Kvótakerfið í sjávarútvegi jók skuldir sjávarútvegsins um 400 milljarða króna frá 1997 til 2008. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Skýrslan var unnin fyrir starfshóp sem vinnur að endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar. Í lok árs 1997 voru nettóskuldir fyrirtækja í sjávarútvegi 87 milljarðar króna en voru orðnar 465 milljarðar króna í árslok 2008. Nettóskuldirnar nema 272% af útflutningstekjum árið 2008 og hafa þrefaldast frá 1997 þegar þær voru 90%.
Skuldir jukust meira á þessu tímabili en eignir með þeim afleiðingum að bókfært eigið fé greinarinnar þurrkaðist út. Skuldaaukningin er fyrst og fremst vegna kaupa á aflaheimildum. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum, svo sem skipum, tækjum og húsum hefur ekki aukið skuldirnar. Engin framleiðniaukning varð í veiðum þrátt fyrir kvótakaupin og kvótakerfið. Svo ekki hefur kvótasalan eflt sjávarútveginn með betri og fullkomnari skipum eða búnaði. Hins vegar varð mikil framleiðniaukning í fiskvinnslunni, sem ekki er stjórnað með kvótakerfi og býr við atvinnufrelsi og samkeppni.
Skuldaaukning verður ekki skýrð með hagstæðri þróun á ytri skilyrðum sjávarútvegsins. Afli dróst saman um þriðjung mælt í þorskígildum og afurðaverð lækkaði um 20% að raungildi. Þessi atriði hefðu átt að leiða til varkárni í skuldsetningu. En verð á aflaheimildum fór úr 260 kr/kg í þorski í byrjun árs 1995 í 3.800 kr/kg í júní 2008 þegar það varð hæst. Síðan hefur verðið fallið og er nú um 1.800 kr/kg í þorski. Mikil viðskipti með aflaheimildir og einkennileg þróun verðs þeirra er helsta ástæðan fyrir 400 milljarða króna skuldaaukningu í íslenskum sjávarútvegi.
Það blasir við að þessir 400 milljarðar króna hafa runnið meira og minna út úr greininni og koma sjávarútveginum ekki að neinu gagni. Það eru seljendurnir, sem njóta góðs af og geyma féð í einkahlutafélögum út um allar koppagrundir og hafa til eigin persónulegrar ráðstöfunar. Skuldirnar hvíla á atvinnugreininni og sliga fyrirtækin. Um það bil helmingur fyrirtækjanna er svo illa staddur eftir 12 ára tímabil kvótaviðskipta að þau stefna í þrot við minnstu breytingu á tekjum eða útgjöldum.
Það þarf ekki frekari reynslu af kerfinu. Nóg er komið. Óbreytt kerfi leiðir það sama af sér og undanfarin ár. Kvótinn verður áfram seldur, afraksturinn fluttur út úr greininni í einkahlutafélög eigendanna en sjávarútvegsfyrirtækin sitja eftir með skuldirnar. Eftir önnur 12 ár verða enn fleiri fyrirtæki yfirskuldsett en nú er. Óbreytt kerfi leiðir af sér enn meiri ógæfu. Það verður að grípa til lagfæringa á þessu lokaða einokunarkerfi.
Það verður að takmarka gildistíma aflaheimilda við 10 ár að hámarki. Á þann hátt lækkar verðið á kvóta og skuldsetningin dregst saman að sama skapi. En fyrst og fremst þarf að opna fyrir samkeppni og jafna aðstöðu milli fyrirtækja innan greinarinnar. Ríkisvaldið verður að afnema þann mun sem úthlutun veiðiheimilda veldur milli einstakra fyrirtækja. Án atvinnufrelsis þrífst enginn heilbrigður atvinnurekstur. Þróunin í fiskvinnslunni er kannski mesta andstæðan við þróunina í fiskveiðum. Í fyrrnefndri atvinnugreininni er atvinnufrelsi en í hinni síðarnefndri er einkavædd einokun. Er einhver sem heldur því fram fiskvinnslan þurfi kvótakerfi?
Athugasemdir