Af hægri og vinsti stefnu.

Greinar
Share

Mörg undanfarin ár, allt frá 1983 hefur Vestfirðingum þótt á sig hallað af stjórnvöldum. Stjórnmálaumræðan hefur líka borið sterkan keim af því. Það hefur komið kvótakerfi í sjávarútvegi, sjávarútvegurinn bæði vinnsla og veiðar hafa mátt þola erfiða daga og slæma afkomu lengst af þessu tímabili, landbúnaður hefur átt undir högg að sækja vegna offramleiðslu, fólki hefur stöðugt fækkað og verða á íbúðarhúsnæði víða fallið verulega í verði svo eitthvað sé nefnt.

Það merkilega við þetta tímabil erfiðra tíma og svartsýni er að mikið af erfiðleikunum má rekja til stjórnvaldsaðgerða og flokkarnir sem stjórnuðu frá 1983 til 1988 voru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Reyndar voru kratarnir með í rúmt ár af þessum tíma. Við stjórnarskiptin haustið 1988 urðu greinilegar breytingar. Frá þeim tíma hafa Vestfirðingar verið mun sáttari við stjórnvöld og einstakar aðgerðir mælst feykilega vel fyrir. Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir Vestfirðinga að fara vandlega yfir síðustu sjö til átta árin áður en þeir ganga að kjörborðinu og dæma flokkana af verkum sínum en ekki fimmaura bröndurum. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því hvernig flokkarnir hafa stjórnað og hvaða áherslur þeir hafa sýnt í verki í hagsmunamálum landsbyggðar og launafólks. Það verður afdrifaríkt fyrir Vestfirðinga hvernig haldið verður á landsstjórninni næstu fjögur ár. Síðustu tvö kjörtímabil skiptust með mjög skörpum hætti í tvö tímabil. Annars vegar 1983-1988 og hins vegar 1988-1991. Þáttaskilin verða haustið 1988, þegar Alþýðubandalagið kemur inn í landsstjórnina og Sjálfstæðisflokkurinn hrökklast út úr Stjórnarráðinu vegna þess að enginn vildi starfa með honum, nema þá Kvennalistinn. Fyrra tímabilið er dæmigert hægra tímabil. Síðara tímabilið er hins vegar vinstra tímabil. Munurinn er augljós.

Á fyrra tímabilinu var innleitt skömmtunarkefi í fiskveiðum sem færir auðævi þjóðarinnar í hendur fárra útvalinna. Það er hægri stefna. Á fyrra tímabilinu var kauptöxtum láglaunafólks haldið niðri þrátt fyrir góðæri með þeim afleiðingum að launamunur jókst stórlega. Það er hægri stefna. Á fyrra tímabilinu var gengisskráning miðuð við þarfir heildsalanna en ekki sjávarútvegsins. Afleiðingarnar þekkja allir. Það er hægri stefna. Á fyrra tímabilinu var losað um allar hömlur á vaxtagróða. Afleiðingin varð allt að 12% raunvextir. Laun peninganna hækkuðu margfalt á við laun vinnunar. Það er hægri stefna. Á fyrra tímabilinu fóru ríkisútgjöld úr öllum böndum og ekki var hugsað um það að jafnvægi þarf að vera á milli tekna og útgjalda. Það er hægri stefna. Í landbúnaði var gripið til ráðstafana sem ekki tóku tillit til svæða og landkosta. Það er hægri stefna. Fleira mætti tína til af afrekum stjórnvalda á fyrra tímabilinu, en látum þetta duga.

