Kortavelta erlendra ferðamanna: ekki er allt sem sýnist

Pistlar
Share

Rannsóknarsetur ferðaþjónustunnar birti í morgun upplýsingar um veltu erlendra ferðamanna hér á landi í maí 2017. Meginniðurstaðan er að dregið hafi verulega úr vextinum sé miðað við sama mánuði í fyrra. Aukningin var aðeins 7,1% en til samanburðar varð aukningin frá apríl 2016 til apríl 2017 heil 27,7%. Ellefu mánuðina þar á undan hefur aukningin verið frá 27,7% upp í 67,3%. Í þessu ljósi verður aukning upp á aðeins 7,1% sláandi og eðlilega stingur í augu.

En það er ekki allt sem sýnist. Það kemur líka frá í fréttabréfi Rannsóknarseturs ferðaþjónustunnar að gengi íslensku krónunnar hefur hækkað um 23% síðustu 12 mánuði sé miðað við viðskiptavog Seðlabanka Íslands. Gagnvart sterlingspundinu hefur krónan hækkað um 35% og um 20% gagnvart bandarískum dollar.

Þetta þýðir að það er verið að bera saman ólíkar krónur. Krónan í maí 2017 er 23% verðmætari en krónan í maí 2016. Eigi að bera saman veltuna milli ára verður að bera saman jafnverðmætar krónur. Augljóslega er krónan í ár miklu verðmætari. Það er hægt að skipta henni strax yfir í erlenda mynt og þá fær innlendi þjónustuaðilinn, sem fékk krónuna sem greiðslu frá erlendum ferðamanni, að jafnaði 23% meira af erlendum gjaldeyri. Með öðrum orðum fyrirhverja krónu í maí 2017 fæst 23% meira í aðra hönd af erlendum gjaldeyri en var í maí 2016. Kaupmáttur íslensku krónunnar erlendis hefur aukist sem þessu nemur.

Að teknu tilliti til þessa verður verðmætisaukningin milli ára í maí 2017 ekki 7,1% heldur 31,7%. Frá sjónarhóli erlenda ferðamannsins er aukningin 31,7% og frá sjónarhóli innlenda þjónustuaðilans er aukningin líka 31,7% mælt í erlendum gjaldeyri. Kaupmáttur þessarra aukningar innanlands hefur aukist meira en sem nemur 7,1% en kaupmáttaraukningin verður þó ekki svo mikið sem 31,7% þar sem sumir innlendir kostnaðarliðir, einkum laun, hafa hækkað umfram verðlag.

Niðurstaðan er því sú að aukning kortaveltunnar í maí 2017 miðað við maí 2016 er ríflega 30% mælt í erlendum gjaldeyri. Þá aukingu má raungera með því að skipta krónunum í erlendan gjaldeyri. Til viðbótar hefur verðlag hækkað í íslenskum krónum. Verðlag veitingahúsa hefur hækkað um 4% og verð á pakkaferðum hefur hækkað um 3%. Því má svo ekki að lokum gleyma að tölurnar sýna áframhaldandi verulega verðmætisaukningu, ekki samdrátt.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir