Endurskoðandi á villigötum

Pistlar
Share

Jón Þorgeir Einarsson, endurskoðandi í Bolungavík er með nokkar ásakanir í minn garð í grein á bb.is í gær. Þeim er nauðsynlegt að svara. Fyrst er til að taka að endurskoðandinn segir að í 4. tbl. blaðsins Vestfirðir 2015 séu ýmsar rangar staðhæfingar af minni hálfu og viðmælanda og sú alvarlegasta að endurskoðand hefði logið fyrir dómi.

Héraðsdómurinn

Í blaðinu er á bls 2 umfjöllun um nýfallinn dóm í Héraðsdómi Vestfjarða. Sjómaður sem rætt var við höfðaði mál á hendur útgerð í bænum vegna vangoldinna launa. Jón Þorgeir Einarsson annaðist alla launaútreikninga fyrir útgerðina og var kallaður fyrir dóminn til þess að vitna um hver launakjörin hefðu verið. Launaútreikningum var áfátt þar sem á launaseðlum var ekki hægt að sjá hver skiptahluturinn var og svo virtist að ekki væri alltaf miðað við sömu prósentutöluna. Sjómaðurinn tapaði málinu vegna þess að hann hefði látið dragast of lengi að sækja rétt sinn. En þar sem skylt væri samkvæmt sjómannalögum að gera skriflegan ráðningarsamning var það útgerðarinnar að færa fram gögn til sönnunar á því umsamin kjör hefðu verið önnur en sjómaðurinn hélt fram. Var það niðurstaða dómisins að það hefði ekki tekist og stæði því staðhæfing sjómannsins um hver umsamin kjör hefur verið.
Í viðtalinu er hvert orð haft rétt eftir sjómanninum, sumt er innan gæsalappa orðrétt eftir honum haft og annað er óbein endursögn. Allt sem birt er var borið undir viðmælandann og birt með samþykki hans. Þar segir sjómaðurinn meðal annars að hann sé að hugsa um að snúa sér til Endurskoðendaráðs og gera athugasemdir við störf endurskoðandans sem hafi sagt ósatt fyrir rétti og gert ólöglega launamiða. Einnig var rætt við útgerðarmanninn og honum gefinn kostur á að tjá sig um dóminn. Þriðji viðmælandinn í þesar umfjöllun var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur. Hann sagði að félagið hefði styrkt sjómanninn fjárhagslega í málarekstrinum, en því væri ekki að leyna að hálfgert villta vesturs ástand hefði ríkt í Bolungavík frá 1997 þar til kjarasamningar um kjör á smábátum tókust árið 2012. Útgerðarmenn hefðu breytt og lækkað skiptaprósentu og prentað sína skilmála og kallað þá samninga. Þar hefði ýmislegt verið dregið frá skiptum sem ekki átti að gera svo sem hafnargöld, veiðigjald til ríkisins, vigtargjald og hækkun á beitukostnaði.
Þá var Jóni Þorgeir Einarssyni send fyrirspurn og hann inntur eftir því hvers vegna upplýsingar um skiptaprósentu og aflaverðmæti fylgdu ekki launauppgjöri. Því sagðist honum óheimilt að svara og bar við trúnaði við viðskiptavin. Útgerðarmaðurinn sem stefnt var var einnig spurður um skort á þessum upplýsingum og svaraði því til að spyrjanda kæmi það ekki við.
Í umfjölluninni er ekkert frá minni hálfu um málið hvorki um endurskoðandann né annan. Ummæli sjómannsins liggja fyrir og hann stendur fyrir þeim. Þeim fær Jón Þorgeir Einarsson ekki breytt enda ekki aðili að því samtali. Fullyrðingar hans þess efnis að ég sé að leggja sjómanninum ósögð orð í munn eru fráleitar og ósannar.

