Jöfnuður – réttlæti – bætt lífskjör.Óbreytt heildarskattbyrði en jafnari og réttlátari dreifing.

Greinar
Share

Þjóðarsáttin er nafn sem síðustu kjarasamningar hafa fengið. Þeir samningar voru að mörgu leyti sérstæðir. Í þeim samningum tóku höndum saman verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur ásamt ríkisvaldi og bændum. Markmiðið var að halda þeim kaupmætti launa sem þá var og skapa stöðugt ástand í verðlagsmálum með því m.a. að ná verðbólgu verulega niður, jafnframt því að styrkja stöðu undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútvegsins. Það muna allir viðskilnað ríkisstjórnarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir rúmum tveimur árum. Þjóðin vill ekki aftur óreiðuna 1988. Í meginatriðum má segja að þetta hafi tekist. Undanfarna 12 mánuði var verðbólgan 5.3% og hefur ekki verið lægri síðustu 20 ár.

Það er óumdeilanlegt að lækkun verðbólgu er kjarabót fyrir launafólk. það geta hinir mörgu sem skulda vitnað um, þeir sjá það á lánunum sínum og það er auðvelt að reikna út hvað þau lán væru há í dag ef verðbólgan hefði verið 20-35% eins og hún var þau 5 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn réði mestu í Stjórnarráðinu. Launamaður sem skuldaði í febrúar 1990 e milljónir skuldar nú 4.2 milljónir króna en þessi skuld hefði verið 5.4 milljónir króna í 35% verðbólgu og er þá ekki tekið tillit til afborgana. Greiðslubyrðin tekur svo mið af þessu. Síðsta ár hefur hún verið mun minni og það er í raun kjarabót fyrir launamanninn.

Verðbólgan hefur verið versti óvinur launafólks. Verkalýðshreyfingin hefur ekki haft afl til þess að halda verðhækkunum í skefjum eða að tryggja kauphækkun til jafns við verðhækkanir. Þetta þýðir að æði oft hefur umsamin kauphækkun horfið í verðhækkunarskriðu jafnskjótt og hún fékkst og fólk hefur spurt til hvers væri verið að gera kjarasamninga. Með þjóðarsáttinni er lagður grundvöllur að meira réttlæti og auknum jöfnuði í kjaramálum. Alþýðubandalagið hefur lagt fram ítarlega stefnuskrá sem skýrir hvernig sótt verði fram til bættra lífskjara fyrir launafólk.

Rauði þráðurinn í stefnu Alþýðubandalagsins er: JÖFNUÐUR – RÉTTLÆTI – BÆTT LÍFSKJÖR.

• Kjarasamningar tryggi aukna kjarajöfnun með því að umsamið taxtakaup verði hækkað með hliðsjón af raunverulegum launakjörum á vinnumarkaði.
• Óbreytt heildarskattbyrði en jafnari og réttlátari dreifing.
• Hækkun persónuafsláttar og þar með hækkun skattleysismarka. Með þessu fæst aukinn kaupmáttur lágra launa.
• Tekjutenging og hækkun barnabóta.
• Húsaleigubætur til tekjulágra.

Til þess að tryggja óbreytta heildarskattbyrði jafnframt auknum kaupmætti lágra launa þarf að sækja fé til þeirra sem hafa háar tekjur og góð kjör og færa það til láglaunafólks. Það hyggjumst við gera með sérstöku skattþrepi á háar tekjur og leggja skatt á tekjur af fjármagni. Þessum tillögum hefur Alþýðubandalagið haldið fram í núverandi stjórnarsamstarfi og reyndar er það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að skattleggja fjármagnstekjur. Hins vegar hefur hvorugt þessara stefnumála náðst fram vegna þess að vinir okkar og frændur í Alþýðuflokknum, Jafnaðarmannaflokki Íslands, hafa ekki verið fáanlegir til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég fæ ekki með nokkru móti skilið það réttlæti að tekjur af vinnu erfiðismanna skuli skattlagðar, en tekjur af því að eiga pening eða verðbréf skuli ekki skattlagðar. Hins vegar er sjálfsagt að skattleggja fjármagn með svipuðum hætti og vinnulaun, þannig að fjármagnstekjur yfir ákveðin mörk yrðu skattlögð. Hér eru heildstæðar tillögur til þess að auka JÖFNUÐ og RÉTTLÆTI og BÆTA LÍFSKJÖR. Þær eru framkvæmanlegar. Það sem til þarf er kjarkur og þor. Alþýðubandalagið hefur sýnt að það er FLOKKUR SEM GETUR og þar er FÓLK SEM ÞORIR.

Þær grundvallarbreytingar þarf að gera á næstu árum að auka hlut láglaunafólks. Þannig þarf um hnútana að búa að þeir sem þessi störf vinna geti gegnið frá sínu dagsverki með fullri reisn og þeirri sannfæringu að starfið sé metið að verðleikum.

FISKVINNSLUAFSLÁTTUR.

Eitt er það mál sem við munum leggja sérstaka áherslu á. Það er sérstakur skattaafsláttur fyrir störf í fiskvinnslu. Á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins fyrir tæpum tveimur mánuðum kynntum við Vestfirðingar hugmyndir okkar og fengum ágætar undirtektir. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að fáum dögum síðar skyldi koma fram af miklum þunga krafa fiskvinnslufólks einmitt um sérstakan skattaafslátt.

Rökin fyrir þessum afslætti eru nokkur og veigamikil:

• Störfin í fiskvinnslu eru erfið og fremur lágt launuð.
• Fiskvinnsla í landi býr við samkeppni frá frystitogurum. Þar eru sambærileg störf unnin úti á sjó og þeir sem þar vinna njóta sjómannaafsláttar.
• Störf í fiskvinnslu eru að verulegu leyti unnin af konum og með fiskvinnsluafslætti yrði stigið umtalsvert skref til aukins launajöfnuðar milli karla og kvenna.
• Í vestfirskum byggðum er fiskvinnsla undirstaðan í atvinnulífi. Með sérstökum afslætti yrðu þessi störf eftirsóttari og það myndi styrkja byggðina og þar með styrkja einnig önnur störf svo sem í verslun og þjónustu.
• Það er þjóðhagslega hagkvæmt að fiskur sé unninn í byggðum sem liggja vel við fiskimiðunum og af fólki sem kann vel til verka og skapar því mestur fáanleg verðmæti úr hráefninu.

Hér liggur fyrir skýr stefna um jöfnuð, réttlæti og bætt lífskjör. Þeirri stefnu er ætlað að auka jöfnuð í launamálum milli tekjuhárra og tekjulágra, auka réttlætið með því að draga úr þeim gífurlega mun sem er á kjörum fólks og varð til að verulegu elyti á árunum 1983-87 og bæta lífskjör láglaunafólks. Þetta er hægt ef menn hafa til þess kjark.

Kristinn H. Gunnarsson.
Höfundur er efsti maður á framboðslist Alþýðubandalagsins í Vestfjarðakjördæmi.

Vestfirska fréttablaðið 21. mars 1991.

Athugasemdir