Héraðsdómur Reykjaness: dómur styrkir kröfur um verðtryggingu í stað gengistryggingar

Pistlar
Share

Í síðustu viku féll merkilegur dómur í Héraðsdómi Reykjaness. Dómurinn féllst á að efnahagshrunið hefði valdið því að brostnar væru forsendur fyrir óverðtryggðum verksamningi. Talsmaður neytenda sagði í Viðskiptablaðinu 19. ágúst dóminn merkilegan og vel rökstuddan. Sagðist hann líta svo á að efnahagshrunið hafi haft þau áhrif að forsendur margra lánasamninga almennra neytenda við bankastofnanir væru hugsanlega brostnar og nefndi sérstaklega verðtryggð lán.

Þarna er talsmaðurinn að skýrskota til þess að verðbólgan undanfarin tvö ár hafi verið langt umfram það sem búist var við og af þeim sökum séu forsendur skuldaranna fyrir lántökunni brostnar og þeir ekki bundnir af því að endurgreiða lán sitt samkvæmt ákvæðum þess um verðtryggingu.Skuldarinn á, að mati talsmanns neytenda, aðeins að endurgreiða verðtryggt lán ef verðbólga er lág og sá sem veitti lánið á að bera skaðann af því að verðbólgan verði meiri á lánstímanum. Þar sem gengistrygging hafi verið dæmd ólögmæt, eins og til dæmis í mörgum bílalánum, eigi aðeins að greiða umsamda samningsvexti og engar bætur í stað hinnar föllnu gengistryggingar. Þessum sjónarmiðum hefur talsmaður neytenda ásamt fleirum haldið hátt á lofti í umræðunni um gengistryggðu lánin eins og kunnugt er og lesa má að heimasíðu embættisins.

Þessu er ég algerlega ósammála. Dómur Héraðsdóms Reykjaness er mjög á sama veg og dómar Héraðsdóms Reykjavíkur um vexti í stað gengistryggingar sem dæmd var ólögmæt, byggir á sömu rökum en gengur þó lengra að því leyti að nú er dæmt að skuld skuli greidd verðbætt miðað við neysluverðsvísitölu en í fyrri dómum var úrskurðað að miða skuli við óverðtryggða vexti Seðlabankans.

Dómurinn skar úr um deilu milli sveitarfélagsins Álftaness sem bauð út byggingu á sundlaug og íþróttahúsi og verktakans sem vann verkið. Samningur aðila var til skamms tíma og óverðtryggður. Frá tilboðsgerð til afhendingar verksins hækkaði vísitala byggingarkostnaðar um 29,9%. Verktakinn vildi fá samningaverðið verðbætt en sveitarfélagið neitaði og höfðaði verktakinn þá mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Niðurstaða dómsins varð að verðlagsforsendur hefði brostið og ósanngjarnt væri að samningurinn stæði óbreyttur og að verktakinn bæri skaðann af verðþróun umfram þá 4% verðbólgu sem búist var við þegar hann var gerður. Var því sveitarfélagið dæmt til þess að greiða verktakanum verðbæturnar.

Hafa verður í huga að almennur lántakendur eru í sömu sporum og sveitarfélagið Álftanes. Þeir fengu verðmæti í hendurnar og ber að endurgreiða þau samkvæmt fyrirliggjandi samþykktum samningi. Lántakendurnir fengu peninga og ráðstöfuðu þeim til íbúðarkaupa, bílakaupa eða annarra þarfa, sveitarfélagið fékk byggingar afhentar, íþróttahús og sundlaug. Fordæmisgildi dómsins gagnvart lántakendum er að sanngjarnt er talið að þeir , rétt eins og sveitafélagið Álftanes, endurgreiði fengin verðmæti verðbætt miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs. Það skipti Héraðsdóm Reykjaness engu máli að sveitarfélagið Álftanes er sokkið í skuldafen og getur ekki efnt skuldbindingar sínar hjálparlaust, dómurinn tekur ekki mið af því heldur aðeins málsatvikum og fyrirliggjandi samningi. Sama mun eiga við um almenna lántakendur. Forsendurbresturinn losar skuldarann ekki undan skuldunum, hann verður að axla þær eftir sem áður. Dæmdur forsendubrestur tryggir stöðu þess sem lánaði verðmætin og kemur í veg fyrir að skuldarinn hagnist af verðbólgu.

Héraðsdómur Reykjaness kemst að þeirri niðurstöðu að það sé bersýnilega ósanngjarnt að verktakinn beri skaðann af verðbólgunni og víkur til hliðar ákvæði verksamnings um engar verðbætur. Það er breyting á forsendum samnings milli aðila og verður til þess að verktakinn fær þau verðmæti fyrir verkið sem hann átti að fá miðað við lága verðbólgu. Vísað er til 36. gr. Samningalaga nr 7/1936 því til stuðnings sem heimilar dómstólum að breyta samningum sem eru bersýnilega ósanngjarnir.

Þetta er kunnuglegt frá umræðunni um gengislánadóm Hæstaréttar. Þar var því haldið fram af ýmsum, m.a. talsmanni neytenda, að ekkert ætti að koma í stað gengistryggingar sem dæmd hafði verið ólögmæt. Samningar ættu að öðru leyti að standa óbreyttir og lántakendum bæri aðeins að greiða samningsvextina. Hérðasdómur Reykjaness er með þessum verktakadómi að hafna þessu sjónarmiði talsmanns neytenda og segir dómurinn skýrt að sanngjarnt sé að greiða verðtryggingu og gengur að því leytinu til lengra en Héraðsdómur Reykjavíkur, sem dæmdi í öðrum málum nýlega að óverðtryggðir vextir Seðlabankans kæmu í stað gengistryggingar.

Kjarni málsins er einmitt sá að dómarnir þrír sem fyrir liggja undirstrika að skuld beri að endurgreiða og að mati dómsins er bersýnilega ósanngjarnt að lánveitandinn tapi á verðbólgunni en lántakandinn hagnist að sama skapi. Forsendurbresturinn snýr að þeim sem lét verðmætin af hendi og á að fá þau til baka. Dómarnir ganga í þá átt að svo verði.

Talsmaður neytenda snýr dómum Héraðsdómanna beggja málinu algerlega á hvolf þegar hann heldur því fram að forsendubresturinn leiði til þess að sá sem lánið tók og verðmætin fékk í hendurnar eigi ekki að skila andvirði þess sem hann fékk að láni. Engir dómar hafa gengið í þá veru og enn sem komið er ekkert sem bendir til þess.

Það er mikið alvörumál og óábyrg hegðun af opinberu embætti að ætla sér, vitandi eða óafvitandi, að blekkja almenning svo gróflega sem raun ber vitni. Það er ekki til þess að auðvelda þjóðinni að vinna sig út úr gríðarlegum erfiðleikum að stöðugt sé alið á því að með einu pennastriki eða einum dómi hverfi hvers manns óþægindi eins og dögg fyrir sólu. Það er ekki svo.

Athugasemdir