Á bls 6 í sama blaði er skilmerkilega rakinn héraðsdómurinn lið fyrir lið. Í dómnum kemur fram að útgerðarmaðurinn, sem stefnt var hafi litlar skýringar gefið á því fyrir dómi hvernig laun sjómannsins voru reiknuð út og vísaði hann á endurskoðandann sem sá um launaútreikningana. Var hann yfirheyrður um það. Um þetta segi ég í umfjölluninni um dóminn: „ Dómurinn hlýtur að vera Jóni Þorgeir Einarssyni, endurskoðanda áhyggjuefni, en í honum segir beinlínis að framburður hans “hafi ekkert gildi til sönnunar á því um hvað var samið á milli stefnanda og stefnda“. Vitnisburður endurskoðandans fær ekki háa einkunn með þessum orðum“. Þetta er það eina sem frá mér kemur um framgöngu endurskoðandans og tel ég það bæði hógvært og vel rökstutt í ljósi þess að allur málareksturinn kemur til af því að endurskoðandinn gerir ófullnægjandi launaútreikninga.

En sjómaðurinn sem um ræðir er ekki einn um að vera kallaður til endurskoðandans vegna ummæla sinna í blaðinu. Formaður Verkalýðsfélagsins fékk líka kvaðningu vegna þess sem hann hafði sagt. Endurskoðandinn getur þess ekki en hann mætti gjarnan greina frá efni þess fundar og skýra hvernig ummæli formannsins um villta vestrið hjá útgerðarmönnum í Bolungavík tengjast störfum Jóns Þorgeirs Einarssonar sem endurskoðandi reikninga Verkalýðsfélagsins.

Kaupin á Fiskmarkaði Vestfjarða hf

Um kaupin segir í síðasta tölublaði, sem kom út í síðustu viku, að Endurskoðun Vestfjarða ehf og Jón Þorgeir Einarsson hafi annast „bókhald og framtalsskil fyrir Fiskmarkað Vestfjarða áður en til sölu kom“. Við þetta gerir Jón Þorgeir þá athugasemd að fullyrt sé að Endurskoðun Vestfjarða hafi annast bókhald áður en til sölu kom og að það sé rangt. Þarna vitnar endurskoðandinn rangt í blaðið og sleppir orðinu framtalsskil. Um þetta þarf ekki að deila enda hafði ég fengið staðfestingu frá seljanda á því hver væri endurskoðandi Fiskmarkaðs Vestfjarða hf áður en til sölu kom.

Varðandi hitt efnisatriðið að fyrst hafi Jakob Valgeir ehf keypt alla hluti í fiskmarkaðnum og svo selt frá sér til fjögurra nýrra hluthafa er um það að segja að það breytir litlu. Eftir sem áður er endurskoðandinn kaupandi að fyrirtæki sem hann endurskoðar. Í ársreikningi Fiskmarkaðar Vestfjarða hf fyrir 2013 segir að í árslok sé Blakknes ehf einn af 5 eigendum að fyrirtækinu með 19% eignarhlut. Endurskoðandi félagsins er Jón Þorgeir Einarsson og undirskrift hans á ársreikningnum er dagsett 27. febr 2014. Í ársreikningi Blakksness ehf fyrir 2013 kemur fram að í árslok hafi félagið átt 19% í Fiskmarkaði Vestfjarða hf. Þar er 50% eigandi og framkvæmdastjóri Jón Þorgeir Einarsson. Þetta er staða sem mér sýnist á lögum og siðareglum endurskoðenda að endurskoðandi eigi að forðast að vera í. Á þessum tímapunkti er hann eigandi, endurskoðandi, viðskiptavinur og endurskoðandi tveggja meðeiganda. Augljóst er ólíkir hagsmunir endurskoðandans eru of margir svo vel geti farið.

Sjálfur segir hann að hann hafi hætt sem endurskoðandi fiskmarkaðarins vegna eignarhlutar síns í Blakknesi ehf. Það staðfestir álit minn á því að þetta fari ekki saman. Hins vegar lætur Jón Þorgeir því ósvarað hvers vegna Blakknes ehf seldi sinn hlut í Fiskmarkaði Vestfjarða ehf á árinu 2014 úr því að hann hafði hætt sem endurskoðandi markaðarins. Hann svarað ekki fyrirspurn minni um það. Því verður ekkert fullyrt um ástæðuna. En ákvæði siðaregla enduskoðenda og viðeigandi löggjöf eru þannig að vandséð er að endurskoðandinn geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart þeim öllum samtímis. Sé það rétt mat verður salan á hlut Blakkness ehf skiljanleg. Það er svo önnur saga hvort salan er raunveruleg sala. Það má efast um það. Millifléttan um kaupin á Fiskmarkaði Vestfjarða hf. á árinu 2013 kann að vera gerð einmitt til þess að formi til að draga úr hagsmunaárekstrum endurskoðandans og firra hann ábyrgð á þeim aðferðum sem virðist hafa verið beitt til þess að knýja fram samninga.

Kjarninn í umfjöllinni í blaðinu Vestfirðir er einmitt að draga fram staðreyndir um eignarhald og sýnilega hagsmunaárekstra í Fiskmarkaði Vestfjarða hf. auk almennra upplýsingar um fjárhag og fjárfestingar fyrirtækisins. Athygli mína vekur að endurskoðandinn víkur ekki einu orði að þessu og flókinni stöðu sinni. Hann gefur heldur engar skýringar á meingölluðum launaútreikningum með síbreytilegum skiptahlut þar sem nauðsynlegum upplýsingum er haldið frá sjómönnum. Í viðtalinu við formann Verkalýðsfélagsins kemur fram að sjómenn hafi látið yfir sig ganga að taka þátt í kvótaleigu á þessum árum villta vestursins í Bolungavík , en það er ólöglegt. Kannski er þar að finna skýringuna.

Fléttaflutningurinn

Jón Þorgeir Einarsson kvartar yfir neikvæðum fréttaflutningi í blaðinu. Því verð ég að vera ósammála. Ég hef lagt mig fram um að flytja fréttir og birta myndir af mannamótum, skemmtunum , fundum og ráðstefnum. Birt hafa verið erindi um ýmis málefni, svo sem um ferðamál, fiskeldi, málefni aldraðra, Hornstrandafriðlandið , Aðalvík, áform um bygging kalkþörungaverksmiðju o.s.frv. Það hefur líka verið gerð úttekt á málum eins og ráðstöfun byggðakvóta í Súðavík og á þingeyri, launum sveitarstjóra og hækkun á launum sveitarstjórnarmanna. Einnig hefur verið farið vandlega yfir fasteignagjöld, sérstaklega háa fasteignaskatta á Vestfjörðum; gerð grein fyrir rekstri og efnahag ýmissa mikilvægra fyrirtækja í fjórðungnum svo nokkur mál séu nefnd.

Það hefur líka verið sagt frá lækkun á hlut sjómanna á smábátum, afturköllun á starfi vegna facebookfærslu, deilum um aukahluti stýrimanna í Bolungavík,verulegri lækkun fiskverðs á einum bát í Bolungavík og þar með lækkun á hlut sjómanna. Það má einnig nefna að vakin hefur verið athygli á hagsmunaárekstrum bæjarstjórans í Bolungavík í kalkþörungamálinu og því að sami bæjarstjóri var án ráðningarsamnings í 8 mánuði.
Allt eru þetta fréttir sem eiga erindi til lesenda. Kappkostað er að koma upplýsingum á framfæri þannig að lesandinn hafi staðreyndir og annað sem skiptir máli og geti sjálfur lagt mat á atburðina sem sagt er frá.

Það er mikill misskilningur að fréttaflutningur sé vandamálið, sé hann sanngjarn og réttur. Vandamálið liggur í atburðunum og verknaðinum sem er tilefni hverrar fréttar. Það eru gerendurnir en ekki fréttin sem eru vandamálið og þeir þurfa að hugsa sinn gang og breyta um hugarfar.

Í umsögn fjölmiðlanefndar um samruna blaðsins Vestfirðir og fleiri blaða við Pressuna ehf segir mikilvægt að sjálfstæði ritstjórna verði tryggt áfram og að ritstjórnum sem hafa lagt áherslu á gagnrýna og afhjúpandi umfjöllum verði gert kleift að gera það áfram.
Þetta er kjarni málsins.

Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir