Forseti Íslands hefur ratað í slíkt fúafen síðan um áramót að engin leið er fyrir hann fær til baka. Forsetaembættið er orðið óþekkjanlegt og engin ríkisstjórn, hvorki sú sem nú situr, né þær sem síðar munu koma, mun sætta sig það pólitíska athafnasvið sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur afmarkað sér. Nú sitja í raun tvær ríkisstjórnir í landinu, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórn Ólafs Ragnars Grímssonar. Í þeirri fyrri eru 12 ráðherrar en aðeins einn í hinni síðarnefndu.
Það munu verða átök þarna á milli og þeim lýkur ekki fyrr en annar forseti hefur verið kjörinn. Traust og nauðsynlegur trúnaður milli forseta og ríkisstjórnar er ekki lengur fyrir hendi. Það gæti farið svo á næstu vikum að forsetinn hrekji ríkisstjórnina frá völdum og pólitísk upplausnarástand bætist við erfiðleikana sem þjóðin glímir við þessi misserin.
Líklega er réttara að tala um að forsetinn hafi ratað í ógöngur fremur en að hann hafi ætlað að ganga þá leið sem hann er á. Hann hefur lent í verulegum vandræðum í erlendum fjölmiðlum við að skýra ákvörðun sína um að hafna því að skrifa undir Icesave lögin síðari. Þegar á hann er gengið koma fram mótsagnir í röksemdum hans og hann fer langt úr fyrir sitt verksvið til að fanga málsvarnir.
Forsetinn var svo sem búinn að fá viðvörun. Fyrir réttu ári álpaðist hann til þess í viðtali við Financial Times Deutschland að segja að hann hafnaði því að þýskum sparifjáreigendum yrði bætt tap vegna Kaupþing Edge reikninganna í Þýskalandi og skýrði það með því að Íslendingar hefðu tapað öllu í bankahruninu. Af þessu varð mikið fjaðrafok bæði hér á landi og í Þýskalandi sem lauk með því að forsetinn gaf út formlega yfirlýsingu þar sem allt var dregið í land og lýsti því yfir að Ísland myndi standa við skuldbindingar íslenskra banka erlendis. Það hefði mátt læra af þessari reynslu.
Forseti Íslands skýrði synjun sína á þann hátt að hann léti kjósendum eftir að ákvarða lyktir málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem eftir því hefði verið eindregið óskað. Það væri í raun eina aðkoma hans að málinu. En fljótlega fór hann út af sporinu í viðtölum við erlenda fjölmiðla. Á CNN fyrir síðustu helgi tók hann skýra afstöðu gegn Icesave lögunum þegar hann sagði að „Íslendingar vilji ekki vera settir út í horn á þann hátt að efnahagur landsins næstu tíu árin er í húfi“.
Þarna er forseti Íslands orðinn þátttakandi í umræðunni gagnstætt því sem hann sagði sjálfur og að auki er hann ótvírætt andstæðingur ríkisstjórnarinnar. Lýðræðið sem hann ætlaði kjósendum verður honum sjálfum um megn þegar á reynir. Forseti Íslands er líka kominn í andstöðu við sjálfan sig efnislega. Hann skrifaði undir fyrri Icesave lögin og þau eru í öllum meginatriðum eins hvað greiðslur varðar næstu 14 árin, fram til 2024. Fjármálaráðuneytið metur seinni lögin þannig að greiðsla vegna vaxta og höfuðstóls verði á fyrri hluta lánstímans heldur lægri en reiknað var með. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Seðlabankinn og Fjármálaráðuneytið meta öll að ríkið muni ráða við skuldbindingarnar. Allt þetta lætur forsetinnsem vind um eyru þjóta.
Ólafur Ragnar Grímsson fer líka verulega á svig við sannleikann í vörn sinni fyrir eigin gerðir. Hann gerir lítið úr lýðræðishefð í Bretlandi en miklar mjög lýðræðið á Íslandi. Það hefði hann betur látið ósagt, a.m.k. þegar litið er til þjóðaratkvæðagreiðsla í löndunum tveimur. Hann ýkir kostnað landsmanna vegna Icesave, nefnir heildarupphæð samningsins en lætur hjá líða að geta þess að eignir Landsbankans munu greiða stærsta hluta skuldarinnar, ef til vill alla fjárhæðina. Það sæmir ekki þjóðhöfðingja að ástunda pólitíska talnaloftfimleika og gera svo illt verra með því að bera stjórnvöld í öðrum ríkjum þungum sökum.
Þar með er hann stiginn langt inn á verksvið ríkisstjórnarinnar og út fyrir sitt. Forseti Íslands hagar sér eins og hann sé sjálfstæð ríkisstjórn og að honum komi ekkert við stefna hinnar eiginlegu ríkisstjórnar. Staðan er orðið skyndilega sú að forsetinn er orðinn gerandi í stjórnmálunum og ríkisstjórnin verður að leita eftir samningum við hann um framvindu málsins og jafnvel öðrum þeim málum sem forsetanum kann að þykja ástæða til þess að skipta sér af.
Synjunin var þá eftir allt saman ekki til þess að færa vald til þjóðarinnar heldur til hans sjálfs, Ólafs Ragnars Grímssonar. Vilji Alþingi hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu verður slíkt ekki gert nema með samþykki forsetans, vilji Alþingi breyta lögunum verður það ekki gert nema með samþykki forsetans, vilji Alþingi ljúka málinu eins og það ákvað í desember er forsetinn á móti því.
Kjarni málsins er þá þessi: það eru tvær ríkisstjórnir í landinu. Það gengur ekki og forsetinn er kominn svo langt út í eigin fúafen að engin ríkisstjórn mun sætta sig við sinn hlut. Uppgjör er óhjákvæmilegt og því mun að lokum ljúka með því að nýr forseti verður kjörinn.
Athugasemdir