Sjávarútvegsráðherra var um síðustu helgi gestur í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn í Ríkisútvarpinu. Þar kom fram einbeittur vilji hans til þess að afhenda útgerðinni réttinn til veiða á makríl án aðkomu Alþingis á þann hátt að gefa út aflahlutdeildir eins og gert hefur verið í hefðbundnum kvótabundnum tegundum. Slegið hefur verið á að verðmæti kvótans geti verið um 100 milljarðar króna og færa má rök fyrir því að það geti verið mun meira.
Rökstuðningur ráðherrans var í þynnsta lagi og er fyllsta ástæða til þess að gera alvarlegar athugasemdir við hann. Ráðherrans hélt því blákalt fram að hann yrði skv. gildandi lögum að gefa út aflahlutdeildir, sem er hinn eiginlegi gjafagjörningur og fer fram án nokkurs endurgjalds. Þetta er mikil reginfirra og ráðherrann fer vísvitandi með rangt mál í því skyni að blekkja almenning.
Í fyrsta lagi þá er hægt að breyta lögum. Sjávarútvegsráðherra getur beitt sér fyrir lagabreytingum , ef það þykir nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir sjálfvirka afhendingu kvótans og getur þannig komið stefnu sinni í framkvæmd með stuðningi Alþingis. Enginn hefur betri möguleika til þess en einmitt sjávarútvegsráðherrann. Þess vegna er hægt með lögum að ráðstafa makrílkvótanum til lengri eða skemmri tíma í senn með uppboði eða öðrum sambærilegum hætti og tryggja þannig hinu opinbera tekjur af útleigu veiðiréttarins , sem er í samræmi við verðmat útgerðamanna hverju sinni.
Þetta er bara spurning um pólitískan vilja og með vífillengjum sínum opinberaði ráðherrann takmarkalausa þjónkun sína við fáeina stórútgerðarmenn. Hann vill frekar að verðmætin í kvótanum renni að mestu til 25 útgerðarfyrirtækja en til fjársveltra verkefna í almannaþágu.
Í öðru lagi þá hefur undanfarin 4 ár, 2010-2013, makrílkvóta hvers árs verið skipt niður á einstakar útgerðir með ágætum árangri án þess að stíga það skref að útdeila aflahlutdeildum, sem heita í daglegu tali varanlegur kvóta. Þáverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason og eftirmaður hans Steingrímur J. Sigfússon töldu báðir að gildandi lög um stjórn fiskveiða væru þannig að hægt væri að kvótaskipta veiðunum án þess að gefa út aflahlutdeildir.
Í sérstakri tilkynningu frá sjávarútvegsráðherra dags . 31. mars 2010 um fyrirkomulag makrílveiða með útgáfa árlegs kvóta segir:
"Áhersla er lögð á að ekki megi reikna með að veiðarnar í ár skapi grunn að veiðirétti í framtíðinni eða að framtíðarfyrirkomulagi veiða að öðru leyti. Á það er jafnframt bent að ekki liggur fyrir samfelld veiðireynsla í skilningi laga og að mikilvægt er fyrir þjóðarbúið að ekki sé lokað fyrir möguleika á að aflað sé enn fjölbreyttari reynslu í vinnslu og veiðum en fyrir liggur nú."
Þetta er grundvallaratriði í málinu, sem núverandi ráðherra skautar alveg framhjá. Það var sérstaklega tekið fram í upphafi að kvótasetningin 2010 skapar engan rétt til hlutdeildar útgerðanna í veiðiréttinum til lengri tíma. Hvernig ætlar núverandi ráðherra að túlka sömu lög með gagnstæðum hætti ? Á hvaða lagalegum grundvelli hvílir slík túlkun? Engin rökstuðningur hefur verið settur fram nýju túlkuninni til stuðnings. Það merkilega er að ekki hafa fallið neinir dómar sem véfengja fyrirkomulagið frá 2010, útgerðarmenn hafa ekki skotið þessari framkvæmd laganna til dómstóla og þeir hafa ekki einu sinni gert, svo vitað sé , gert kröfur um eign á kvótanum.
Með því að í raun véfengja fyrri ákvörðun ráðuneytisins er núverandi ráðherra að opna greiða leið fyrir skaðabótakröfur frá einstökum útgerðarmönnum á hendur ríkinu upp á háar fjárhæðir fyrir tapaða möguleika á því frá 2010 að hagnast af kvótasölu.
Það eina sem gæti staðið áformum ráðherrans fyrir þrifum er að meðan ósamið er við Evrópusambandið , Norðmenn og Færeyinga um skiptinu makrílveiða milli landanna verður hæpið að gefa út varanlega kvóta. Nú þegar augljóst er að ráðherrann er mjög í mun að einkavinavæða makrílverðmætin og ætlar sér að sniðganga Alþingi og þinglega umfjöllum um ráðstöfun gríðarlegra verðmæta blasir við sú hætta að lagt verði allt kapp á að ljúka samningum og slegið af kröfum Íslendinga, jafnvel á kostnað þjóðarhagsmuna.
Af því tilefni að Sigurður Ingi Jóhannsson lagði til og greiddi því atkvæði að 4 fyrrverandi ráðherrar yrðu dregnir fyrir Landsdóm fyrir vanrækslu í starfi vaknar sú spurning hvort ekki sé eðlilegt, með þeim rökum sem hann setti þá fram, að íhuga hvort ástæða sé til þess að Alþingi stefni honum fyrir Landsdóm þar sem hann gangi bersýnilega gróflega gegn almannahagsmunum með áformum sínum um ráðstöfum eigna ríkisins.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir