Um árabil hefur því verið haldið fram að verðtrygging lánsfjár væri helsta vandamál skuldsettra heimila þar sem sjálfvirkar verðbætur gerðu það að verkum að lánin hækkuðu sífellt. Krafan hefur verið sú að banna verðtrygginguna og breyta lánunum í óverðtryggð lán. Yrði það gert myndu vextir lækka og greiðslubyrðin léttast og skuldin greiðast niður. Þessi málflutningur fékk mikinn stuðning í síðustu Alþingiskosningum og nú stendur til að banna verðtrygginguna.
Sérstök nefnd ríkisstjórnarinnar hefur nú skilað áliti og tillögum. Niðurstaðan er á annan veg en til stóð, staða skuldara mun versna við breytinguna í stað þess að batna. Óverðtryggðu vextirnir verða hærri en þeir verðtryggðu og lánstíminn mun styttast. Greiðslubyrðin mun stórlega þyngjast. Af þessu leiðir að færri heimili munu ráða við íbúðakaup og þurfa því að búa við háa húsaleigu á almennum markaði eða treysta á úrræði sveitarfélaganna. Nefndarmönnum hrýs eðlilega hugur við afleiðingunum af afnámi verðtryggingarinnar og þeir leggja flestir til að setja málið í bið um óákveðinn tíma.
Um það er einhugur í nefndinni að vextir munu hækka. Upplýst er að síðustu 20 ár hafa vextir óverðtryggðra lán verið að jafnaði um 1,5% hærri en verðtryggðir vextir. Það er í samræmi við niðurstöður ýmissa aðila undanfarin ár. Þar með er fallin um sjálft sig megin fullyrðingin um hækkunarspíralinn sem sagður er leiða af verðtryggingunni. Við blasir að væru allar skuldir heimilanna færðar yfir í óverðtryggða vexti myndi vaxtafjárhæðin af skuldunum verða enn hærri en áður. Greiðslubyrðin af vöxtunum einum yrði slík að tugþúsundir heimila myndu ekki ráða við hana og augljóst er að úrræði bankanna yrði að bæta stórum hluta af vöxtunum við höfuðstól lánsins, rétt eins og gert er í verðtryggingunni.
Allir nefndarmenn viðurkenna þessa staðreynd og telja að ríkið þurfi að grípa inn í með fjárframlögum til þess að vinna á móti vandanum sem afnám verðtryggingarinnar skapar.
Þá telja nefndarmenn að lánstíminn muni styttast umtalsvert ef bönnuð yrði greiðsludreifing á verðbótunum sem tíðkast í verðtryggingunn. Sú breyting mun líka hækka greiðslubyrðina af skuldunum verulega. Á móti því kæmi hraðari eignamyndun. Samanlagt getur greiðslubyrðin hækkað í rúman áratug um allt að 70% vegna vaxtahækkunarinnar og styttri lánstíma.
Fjölmargir kjósendur fá með áliti nefndarinnar framan í sig sem kalda vatnsgusu þá staðreynd, sem raunar lá fyrir, að afnám verðtryggingarinnar er ekkert töfraráð, heldur þvert á móti til þess fallin að auka á vandræði skuldugra heimila. Versta útreið fær tillaga formanns Framsóknarflokksins, sem lagði til fyrir tæpu ári að skipt yrði út verðtryggðum skuldabréfum fyrir óverðtryggð. Seðlabankinn og Analytica telja að þá myndi greiðslubyrðin hækka mest og fasteignaverð gæti lækkað frá 14% – 23% og með rýrnandi eignarhluta fjölskyldnanna í fasteigninni.
Það sem eftir stendur er að umræðan hefur verið á villigötum og kjósendur hafa verið blekktir. Verðtryggingin er ekki vandamálið og afnám hennar því ekki lausnin. Háir raunvextir hérlendis eiga sér flóknar orsakir og vanhæfir stjórnmálamenn eru sjálfstætt og umtalsvert efnahagsvandamál. Í heimi án verðtrygggingar og án möguleika á því að jafna greiðslubyrðinni yfir lánstímann verður vandinn áfram við lýði og skuldarar verða síst betur staddir. Það er kjarni málsins og hann hefur nú verið afhjúpaður.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir