Stóra byggðastefnan

Pistlar
Share

Í íslensku hagkerfi verða til mikil verðmæti á hverju ári. Hversu mikil hverju sinni má ráða af því hver hagvöxturinn er. Almennt má segja að með vaxandi kaupmætti almennings hækka ýmis eftirsótt gæði í verði. Verð á fiskikvóta á Íslandsmiðum fylgir bættum efnahag í viðskiptalöndum íslensks sjávarútvegs. Bættur kaupmáttur þar leiðir til hærra verðs á fiskafurðunum sem svo aftur hækkar það verð á kvóta sem útgerðin getur staðið undir.

Það er ekki nema hálf sagan sögð þegar því er haldið fram að hátt kvótaverð síðustu 15 ár sé hagræðingunni í greininni að þakka. Hinn helmingurinn af sögunni er hækkandi kaupgeta viðskiptavinanna erlendis sem hefur stórlega hækkað afurðaverðið og er algerlega óháð því hvaða fiskveiðikerfi er notað við veiðarnar.

Spurningin og stóra pólitíska átakamálið sem stöðugt er hitamál í íslenskum stjórnmálum er hvernig skipta eigi verðmætunum milli landsmanna. Ekki bara þeim ábata sem framseljanlegt kvótakerfi kann að hafa í för með sér heldur ekki síður þeim ábata sem fylgir vaxandi kaupgetu. Fjárhæðirnar verða gríðarlegar þegar haft er í huga breytingarnar yfir langt tímabil eins og nokkra áratugi. Auðurinn sem verður til við þessi skilyrði er ekki einkaeign þeirra sem starfa við atvinnugreinina hverju sinni heldur eiga aðrir í þjóðfélaginu réttmætt tilkall til hans.

Ójöfn dreifing verðmætasköpunar

Önnur birtingarmynd af dreifingu eignamyndunar í þjóðfélaginu kemur skýrt og greinilega fram í fasteignaverði. Það hefur lengi legið fyrir að verð á fasteignum og kaupmáttur fylgjast mjög að. Þegar kaupmáttur vex fylgir hækkandi fasteignaverð í kjölfarið. Það hefur líka verið bent á samhengið milli verðs á fasteignum og atvinnuástands á einstökum landssvæðum. Þegar atvinna er stöðug og og hægt að treysta því til framtíðar að ekki verði snöggar breytingar helst eftirspurn eftir fasteignum og verð á þeim fylgir kaupgetunni.

Þegar horft er til þjóðfélagsins í heild hefur orðið mikil hækkun á ráðstöfunartekjum fjölskyldunnar á nokkrum áratugum. Það leiðir til samsvarandi verðhækkunar á íbúðarhúsnæði og stundum þegar mestur gangur hefur verið í efnahagslífinu hefur verð á afþreyingargæðum rokið upp líka, svo sem sumarbústöðum. En allir þurfa íbúðarhúsnæði og því hefur verðþróun á því verið góður mælikvarði á hag almennings. En hitt er flestum ljóst ef ekki öllum að dreifingin á efnahagslegum ávinningnum er ærið misjöfn. Sum landssvæði eru þannig stödd að íbúðaverð hækkar minna en landsmeðaltalið gefur tilefni til og á öðrum landsvæðum er stundum um hreina afturför að ræða. Það sést best með því að skoða þróun fasteignaverðs.

Kvótinn færði verðmætin til

Á árunum 1990 – 2004 lækkaði raunverð á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum um 28%. Á sama tíma hækkaði íbúðaverðið annar staðar á landinu að raungildi. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði það um 52%. Það þýðir að hafi tvær fasteignir verið jafnverðmætar árið 1990, önnur á Vestfjörðum og hin í Reykjavík að þá var staðan árið 2004 þannig að fasteignin í Reykjavík var 111% verðmeiri en sú á Vestfjörðum. Ástæðan er einföld atvinnumálin á Vestfjörðum hrundu. Svo gott sem allur kvóti fór frá Vestfjörðum á þessum árum fram til 1999. Raunlækkunin á Vestfjörðum varð mest eftir 1998. Þróunin á Austurlandi var á sama veg og á Vestfjörðum en um aldamótum snerist hún við og íbúðaverð tók að hækka. Það var vegna atvinnuppbyggingar sem fylgdi stóriðjunni. Það sem máli skiptir eru tekjurnar og atvinnuöryggið. Að því er hlúð á höfuðborgarsvæðinu, einkum fyrir tilstilli ríkisvaldsins. En aðgerðir ríkisvaldsins á landsbyggðinni eru máttleysislegar, fálmkenndar og stundum stórlega skaðlegar hagsmunum íbúanna þar.

Ríkisstýrð eignaaukning

Síðustu 5 ár hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 600 milljarða króna að raungildi. Það má áætla sem 11,5 milljóna króna skattlausan ávinning á hverja íbúð að jafnaði. Hátt verð er vegna mikillar eftirspurnar og mikillar kaupgetu. Það er afrakstur af stóru byggðastefnunni sem aldrei er minnst á. Stóra byggðastefnan eru margvíslegar aðgerðir ríkisvaldsins til þess að bæta hag fólks á einu landsvæði sérstaklega. Ávinningi þjóðarinnar af vaxandi kaupmætti er markvisst dreift á fáa staði og þar blómstrar efnahagur íbúðareigenda.

En þessi eignaaukning er ekki einkaeign höfuðborgarsvæðisins. Hún er vegna efnahagsstarfsemi um allt land. Því á að dreifa ávinningum um landið. Þeir sem fá upp í hendurnar fyrirhafnarlaust milljónir vegna hækkunar fasteignaverðs eiga ekki þá peninga heldur skulda hinum sem verða að þola tjónið af stóru byggðstefnunni. Það er með fasteignaauðinn eins og kvótagróðann að það eiga allir sinn hlut og hlutverk ríkisvaldsins og stjórnmálamannannar er að dreifa auðnum og tækifærunum jafnt milli landsmanna, óháð búsetu.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir