Útvaldir skammta sér gróða

Pistlar
Share

Einkavæðing á gróðavænlegum fyrirtækjum er hafin á nýjan leik. Því miður er ekki að sjá annað en að sömu mistökin séu í uppsiglingu og gerð voru í upphafi aldarinnar. Landsbankinn var þá seldur völdum aðilum sem lögðu ekkert inn en greiddu kaupin með lántöku. Eigendurnir tóku bara út. Þetta hefur oft verið leikið við kaup á útgerðarfyrirtækjum. Einstaklingar sem hafa komist í aðstöðu til þess að eignast fyrirtækin hafa notfært sér aðstöðuna og velt byrðunum af kaupunum yfir á fyrirtækin sjálf en taka til sín verðmætin. Þetta hafa Vestfirðingar til dæmis séð gerast. Þegar Síminn var seldur í fyrstunni léku kaupendurnir einmitt þennan leik.

Völd fjármagnsins

Í upphafi var einkavæðing ríkisfyrirtækja liður í því að koma á fót hlutafjármarkaði þar almenningur og fjárfestar eins og lífeyrissjóðir gætu ávaxtað sparifé sitt. Dreifð eignaraðild átti að vera einkennandi fyrir lykilfyrirtæki í ýmsum atvinnugreinum. Þetta gekk ekki eftir og tiltölulega fámennur hópur varð ráðandi og eigandi. Á þessum árum breyttust valdahlutföllin í þjóðfélaginu og forystumenn í stjórnmálunum urðu sem peð í höndunum á fjármála- og útgerðarfyrirtækjunum. Fjármálagreifarnir réðu miklu um löggjöf á sínu sviði og segja má að þeir hafi mótað sínar eigin leikreglur. Þeir fengu mikið svigrúm og almenningur mátti að lokum bera kostnaðinn af því. Þrátt fyrir bankahrunið virðast völd fjármálakerfisins enn vera mjög mikil. Það þurfti ekki nema eitt bréf frá bankastjóra Arionbanka til borgarstjórans í Reykjavík til þess að borgarstjórinn snerist á punktinum og hann afturkallaði samþykkt borgarstjórnar um viðskiptabann á vörur frá Ísrael. Borgarstjórnin staðfesti svo undirgefni borgarstjórans hlýðin og auðsveip. Kjörnir fulltrúar almennings deila ekki við bankastjórann.

Aukinn hlutur ríka fólksins

Ef litið er á þróunina frá 1997 má sjá greinilega þá auðsöfnun sem hefur orðið vegna aukinna áhrifa útvalinna. Nýjasta dæmið má lesa í skýrslu mannúðarsamtakanna Oxfam, sem safna upplýsingum um tekjur og eignir fólks um allan heim og dreifingu auðsins. Á Íslandi hefur hlutur ríkasta 10% landsmanna aukist úr 56% í 71% frá 1997 til 2014. Ríkasta 1% landsmanna, sem eru um 1900 skattgreiðendur, eiga um 23% af öllum framtöldum auð. Til viðbótar þarf að gera ráð fyrir eignum Íslendinga sem eru geymdar erlendis og ekki taldar fram. Það má telja nokkuð víst að eignir fyrir háar fjárhæðir hafi verði skotið undan fyrir hrunið og eins má gera ráð fyrir með nokkurri vissu að þær eignir tilheyri að mestu ríkasta 1% landsmanna. Hin undirliggjandi pólitíska stefna sem hefur gert útvöldum hópi kleift að auka auð sinn hefur afleiðingar. Hún eykur mismun á Íslandi. Hún eykur líka fátækt. Um 30% allra framteljenda átti minna en ekkert skv gögnum frá ríkisskattstjóra sem Ríkisútvarpið kynnti í janúar síðastliðinn.

Aftur útvaldir

Þess hefur verið vænst að Íslendingar myndu læra af hruninu og setja almennar reglur um viðskiptalífið og að minnsta kosti þrengja möguleikana á sérgróðaleiðum. Til þess þurfa stjórnmálaflokkarnir, sem setja leikreglurnar í þjóðfélaginu, að sýna þann styrk að ráða við öflugustu sérhagsmunahópana. Langstærstur hluti hagnaðar er í fjármálakerfinu og sjávarútveginum og svo hefur verið frá hruni. Þarna eru líka valdamestu aðilarnir sem hafa mikið áhrif á stjórnvöld, sérstaklega núverandi stjórnarflokka. Viðskiptabankarnir sem voru endurreistir eftir hrun þurftu að yfirtaka mörg fyrirtæki sem féllu í kjölfar hrunsins haustið 2008.

Eitt þessara fyrirtækja var Síminn. Arionbanki eignaðist stóran hlut í því og á þessu ári var komið að því að selja fyrirtækið. Aðstæður er hagstæðar fyrir sölu. Gjaldeyrishöftin gera það að verkum að lífeyrissjóðirnar eiga fáa góða fjárfestingarkosti og Síminn er fyrirtæki sem ætla má að verði arðvænlegt á fjarskiptamarkaði. Enda kom það á daginn. Arionbanki seldi í almennu hlutafjárútboði 21% hlutafjár í Símanum fyrir gott verð og gat selt sex sinnum meira. Sölugengið var 3,3. Þeir sem keyptu trúa því að fyrirtækið muni skila góðri afkomu á næstu árum og verðið á hlutabréfunum verði því áfram hátt.

En gróðafíklarnir gátu ekki á sér setið og stjórvöld stöðvuðu þá ekki. Áður en almennt útboð fór fram var 10% hlutafjár selt völdum aðilum á lægra verði.Helmingurinn var seldur á genginu 2,5 til aðila sem stjórnin valdi og hinn helmingurinn fengu valdir viðskiptavinir Arionbanka að kaupa á genginu 2,8.

sömu sjúkdómseinkennin
Miðað við stöðuna nú hefur fyrri hópurinn grætt 440 mkr og seinni hópurinn 280 mkr. Samtals hafa hinir útvöldu grætt 720 mkr. Meðal þeirra er forstjóri Símans sem hefur þegar hagnast um 22 mkr. Það var alveg óþarfi að færa fáum aðilum þennan hagnað.Þeir gátu keypt hlutabréf eins og hver annar. Þótt ekki sé heimilt að selja hlutabréfin næstu mánuði þá breytir það engu. Eftirspurnin er slík að verðið mun ekki falla og svo er enginn vandi að selja kauprétt af hlutabréfunum og innleysa strax hagnaðinn. Líklega býður Arionbanki góðum viðskiptavinum sínum upp á slíka þjónustu. Þeir útvöldu ætla að innleysa hagnaðinn fyrr en seinna , alveg eins og var fyrir hrun. Enn má sjá sömu sjúkdómseinkennin í þjóðfélaginu.

Grein á bb.is

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir