Stöðugleiki í efnahagsmálum, stefna um nýja fiskveiðistefnu.

Greinar
Share

Kristinn H. Gunnarsson er í fyrsta sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins í Vestfjarðakjördæmi. Í þessum kosningum eru menn að kjósa um þann stöðugleika í efnahagsmálum sem ríkt hefur undanfarið eða glundroðann sem íhaldið leiddi yfir þjóðina fyrir 1988. Í öðru lagi er verið að kjósa um launamál. Alþýðubandalagið leggur mikla áherslu á lífskjarajöfnun með það að markmiði að ná kaupmættinum upp á næstu tveimur árum. Í þriðja lagi er kosið um sjávarútvegsmálin. Alþýðubandalagið telur nauðsyn þess að breyta fiskveiðistefnunni blasa við öllum þeim sem á annað borð vilja af ástandinu vita. Við viljum freista þess að ná samstöðu um nýja fiskveiðistefnu á þeim grunni sem Alþýðubandalagið hefur samþykkt. En við bendum líka á nauðsyn þess að breyta kvótakerfinu á meðan við þurfum enn að búa við það. Þar á ég við hugmyndirnar um að tengja kvótann byggðunum, þannig að tryggt sé að veiðiheimildir séu ekki seldar úr byggðalögunum og grundvellinum þar með kippt undan tilveru þeirra og lífsafkomu fólksins.

Svo virðist sem fjöldi aðila hafi tekið upp þessar hugmyndir Alþýðubandalagsins um byggðakvóta. Forysta okkar gæti því skilað sér í lífsnauðsynlegum lagfæringum á kvótakerfinu á meðan unnið er að því að ná samstöðu um nýtt form fiskveiðistjórnunar. Byggðakvótann má útfæra á ýmsa vegu og til dæmis er ekki sjálfgefið að hann sé bundinn við einstakar byggðir heldur tengist stærri svæðum. Við leggjum einnig áherslu á að handfæraveiðar verði teknar út úr kvótakerfinu og settar eingöngu í banndagakerfi. Í fjórða lagi er nú verið að kjósa um samgöngu og byggðamál. Alþýðubandalagið vill gera stórátak í samgöngumálum á þessum áratug og við erum að óska eftir umboði til að koma þeim málum í framkvæmda. Við getum vísað til jarðganganna sem dæmi um hvað við leggjum mikla áherslu á úrbætur í samgöngumálunum. Þetta er eitt mesta byggðamálið í dag að bæta samgöngur milli sveitarfélaga.

Annað stórt byggðamál er aukin menntun út á landsbyggðinni. Ég minni á að nú er tilbúinn samningur milli menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um Framhaldsskóla Vestfjarða. Þetta er mikið hagsmunamál og færir framhaldsmenntunina í ríkara mæli heim í héruð. Framhaldsskólinn á að starfa út um allt kjördæmið og áhersla verður lögð á fullorðinsfræðslu og annað slíkt. Ég tel að Alþýðubandalagið hafi sótt verulega á í Vestfjarðakjördæmi og það er greinilegt að áherslur okkar í ýmsum byggðamálum hafa fallið í góðan jarðveg. Vestfirðingar eru betur meðvitaðir um það en oft áður að Alþýðubandalagið er virkilegur landsbyggðaflokkur. Verk ráðherra flokksins eru nú að skila sér, bæði gagnvart landinu í heild og einstökum kjördæmum.
Muntu ná kjöri?
Í sjálfu sér er ekki hægt að fullyrða neitt en viðtökurnar hafa verið þannig að ég tel raunsætt að reikna með að það muni hafast.

Þjóðviljinn 17. apríl 1991.

Athugasemdir