Síðara tímabilið er mun styttra eða 2 ½ ár á móti 5 ½ ári og í raun er því ekki lokið. Miklu frekar að það sé að ljúka fyrri hluta þess tímabils og síðari hluti þess að hefjast. Það er vegna þess að fram til þessa hafa aðgerðir miðast nær einvörðungu við það að færa í lag það sem úr lagi gekk á fyrra tímabilinu. Í þeim aðgerðum hefur samt komið fram áberandi munur frá fyrra tímabili og í nokkrum málum hafa verið teknar ákvarðanir til framtíðar sem sýna þennan mun greinilega. Á þessum stutta tíma hefur tekist að stöðva útgjaldaþenslu ríkissjóðs og minnka hallann um helming. Raunvextir hafa lækkað um allt að þriðjung og nafnvextir mun meira. Umtalsverður hagnaður er af vöruviðskiptum við útlönd og ríkissjóður fjármagnar nú lánsfjárþörf sína eingöngu innanlands. Sjávarútvegurinn býr nú við bestu afkomu í tuttugu ár og í góðri samvinnu við samtök launþega og atvinnurekenda hefur verðbólgan náðst niður í 5%. Náðst hefur efnahagslegur stöðugleiki, þrátt fyrir samdrátt í þjóðarbúskapnum og gífurleg uppsöfnuð vandamál í ríkisfjármálum. Efnahagslegur stöðuleiki er forsenda þess að unnt sé að sækja fram til lífskjarajöfnunar fyrir launafólk. Þetta er vinstri stefna.
Ríkisstjórnin breyttist úr hægri stjórn í vinstri stjórn við það að Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist burt og Alþýðubandalagið kom í staðinn. Efnahagslegur stöðuleiki og góð rekstrarafkoma í sjávarútvegi er það sem nýtist landsbyggðinni best. Þegar sjávarútvegurinn gengur vel eru góð skilyrði fyrir landsbyggðina. Þetta skulu menn hafa í huga. Hægri stjórn þýðir vonda stöðu landsbyggðar, vinstri stjórn þýðir góða stöðu landsbyggðarinnar. Þrátt fyrir erfiðleikana í ríkisfjármálum hafa barnabætur og barnabótaauki hækkað um tæpa 5 milljarða í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er vinstri stefna. Stefnt er markvisst að því að efla framhaldsmenntun og fullorðinsfræðslu á landsbyggðinni og í augsýn er að Framhaldsskóli Vestfjarða taki til starfa 1. ágúst 1991. Þetta er vinstri stefna. Í tíð núverandi fjármálaráðherra var aflétt skuldum af Orkubúi Vestfjarða að upphæð um 800 milljónir kr. að núvirði. Frá des. 1987 til 1.1. 1991 lækkaði kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis um 20%. Þetta er vinstri stefna. Samgönguráðherra hefur fengið samþykkt að flýta jarðgöngum á Vestfjörðum, tryggt fjármagn og stytt verktímann um 3-4 ár. Þetta er vinstri stefna. Samkvæmt vegaáætlun verður varið 6 milljörðum króna meira til vegamála næstu fjögur árin heldur en gert hefði verið ef stefnu Sjálfstæðisflokksins hefði verið fylgt. Hér er miðað við stefnu þess flokks eins og hún birtist´i verki árið 1987, síðasta heila árið sem Sjálfstæðisflokkurinn réði samgöngumálunum. Þá var góðæri og uppsveifla og hægur vandi að auka fjármagn til vegamála. Nú hefur verið samdráttur og erfiðir tímar, samt er fjármagnið aukið sem nemur ½ milljarði króna á ári. Þetta er vinstri stefna.

Í Vestfjarðakjördæmi verður varið tæplega 3 milljörðum kr. til vegamála næstu fjögur ár í fjölmörg verkefni sem lengi hafa beðið. Þar má nefna vegabætur á Hálfdán og innan við Hólmavík, auk Gilsfjarðarbrúar sem nú í fyrsta sinn er á vegaáætlun og framkvæmdir hefjast 1993. Tryggt var fjármagn til þess að koma brú á Dýrafjarðarbrú og brúin verður tekin í notkun á þessu hausti. Óshlíðarvegur hefur verið lýstur og ráðist verður í byggingu nýrra vegskála og annarra brýnna verkefna á Óshlíðinni. Þetta er vinstri stefna. Í hverju málinu á fætur öðru er augljóst að vinstri stefna landsbyggðarinnar en hægri stefna er andstæð hagsmunum landsbyggðarinnar. Fyrir Vestfirðinga er vinstri stefna nauðsyn. Vestfirðir þola ekki hægri stefnu, þeir þola ekki meiri áföll. Á næsta kjörtímabili verður að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar og þar með Vestfjarða. Ef þú kjósandi góður kýst til vinstri, kýst Alþýðubandalagið, ert þú að kjósa fyrir þig og þína hagsmuni, en ef þú kýst til hægri breytist kjörseðillinn í farseðil suður.

Kristinn H. Gunnarsson
Bryndís Friðgeirsdóttir
Lilja Rafney Magnúsdóttir

Þjóðviljinn 11. apríl 1991

Athugasemdir