Villta vestrið og átökin um laun sjómanna

Pistlar
Share

Fyrir nokkrum dögum féll hæstréttardómur í máli sem sjómaður í Bolungavík höfðaði á hendur útgerð sem hann vann hjá og snerist um vangoldin laun. Niðurstaðan varð sú sama og í héraðsdómi Vestfjarða.

Krafa sjómannsins um 19,1 milljóna króna vangoldin laun á árunum 2007 – 2012 var var tekin til greina en útgerðin engu að síður sýknuð þar sem sjómaðurinn hefði dregið of lengi að sækja rétt sinn. Þessi niðurstaða er mikið umhugsunarefni, sérstaklega fyrir launamenn. Það getur verið fjárhagslega skaðlegt fyrir launþega að sækja ekki sinn rétt. En það getur líka verið erfitt að gera slíkt í umhverfi þar sem atvinnurekendur hafa öll tök og taka stundum óstinnt upp athugasemdir um kaup og kjör. Við þessar aðstæður þurfa sjómenn sem aðrir launþegar að geta reitt sig á stéttarfélögin til þess að gæta hagsmuna sinna. Stéttarfélögin verða hins vegar ekki sterk nema að félagsmennirnir geri þau sterk.

Lögbrot en sýkna
Í þessu máli er ekki farið að lögum. Atvinnurekandanum ber samkvæmt sjómannalögum að gera skriflega ráðningarsamning við skipverja þar sem fram kemur hvert umsamið kaup er. Sérstaklega er þörf á þessu þegar engin kjarasamningur er í gildi eins og átti við um sjómenn á smábátum. Kjarasamningur var ekki gerður fyrr en 2012.

Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur hefur lýst ástandinu svo að útgerðarmenn hafi tíðkað að prenta út sína skilmála og kalla þá kjarasamning. Þar hefðu verið dregin frá skiptum ýmis gjöld sem ekki átti að gera, svo sem vigtargjald, hafnargjöld , veiðigjöld til ríkisins og hækkun á beitukostnaði. Þá hefðu sjómenn látið yfir sig ganga að taka þátt í kvótaleigu allt fram til 2012 að kjarasamningar voru loks gerðir. Líkti formaðurinn ástandinu við villta vestrið.

Annað umkvörtunarefni kemur fram í málarekstrinum sem leiðir af því að útgerðarmenn komast upp með að gera ekki skriflega ráðningarsamning eins og lögbundið er. Það er að launaseðlarnir veittu ófullnægjandi upplýsingar um forsendur aflahlutar sjómanna. Fram kemur að ekki hafi komið fram hvert aflaverðmætið var sem hlutur var reiknaður af , hver skiptaprósentan væri eða hvaða kostnaður væri dreginn frá söluverði aflans svo vitnað beint í dóminn.

Fram kemur að þótt sækjandi væri aðeins einn sjómaður megi ætla að þessir alvarlegu annmarkar eigi við um fleiri sjómenn á smábátum í þessar verstöð. Þess vegna var þessi málarekstur mikilvægur fyrir fleiri en stefnanda. Mjög háar fjárhæðir voru í húfi þegar litið er til alls tímabilsins og mögulegs fjölda sjómanna. Til viðbótar þessu kemur svo þátttaka sjómanna í kvótaleigu. Hún er ólögleg og nemur líka háum fjárhæðum.

Það er satt að segja dapurleg niðurstaða að útgerðarmenn hagnist á því þegar upp er staðið að hafa vanvirt lagaákvæði. Það verður ekki aðeins refsilaust heldur er útgerðin verðlaunuð fyrir vikið.

Gerðir útgerðarmanna orsökin

Því miður lýkur ágreiningi um kaup og kjör ekki með þessu máli. Frá árinu 2008 hefur hásetahlutur lækkað um 40% á smábátum eins og sagt var frá í blaðinu Vestfirðir á árinu 2014. Önnur kjaradeila var sama ár þegar einn útgerðarmaðurinn neitaði að greiða aukahluti til stýrimanns og var greint frá henni í blaðinu Vestfirðir. Nokkrar útgerðir í Bolungavík höfðu klofið sig frá Landssambandi smábátaeigenda og töldu sig ekki bundna af þessu ákvæði kjarasamninganna. Framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna og einnig formaður klofningsfélags smábátaeigenda voru ósammála bolvísku útgerðunum. Tveimur mánuðum seinna höfðu sjómennirnir fullan sigur í málinu. Það skiptir máli að flytja fréttir. Þögnin er skilin sem tómlæti.
Þriðja málið sem gerð hefur grein fyrir í blaðinu er lækkun á launum á einum bátnum um tugi prósenta með því að selja aflann á verðlagsráðsverði. Allt eru þetta mál sem eru fréttir og eiga erindi við lesendur. Öll eru þau hluti af átökum um skiptingu teknanna milli launa og fjármagns og um allt land. Fjármagnið hefur verið að auka hlut sinn með hækkandi kvótaverði. Því er mætt með því að lækka laun sjómanna. Fréttaflutningur er afleiðing en ekki orsök. Vandinn liggur ekki í afleiðingunum heldur orsökunum. Það mætti þeir hafa í huga sem kvarta undan fréttaflutningi af gerðum útgerðarmanna.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir