Þeirri skoðun er haldið fram að ríkið beri enga ábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðsins innstæðueigenda. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og sé því ríkinu óviðkomandi. Íslendingar eigi þess vegna ekki að greiða neitt vegna Icesave innstæðnanna umfram það sem sjóðurinn sjálfur getur greitt. Framsóknarflokkkurinn er oftast á þessari skoðun og Sjálfstæðisflokkurinn stundum.
Fylgi við þetta viðhorf fer vaxandi þessa dagana og það gæti verið skoðun meirihluta þjóðarinnar. Ekki hefur verið deilt um ábyrgð sjóðsins. Íslensk stjórnvöld og stjórn sjóðsins sjálfs hafa viðurkennt að allar innstæður í íslenskum bönkum séu tryggðar hjá sjóðnum, þar með taldar Icesave innstæðurnar. Sjóðurinn hefur þegar greitt nokkrum breskum Icesave innstæðueigendum, svo sem sveitarfélögum og góðgerðarfélögum, lágmarkstrygginguna, samtals um 1 milljarð króna.
Í Tryggingarsjóðnum voru aðeins um 16 milljarðar króna en Icesave innstæðurnar voru samtals um 1250 milljarðar króna. Sparifjáreigendur eiga um 2000 milljarða króna í íslensku bönkunum. Ekkert er til í Tryggingarsjóðnum. Peningarnir væru algerlega ótryggðir ef ekki kæmi til yfirlýsing ríkisstjórnarinnar þess efnis að allar innstæður séu tryggðar. En ef sú skoðun verður ofan á að ríkið beri enga ábyrgð þá er sjálfgefið að sú yfirlýsing verður afturkölluð.
Á næstu árum gætu safnast um 20 milljarðar króna í sjóðinn. En það breytir engu. Hann gæti tæpast staðið undir skuldbindingum sínum við þrot lítilla sparisjóða. Fráleitt að sjóðurinn geti ábyrgst innstæður í einum meðal viðskipabanka. Markaðshlutdeild hans gæti verið um 20% eða 400 milljarðar króna innstæður. Óumdeilt er að innstæðutryggingarkerfið eigi við þegar einstök fyrirtæki komast í vandræði og að kerfið eigi að geta tryggt innstæður við þær aðstæður. En það er líka jafn augljóst að kerfið á Íslandi mun ekki geta varið innstæðurnar , jafnvel ekki við afar takmörkuð áföll.
Fyrir liggur að stjórnvöld í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðsins, Norðmenn og allar 27 Evrópusambandssþjóðirnar, eru einróma í því að ríkissjóðirnir standi á bak við tryggingasjóðina í sínum löndum. Íslenskir sparifjáreigendur standa þá í þeim sporum að fé þeirra er ótryggt í bönkum hér á landi en öruggt í öðrum löndum EES. Það gefur auga leið að þeir hljóta að grípa til þess að flytja fé sitt í erlenda banka og hafa til þess fullt frelsi enda er frelsi til þess að flytja fjármagn milli landa innan EES.
Því ákveðnari sem Íslendingar verða í því að sparifé sé ótryggt þeim mun fyrr munu sparifjáreigendur verða hraktir með fé sitt úr landi. Hverjum er það til gagns?
Athugasemdir