólk með álíka kjör en í sitt hvoru lánakerfinu og þar af leiðandi með gífurlega mismunandi fjárhagslega aðstöðu. Óánægjan verður mikil með þennan mun og því verður mætt með því að hækka vexti og ef til vill síðar að stytta lánstímann í félagslega kerfinu. Hitt hliðarkerfið sem ég nefndi, endurgreiðslukerfi vaxta, var sett upp til þess að geta endurgreitt sumum hin auknu útgjöld, sem leddu af markaðskerfinu og það var gert eftir efnum og ástæðum. Það er út af fyrir sig ágætt og í því ákveðið réttlæti. Hins vegar hefur það gerst sem ég óttaðist og reyndar margir fleiri að endurgreiðslurnar rýrna ár frá ári. Á fjárlögum hvers árs er ákveðið hve mikið skuli endurgreitt og hvernig. Það er: útgjöld skuldara voru aukin með markaðskerfinu og því verður ekki breytt en tekjurnar sem eiga að skila sér inn á móti eru ákvarðaðar frá ári til árs. það þarf ekki annað en skoða fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár til þess að sannfærast um að þetta gengur ekki. Húsnæðisstefna sem byggð er á markaðskerfi endar einungi á einn veg, allir borgar meira á skemmri tíma en áður.

Ég er þeirrar skoðunar að þak yfir höfuðið sé frumþörf sem er mannréttindi að menn geti uppfyllt og að litið verði á kostnað vegna húsnæðis sem einn þátt í kaupum og kjörum fólks en ekki sem viðfangsefni gróðapunga markaðarins. Ég tel líka betra að allir greiði eitthvað lægri vexti en nú er og að betra sé að jafna kjör fólks fremur með beinni skattlagningu á tekjuhærri hópinn en með endurgreiðslu á tekjulægri hópinn sem síðan er sífellt skert eins og nú er.

Að lokum minni ég á að það eru alveg bærilegir vextir fyrir fjármagnseigendur að fá 4-5% ársvexti á sitt fé og raunar er vandfundinn sá atvinnurekstur sem getur borgað slíka raunvexti. Það væri svo sem ekki verið að gefa neinum neitt þótt vextir væru ekki hærri. Það eru nefnilega of háir vextir í þjóðfélaginu sem eru vandamálið ekki of lágir vextir. Ráðið hlýtur því að vera að lækka vextina.

Höfundur er alþingismaður.

Þjóðviljinn 12. nóvember 1991

Athugasemdir