Línuívilnun í Bolungavík : 5.200 tonn og 1.650 milljónir króna

Pistlar
Share

Línuívilnun var tekin upp fyrir 8 árum og veitir þeim bónus sem veiða á línu. Í upplýsingum, sem ég hef fengið frá Fiskistofu kemur fram að um 40% af allri línuívilnun frá upphafi fór til útgerða sem lönduðu afla sínum í Vestfjarðahöfnum. Samtals eru það 13.325 tonn af þorski, ýsu og steinbít. Það er af þeirri einföldu ástæðu að Vestfjarðamiðin eru fengsæl og þaðan er ódýrast að sækja til fiskjar. Tæp 70% af öllum steinbít veiddum skv. þessari reglu var landað á Vestfjörðum og 35% af öllum þorski og ýsu.

Bolungavík var langöflugasti línuútgerðarstaðurinn á landinu þessi 8 fiskveiðár frá 2003/2004. Samtals hefur línuívilnunun skilað þangað á land 2.286 tonnum af þorski til viðbótar við aflann sem reiknaður var til kvóta. Af ýsu komu 1.564 tonn vegna ívilnunarinnar og 1.357 tonn af steinbít. Samtals er ívilnunaraflinn 5.206 tonn yfir þetta 8 ára tímabil. Lætur nærri að Bolungarvík ein sé með um 40% af allri línuívilnum sem féll í hlut Vestfirðinga.

Verðmæti þessa afla er mjög mikið, sérstaklega þegar litið er til þess hve fáir búa í plássinu. Ef miðað er við verð á fiskmarkaði síðustu vikurnar og gert ráð fyrir að allur aflinn væri seldur á því verði má fá gott mat á verðmætið. Miða er við 330 kr/kg fyrir þorskinn, 350 kr/kg fyrir steinbít og 270 kr/kg fyrir ýsuna. Að gefnum þessum forsendum fæst að heildarverðmæti aflans sem fyrir línúvilnuna fékkst sé hvorki meira né minna en 1.651 milljón króna. Það eru um 2 milljónir króna á hvern íbúa staðarins. Línuívilnunin hefur skipt sköpum fyrir endureisn Bolungavíkur eftir áfallið sem menn urðu fyrir þegar Grindvíkingarnir fóru með allan kvótann. Án þessarar reglu væri öðruvísi um að litast við Djúp.

Línuívilnun hefur þá sérstöðu að útgerðarmenn sitja við sama borð. Við þessar aðstæður er gert úr þar sem hagkvæmast er. Veitt er þar sem bestu miðin eru og styst og ódýrast að sækja fiskinn. Lykilatriðið er að kostnaður við kvótaöflun er sá sami hjá öllum. Í línuívilnun borgar enginn fyrir fiskinn sem felst í ívilnuninni.

Þetta er þyrnir í augu LÍÚ og hákarlanna þar. Þeir vilja leggja af línuívilnunina af því að þeir eru á móti jafnræði og samkeppni . Þeir vilja eiga kvótann sjálfir og leigja hann til þeirra sem eru að eflast af eigin verðleikum sem hæfir útgerðarmenn. Ef þeir fá sitt fram mun allur arðurinn af hagkvæmu veiðunum og útsjónarsemi dugmiklu útgerðarmannanna renna til LÍÚ kvótaeigendanna. Einkaframtakinu stafar mest hætta af LÍÚ.

Í kvótakerfinu er greitt mjög mismunandi verð fyrir kvótann. Þar að auki greiða sumir útgerðarmenn öðrum sem fyrir eru þannig að ekkert jafnræði er innan greinarinnar og öll samkeppni um veiðiheimildirnar er í skötulíki. Við þessar aðstæður ræðst útgerðarmystrið af öðru en beinum kostnaði við veiðarnar og verður þess vegna meira um óhagkvæmar veiðar og vanhæfa útgerðarmenn en ella væri.

Þegar jafnræðið er til staðar kemur skýrt fram mismunandi hagkvæmni veiðanna eftir veiðarfærum og veiðistöðum. Færa má sterkar líkur fyrir því að væri úthlutunarkerfi veiðiheimilda þannig að allir sætu við sama borð myndu veiðarnar þróast líkt og við línuútgerðina. Sjávarplássin við bestu miðin myndu eflast og þannig á það að vera. Sjávarauðlindin og hagkvæmni þess að nýta hana á að ráða byggðaþróuninni. Jafnræðið við öflun veiðiheimilda er lykilatriðið, það sannar línuívilnunin

Athugasemdir