Tvær greinar eru komnar á vefinn undir greinaflokknum almenn stjórnmál, sem lýsa vel þeim átökum sem urðu í Bolungavík um ráðin yfir Ósvör hf, fyrirtækinu sem Bolvíkingar stofnuðu í júní 1993 og keyptu tvo togara og aflaheimildir þeirra í kjölfar þess að Einar Guðfinnsson hf varð gjaldþrota í febrúarmánuði það ár. Þar tókust á þeir sem vildu að heimamenn réðu yfir aflaheimildunum og hinir sem horfðu til samstarfs við athafnamenn utan byggðarlagsins. Síðarnefndi hópurinn varð ofanná og í framhaldinu gerðist það sem þeir fyrrnefndu óttuðust, veiðiheimildirnar hurfu úr byggðarlaginu í annað byggðarlag sem stóð nýjum ráðamönnum nær. Hart var tekist á eins og greinarnar bera með sér, enda mikið í húfi. Svipað hefur gerst síðar í fleirum byggðarlögum og er enn að gerast. Af reynslunni eigum við að læra og við þurfum ekki fleiri dæmi um byggðarlög sem verða fyrir þessari bitru reynslu. Nóg er komið. Greinarnar heita Ólafur í Undralandi og Tveggja heima tal og þar skrifast ég á við Ólaf Kristjánsson, þáverandi bæjarstjóra. Tíminn hefur mildað hörkuna milli manna og eytt illindum, en eftir stendur málið sjálft og af því eiga menn að draga sinn lærdóm, um það hvað sjávarplássum er fyrir bestu.
7. mars 2005
Athugasemdir