Símhleranir – Hver á að gæta gæslumannanna?

Pistlar
Share

Róbert Spanó vakti athygli í því fyrir skömmu að frá 2009 hefðu dómstólar heimilað lögreglu að hlera síma í fjölmörg skipti.Telur hann núverandi ástand óviðunandi. Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins eru tilvikun orðin rúmlega 400 á tveimur og hálfu ári. Eftirliti með lögreglunni er af skornum skammti og þykir Ríkissaksóknara þörf á úrbótum. Hefur Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari skrifað dómstólaráði og vill fá upplýsingar um hvern úrskurð jafnóðum og hann er kveðinn upp. Þá hefur Bogi Nilson, fyrrverandi ríkissaksóknari látið í ljós sömu skoðun og Róbert Spanó.

Það er vel að opinberir aðilar með eftirfylgni Fréttablaðsins taki upp almannahag í þessu máli. Veikleikinn í kerfinu er einmitt þessi: hver á að hafa eftirlit með eftirlitinu? Hver á að vakta lögregluna og gæta hagsmuna þeirra sem lögreglan fylgist með?

Íslensku lögin hafa löngum verið sniðin að dönskum lögum. Þar hafa verið nokkuð lengi ákvæði um eftirlit með lögreglunni þegar hlerun hefur verið heimiluð með þeim hætti að dómstólarnir hafa skipað réttargæslumann fyrir þann sem hleraður er, þótt hann viti hvorki af hleruninni né gæslumanninum, sem eðlilegt er . Gæslumaðurinn gætir þess að lögreglan haldi sig innan ramma laganna. Þegar ákvæðin voru innleidd í íslensk lög var fellt úr ákvæðið um réttargæslumann, líklega vegna andstöðu lögreglunnar og ríkissaksóknaraembættisins. Þar fengu þeir að ráða því að ekkert eftirlit hefur verið með störfum þeirra varðandi símhlerun.

En það hefði samt verið hægt að setja tímanlega inn í lögin ákvæðið um réttargæslumanninn. Ég flutti um það frumvarp á Alþingi í október 2007. Umsagnaraðilarnir fjórir lögðust allir gegn frumvarpinu. Það voru landssamband lögreglumanna, Ríkislögreglustjóri, sem sagði beinlínis að ákvæði frumvarpsins væri óþarft, Ríkissaksóknari og svonefnt Ákærendafélag Íslands. Í umræðum um málið kom skýrt fram að hljómgrunnur var meðal alþingismanna fyrir því að efla eftirlitið með lögreglunni, en engu að síður var það niðurstaðan að áhrif þeirra sem vildu hafa sem frjálsastar hendur fyrir sig við eftirlit voru meiri og þeir fengu að ráða för – á kostnað almennings, sem er berskjaldaðri fyrir athöfnum lögreglu en tilhlýðilegt þykir í Danmörku.

Nú vakna menn við vondan draum eftir nærri fjögur ár og 400 hleranir og ríkissaksóknari hefur loks áttað sig á því að bregðast þarf við og setja verður lögreglunni skorður og hafa eftirlit með henni. Vonandi tekur Innanríkisráðherra af skarið og beitir sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum á Alþingi og vonandi ríkir meiri gætni innan veggja Alþingis í garð varðmannanna þegar löggjöfin er mörkuð um starf þeirra.

Eins og Rómverjarnir sögðu forðum: Hver á að gæta gæslumannanna? Svarið er, það er hlutverk Alþingis að gera það. Ég leyfi mér að minna á að það var flutt frumvarp og það í tíma.

Athugasemdir